Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 9. febrúar 2008

 

Herra frú ráðherra og sjónvarp frá Alþingi

 

Stjórnmál eiga það til að vera stöðug endurtekning. Sama málið er tekið upp aftur og aftur og sömu rimmurnar háðar. Víglínurnar eru oft fyrirsjáanlegar og hafa jafnvel ekkert með málið sjálft að gera. Þess vegna er alltaf jafnskemmtilegt þegar víglínurnar hverfa og þingmenn taka saman þvert á flokka og fyrri rifrildi.

Þannig var því háttað í umræðum um fangabúðir Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu í vikunni en þingmenn allra flokka lýstu yfir mikilli óánægju með þær fregnir að vatnspyntingum hefði verið beitt við yfirheyrslur. Margir höfðu þegar tekið undir þingsályktunartillögu Vinstri grænna um að Alþingi fordæmi mannréttindabrot og hvetji bandarísk yfirvöld til að loka Guantanamo.

Stundum er því haldið fram að rödd Íslands skipti engu í hinu stóra samhengi en þegar kemur að eins grófum mannréttindabrotum og um ræðir eiga íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu að spyrna við fótum. Það væri jafnframt sómi að því að utanríkisráðherra færi að tillögu Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG, og kallaði sendiherra Bandaríkjanna á sinn fund til að mótmæla þessu framferði.

Karlgerðar konur

Steinunn Valdís Óskarsdóttir virðist ekki fá mikinn stuðning við þingsályktunartillögu sína um að fundið verði nýtt og kynhlutlausara orð yfir ráðherra. Málið var rætt á þingi í vikunni og aðeins einn þingmaður sem tók til máls, Steinunn Þóra Árnadóttir, studdi tillöguna heilshugar.

Að sjálfsögðu má deila um það hvort breyta eigi rótgrónum orðum í tungumálinu. Helstu mótrökin eru málfarsleg íhaldssemi, sem auðvitað á fyllilega rétt á sér. Málfarsbreytingar mega ekki vera svo hraðar að kynslóðir skilji illa hver aðra og ekki er góður bragur á því að skipta orðum út af litlu tilefni. Breytingar á starfsheitum eru þó langt frá því að vera fordæmalausar á Íslandi. Fóstrur urðu leikskólakennarar, hjúkrunarkonur hjúkrunarfræðingar og skúringakonur urðu ræstitæknar. Einhverra hluta vegna hefur þótt sjálfsagðara að breyta starfsheitum sem vísa til kvenna en karla og glittir þar í gamalgróin viðhorf að það sé miklu vandræðalegra að kvengera karla en að karlgera konur.

Kynhlutleysi eða kynusli?

Bjarni Harðarson þingmaður hefur borið því vitni og sagt frá því að mörgum hafi svelgst á þegar hann fór að kalla sig kaffidömu á bókakaffi þeirra hjóna. Ég er hjartanlega sammála Bjarna að það væri skemmtilegast ef orðin fengju öll að standa enda kynusli skemmtilegri en kynhlutleysi. Ef almennt er talið að starfsheiti eigi að endurspegla umrætt verksvið og fólkið sem sinnir starfinu þá er orðið ráðherra einfaldlega ekki nógu gott.

Í umræðu um þetta á þingi kvað við gamalkunnan og heldur þreyttan tón, þ.e. að þetta væri nú ekki brýnasta málið sem ætti að ræða hvað varðar jafnrétti kynjanna.

Þessi röksemdafærsla tekur á sig margar myndir en heyrist oft og iðulega í umræðum um réttindabaráttu ólíkra hópa. Sjálfskipaðir dómarar segja þeim sem standa í eldlínunni fyrir hverju eigi að berjast og hverju ekki. Oftar en einu sinni hefur mér t.a.m. verið bent á að beina sjónum mínum að hræðilegum aðstæðum kvenna í útlöndum þegar ég ræði ofbeldi gegn konum á Íslandi.

Með þessum rökum mætti kveða niður stóran hluta af íslenskri þjóðfélagsumræðu. Eða á nokkuð að bæta aðbúnað fanga á Íslandi því að allt er verra í Guantanamo? Og er ekki alveg út í hött að eyða orku í mögulegar breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu meðan fiskveiðistjórnunarkerfi annarra þjóða eru miklu verri?

Eins og Steinunn Valdís benti á í umræðunum þá útilokar eitt ekki annað. Það er nefnilega allt í lagi að þrífa skrifborðið í vinnunni þótt allt sé í drasli á heimilinu.

„Óafbakað“ þingsjónvarp

Athyglisverð hugmynd var reifuð í vikunni þegar rætt var um þingsályktunartillögu frá fulltrúum allra flokka um að þingfundum verði útvarpað á sérstakri útvarpsrás. Þetta er auðvitað hin besta tillaga því þó að fundir Alþingis séu á netinu, og í sjónvarpi eftir tilvikum, þá myndu útvarpsútsendingar auka enn á aðgengi fólks að fundum þingsins.

Árni Johnsen fór þó út í dálítið aðra sálma þegar hann lagði til að Alþingi kæmi á fót sjónvarpsgerð sem myndi fjalla um nánast öll þingmál. Þessu fylgdu útlistanir á afbökuðum málflutningi fjölmiðla frá Alþingi sem væri háður „geðþóttauppsetningu ýmissa fjölmiðlamanna“. Árni sagði Alþingi ekki geta setið undir því til lengdar „að láta misvitra túlkunarmenn velja og hafna því sem kjörnir þingmenn þjóðarinnar eru að fjalla um“. Lágstemmt orðaval það.

Ég veit ekki betur en almennt hafi þingmenn ágætan aðgang að fjölmiðlum. Það sem ekki ratar í fréttir má skrifa um í aðsendri grein auk þess sem margir fá tækifæri til að tjá sig í hinum ólíkustu spjallþáttum.

Tilraun á borð við þessa gæti engu að síður verið mjög skemmtileg. Sérstaklega yrði gaman að fylgjast með þingmönnum ná samstöðu um ritstjórn og efnistök. Áhorfstölur og kostnaður myndu vekja athygli þeirra sem áhuga hafa á fjölmiðlum og síðast en ekki síst væri spennandi að sjá hvernig flokksfélagar Árna, sem almennt vilja sem minnst ríkisumsvif, brygðust við sérstakri sjónvarpsþáttagerð Alþingis.

Eða getur verið að Árni sé einn um að vilja fara þessa leið?