Þingbréf: Duglegar flugvélar

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 8. desember 2007

 

Duglegar flugvélar og íslenska tungan í góðum málum

 

Þegar íslensk tunga er rædd á Alþingi gerast flestir ræðumenn hátíðlegir. Samhljómur er um að tungan eigi í vök að verjast og að allir þurfi að leggjast á eitt við að vernda hana, enda sé það hún sem geri Íslendinga að þjóð.

Mér finnst síðasta fullyrðingin alltaf óþarflega dramatísk og í ofanálag er ég svo bjartsýn að halda því fram að íslenskan standi á styrkum stoðum. Börn og unglingar eru skapandi í málnotkun sinni og frá kennaravinum mínum heyri ég alls konar skemmtilegar sögur af ljóðalestri og jafnvel besta skáldskap hjá æsku landsins.

Það þýðir þó ekki að unnendur málsins geti setið með hendur í skauti sér, enda má einmitt þakka þeim ágæta stöðu tungumálsins.

Ég verð að játa á mig smá kvikindisskap. Ég hef stundum punktað hjá mér skondin ummæli sem falla á Alþingi og í þessum umræðum um tunguna fór ég að velta fyrir mér hvort ég ætti kannski að greina frá mannlegum tungumálamistökum þingmanna. Ég var ekki komin langt í þeim hugleiðingum þegar síminn hringdi og á línunni var Íslendingur, búsettur í Bandaríkjunum. Hann benti mér kurteislega á að ég hefði í frétt frá Alþingi gefið dauðum hlut vilja og vit og vísaði hann til fréttar um að orrustuflugvélum sé í sjálfsvald sett hvort þær séu vopnaðar eða ekki. Duglegar flugvélar það!

Þetta kom vel á vondan. Ég hef nefnilega ekki þá afsökun að ég sé óundirbúin í ræðustóli.

Þrátt fyrir þetta þá stenst ég ekki mátið að segja a.m.k. frá ónefndum framsóknarþingmanni sem lét þessi orð falla í ræðustóli: „Róm var ekki unnin á einum degi“. Og enn er ég að reyna að fá botn í þessa setningu úr nefndaráliti: „Tekjur ríkissjóðs eru vanáætlaðar og verða meiri en gert var ráð fyrir.“

Getur frelsi verið vopn?

Þingskapafrumvarp forseta Alþingis er mikið rætt þessa dagana en Vinstri græn standa ein flokka gegn því þó að efasemdarraddir um ákveðin atriði megi heyra í fleiri flokkum. Athugasemdir VG snúa aðallega að því að frumvarpið sé ekki lagt fram í sátt allra flokka sem og að umbætur á starfsaðstöðu þingmanna sé spyrtar saman við breytingar á þingsköpum. Ég verð að játa að mér þótti dálítið undarlegt að lesa um þessar áætluðu umbætur í greinargerð með frumvarpi um annað efni. Engu að síður hlýtur að teljast eðlilegt að fjallað sé um þessi mál samhliða breytingum á þingsköpum, enda hafa Vinstri græn sjálf sagt að ekki sé hægt að skerða ræðutíma nema að þingið, og þá ekki síst stjórnarandstaðan, séu styrkt verulega.

Mér hefur líka þótt dálítið undarlegur málflutningur hjá VG að nota orðið vopn yfir málfrelsi, eða hvernig getur frelsi verið vopn? Hins vegar mætti kalla málþóf vopn en persónulega er ég almennt á móti beitingu vopna.

Ég á líka dálítið bágt með að kaupa þau rök að ef ekki sé hægt að halda langar ræður á Alþingi geti mál runnið í gegnum þingið án þess að þjóðfélagið taki eftir. Ég vona a.m.k. að fjölmiðlar séu öflugri en svo, sem og þingmenn í að koma skoðunum sínum á framfæri.

Hins vegar má taka undir þau sjónarmið VG að fleiri breytingar þurfi að gera. Þingmenn verða að hafa nægilegan tíma til að kynna sér mál til hlítar og þá ekki síst stjórnarandstöðuþingmenn. Lýðræðið snýst ekki bara um að meirihlutinn ráði heldur líka að öll sjónarmið heyrist.

Frumvarpið er samt sem áður skref í átt að betra þingi og ég held að flest fjölmiðlafólk hljóti að fagna styttri og markvissari ræðum og snarpari skoðanaskiptum.

Jesú í Sjálfstæðisflokknum

„Jesú er greinilega genginn í Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði sjálfstæðisþingmaður kankvís í vikunni eftir að VG hafði sakað Sjálfstæðisflokkinn um að selja sjálfum sér eignir á gamla hersvæðinu í Keflavík. Forsætisráðherra vísaði þessu á bug og tók sem dæmi að Þjóðkirkjan hefði verið meðal kaupenda, varla væri kirkjan Sjálfstæðisflokkurinn.

Í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér í hvaða flokki Jesú væri. Það vinnur óneitanlega með Sjálfstæðisflokknum að gamli presturinn minn er giftur inn í hann og svo á ég líka vin sem er prestur og er blár í gegn. En á móti kemur að Jesú virtist ekkert sérstaklega hrifinn af kapítalisma, a.m.k ekki í guðs húsi. Og svo þekki ég líka prest í Samfylkingunni!

En svo er auðvitað önnur spurning um hvort Jesú væri yfirleitt í Þjóðkirkjunni? Kannski væri hann bara í einhverjum vingjarnlegum búddistasöfnuði. Ég þori nú samt ekki að spyrja hvort hann gæti verið í Siðmennt enda myndi ég þá líklega fá báða aðila í stærsta deilumáli þessara daga upp á móti mér.

 

Prev PostÞingbréf: Stóra bláa og bleika barnafatamálið
Next PostÞingbréf: Kristileg orrusta og lambakjöt