Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 26. janúar 2008

 

Afneitun þingfréttaritarans

 

Þegar ég hóf störf sem þingfréttaritari var ég spurð að því hvort til stæði að ég sinnti borgarpólitíkinni líka. Ég hélt nú ekki, og útskýrði fyrir viðmælanda mínum með viðeigandi lýsingarorðum að í borginni gerðist hreinlega ekki neitt. Ég hefði einu sinni setið borgarstjórnarfund og þeir væru alveg hræðilega leiðinlegir, þunglamalegir og í allt of stóru rými. Þar væri þrætt fram og aftur um skipulagsmál og hvort mislæg gatnamót ættu að vera hér eða þar. „Hverjum er ekki sama um mislæg gatnamót?“ hrópaði ég. „Borgarstörfin eru engin pólitík, á Alþingi, þar gerast hlutirnir!“

Ég hafði rangt fyrir mér.

Þegar meirihlutinn sprakk í október sl. mátti merkja mikla spennu á göngum Alþingis. Fólk gekk hraðar en venjulega og nefjum var stungið saman í öllum hornum. Við fjölmiðlafólkið stukkum flest út að Tjörn þar sem „Tjarnarkvartettinn“ skráði nöfn sín á spjöld sögunnar, með eftirminnilegum hætti. Ég breyttist á örskotsstundu úr lífsleiðum þingfréttaritara í orkumikinn borgarfréttaritara (sem mér fannst reyndar meira viðeigandi að kalla riddara, einmitt þá).

Ekkert nema kjaftasaga

Nýjasta dramað í borginni átti sér alls ólíkan aðdraganda, a.m.k. í Alþingishúsinu. Upp úr hádegi átti ég símtal við mann sem spurði mig hvort meirihlutinn væri að falla. Ég hélt hann ætti við þingmeirihlutann, hló og sagði að það væri bölvuð vitleysa. Gömul og ný kjaftasaga sem ekkert væri hæft í. Ég kvaddi hann og fór stuttu síðar að fylgjast með umræðum í þingsal um ástandið á Gaza-svæðinu.

Þegar leið á daginn spurði fjölmiðlakona mig hvort ég vissi hvar Ólafur F. ætti heima. Ég gróf það samviskusamlega upp en spurði ekki einnar spurningar um hvað hún vildi Ólafi, sem væri svo knýjandi að símtal dygði ekki til.

Í stuttu máli, þá tók ég hreinlega ekki eftir neinu þennan örlagaríka vetrardag, heldur sat bara og hringlaði með mínar venjubundnu þingfréttir.

Hefði einhver spurt mig hvort Ólafur F. yrði borgarstjóri hefði ég sagt nei. Og haft rangt fyrir mér.

Þegar óstaðfestar fregnir um nýja ráðhúsbyltingu loks bárust stökk ég ekki á fætur heldur rölti rólega niður til að athuga stemmninguna á göngum þingsins. Í þingsal var rætt um hvort fyrirtæki sem halda úti sjóstangveiði ættu að gera það innan kvótakerfisins en gangarnir voru mannlausir.

Skipt um andlit á Netinu

Eftir á að hyggja þá er eins og ég hafi verið í afneitun. Ekki afneitun gagnvart því að einmitt þessi meirihluti væri að taka við, heldur því að önnur bylting ætti sér stað í borginni. Eins og barn alkóhólista sem neitar að trúa að foreldrið sé drukkið, eina ferðina enn.

Mér dugði varla að horfa á blaðamannafundinn í beinni og í staðinn fyrir að umturnast í riddarann sem ég var rúmum hundrað dögum áður kláraði ég mínar þingfréttir og fór svo að sinna áður áætluðum hversdagsleikanum.

Ég hafði spáð því að pólitísku lífi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar væri lokið. Líklega hafði ég rangt fyrir mér.

Satt best að segja trúði ég því ekki almennilega að nýr meirihluti hefði verið myndaður fyrr en á fimmtudag þegar biðja þurfti fólk að yfirgefa áhorfendapalla ráðhússins vegna mótmæla. Á sama tíma mallaði þingfundur áfram í rólegheitum. Rætt var um úrvinnslu ónýtra raftækja, mögulegt loftslagsráð og tillögu Frjálslynda flokksins um að starfsemi Hafrannsóknastofnunar færist undir umhverfisráðuneytið. Margir fylgdust þó með beinni útsendingu frá látunum í Ráðhúsinu og sumir þingmenn hlupu yfir götuna til að fylgjast með, eða taka þátt. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar var skipt um andlit í annað sinn í vetur, og nýtt borgarráð hélt sinn fyrsta fund.

Og hver byltir næst?

Til þess að fullkomna dramatíkina sagði einn borgarfulltrúi af sér einmitt þennan sama dag, án þess þó að það tengdist þessu beint. Ég hafði reyndar spáð því að hann myndi eiga erfitt uppdráttar í pólitík eftir fyrstu byltinguna. Ekki vegna fatakaupa heldur vegna þess að það er ekkert grín að vera í ónáðinni hjá Sjálfstæðisflokknum. Það vill nefnilega svo til að sá flokkur nýtur fylgis í kringum 40% landsmanna, sem eru margir óvinir að eiga.

Smám saman lægir öldurnar og hver veit nema hinn pólitíski hafsjór verði sléttur um stund. Meðan það ástand varir er lítið annað að gera en að velta því fyrir sér hver gerir næstu byltingu. Ekki ætla ég að spá um það, enda óþægilega sjaldan reynst sannspá þegar kemur að borgarpólitík.