Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 2. febrúar 2008

 

Evrópumál og tölvupóstaráðuneyti

 

Utanríkisráðherra flutti Alþingi skýrslu um innri markaði Evrópu nú í vikunni en þetta er í fyrsta sinn sem Evrópumál eru rædd sérstaklega á þingi, þ.e. aðskilin frá utanríkismálum almennt.

Sú nýbreytni er til góðs enda á Ísland mikið undir því að fylgjast vel með þróun mála í Evrópu.

Engar tímamótayfirlýsingar komu fram í umræðunum og raunar fátt sem kemur á óvart. Samfylkingin er hrifnust af aðild að Evrópusambandinu (ESB), Framsókn er til í að skoða það en hinir flokkarnir eru tregari til, þótt auðvitað vilji allir fylgjast vel með o.s.frv.

Ný nefnd um Evrópumál tekur til starfa undir forystu tveggja þingmanna, úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Siv Friðleifsdóttir sagði í umræðunum að þetta væri til marks um trúnaðarbrest milli ríkisstjórnarflokkanna. Hún hefur nokkuð til síns máls enda ber margt í milli þessara tveggja flokka þegar kemur að nánara Evrópusamstarfi og hugsanlegri aðild að ESB.

Fimm sinnum í Evrópusamruna

Þessi skoðanaágreiningur kom fram í umræðunum á þingi og sjálfstæðismenn virðast vera orðnir dálítið pirraðir á fjálglegum yfirlýsingum samfylkingarmanna um fallvaltleika krónunnar og efnahagsóstjórn síðustu ára.

Það er ekki oft sem þingmenn úr stjórnarliðinu fara upp í andsvör hver við annan en sem dæmi má nefna að Árni Páll Árnason, Samfylkingu, veitti andsvar við ræðu Illuga Gunnarssonar, Sjálfstæðisflokki, og Árni Johnsen, Sjálfstæðisflokki, fór í andsvar við Kristján L. Möller samgönguráðherra.

Evrópumisklíðin mun þó varla valda teljandi vandræðum á kjörtímabilinu enda svo sem búið að finna lausnina; að setja málið í nefnd. Auðvitað hefði hvorugur flokkanna treyst hinum alfarið til að leiða slíkt nefndarstarf og þá lítið annað að gera en að setja Evrópusambandssinnann, Ágúst Ólaf Ágústsson, og Illuga Gunnarsson, einn ötulustu talsmanna gegn aðild, saman í formannssætið.

Og aðeins til gamans. Í Evrópuskýrslu utanríkisráðherra er að finna eftirfarandi setningabrot:

„Ísland er í hringiðu Evrópusamrunans“, „segja má að Ísland sé í hringiðu Evrópusamrunans“, „að sýna hve þétt Ísland er í raun ofið í Evrópusamrunann“, „má glöggt ráða hversu mikinn þátt Ísland tekur í Evrópusamrunanum“ og

„hve náið Ísland stendur kjarna Evrópusamrunans“.

Þar höfum við það, fimm sinnum.

Símasambandslaust?

Frá Evrópuumræðum í aðeins meira hversdagstal. Við blaðamenn styðjumst mikið við símann í störfum okkar, a.m.k. þau okkar sem vinna með hið prentaða orð. Þessu fylgir óneitanlega tímasparnaður en auðvitað getur verið leiðinlegt að hitta viðmælendurna sjaldan augliti til auglitis. Í þingfréttamennskunni nota ég símann minna enda oftast að fylgjast með umræðum í þingsal. Ég var því eiginlega búin að gleyma hversu þreytandi það getur verið að eyða kannski heilu dögunum í að reyna að ná sambandi við fólk, án árangurs.

En nú um daginn var vandanum öðruvísi háttað. Ég átti erindi við dómsmálaráðuneytið og spurði í gegnum símann hver gæti orðið til svara erindi mínu. Þá var mér sagt að senda spurningarnar með tölvupósti. Ég maldaði í móinn, satt best að segja talsvert mikið, og vildi fá símasamband við þann sem ég átti að tala við. Allt kom fyrir ekki. Tölvupóstur skyldi það vera.

Það verður ekki af núverandi dómsmálaráðherra tekið að hann hefur verið frumkvöðull í að nýta tölvutækni við störf sín. Hann svarar tölvubréfum hratt og örugglega og hefur haldið úti virkri heimasíðu frá miðjum tíunda áratugnum.

Hugsanlega hefur hann því sett tóninn fyrir þetta verklag hjá ráðuneytinu enda svarar hann venjulega sjálfur erindum blaðamanna í gegnum tölvupóst.

Segir í tölvubréfi…

Hvað sem því líður getur þessi samskiptamáti verið slæmur fyrir fjölmiðla. Í fyrsta lagi verða svörin mun formlegri og þurrari og erfiðari til að hafa eftir, sbr. „Eins og fram kemur í greinargerð með 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er verið að færa lagabókstafinn…“. Í öðru lagi gerir þetta blaðamönnum erfiðara fyrir að fylgja eftir spurningum og hvað þá að ganga á viðmælendur sína. Í þriðja lagi vakna spurningar um hvernig á að hafa ummælin eftir. Á að skrifa „segir Jóna Jónsdóttir“ eða „skrifar Jóna Jónsdóttir í tölvubréfi“?

Og hvað um ljósvakamiðlana? Eiga þeir alltaf að vitna í tölvubréf?

Ég vona svo sannarlega að ráðuneytið láti af þessu og svari munnlega, nema annars sé óskað.