Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 17. nóvember 2007

 

Byssur og barnakynhneigð á rólegu þingi

 

Yfirbragð Alþingis hefur verið með rólegra móti undanfarið og nýir sem gamalreyndir þingmenn hafa haft orð á því. Þeir sem muna einhver ár aftur í tímann segja að það sé eðlilegt á fyrsta þingvetri nýs kjörtímabils. Þá hafa sumir nefnt sterkan meirihluta og litla og ósamstiga stjórnarandstöðu sem mögulegar skýringar fyrir deyfðinni á Alþingi. Kannski má bæta því við að ríkisstjórnarsamstarfið virðist ekki alveg vera búið að festa sig í sessi í huga margra, ekki síst eftir allt borgarstjórnardramað. Flokkarnir passa sig því á að vera góðir hver við annan, svona ef ske kynni að þeir þurfi á vináttunni að halda síðar.

En ég ætla að gerast svo hátíðleg að spá því að ríkisstjórnarsamstarfið verði farsælt og endist a.m.k. út kjörtímabilið, ef ekki lengur. Þess vegna hvet ég þingmenn til að hætta að vera of hógværir og þá fær fréttaþyrsta fjölmiðlafólkið kannski aðeins meira að gera.

Margar kynhneigðir

Kolbrún Halldórsdóttir mælti í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á hjúskaparlögum sem kveður á um að ein lög eigi að gilda um samkynhneigð og gagnkynhneigð pör. Enginn stjórnarliði tók þátt í umræðunum en þetta er eitt af þeim málum sem væri mjög gaman að fá sem flesta þingmenn til að taka afstöðu til. Allir sem tóku til máls voru fylgjandi frumvarpinu að undanskildum Jóni Magnússyni, þingmanni Frjálslyndra, sem taldi að réttindi samkynhneigðra mætti tryggja á annan hátt í lögum.

Sú skoðun á fullan rétt á sér en Jón fór þó út á hálan ís þegar hann talaði um að til væri „margs konar kynhneigð“ og að sumar væru refsiverðar samkvæmt hegningarlögum.

Jón færðist í fyrstu undan því að svara þegar hann var inntur eftir því hvað hann ætti við en nefndi síðan barnakynhneigð og sagðist reikna með að allir væru sammála um að hún ætti að vera refsiverð.

Samkvæmt íslenskri orðabók er kynhneigð „hneigð manns til gagnstæðs eða sama kyns í ásta- og kynlífsefnum“. M.ö.o. nær orðið kynhneigð yfir það kyn sem fólk hneigist til og varla hægt að tala um fleiri kynhneigðir en gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð. Engin ástæða er til þess að spyrða umræðu um samkynhneigð saman við ofbeldi gegn börnum.

Fundarstjórn

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur greinilega ekki setið auðum höndum undanfarið. Í vikunni mælti hann fyrir þremur frumvörpum og lagði fram tvö og allt eru þetta vel unnin og þörf frumvörp, t.d. um almannavarnir og um meðferð sakamála.

Björn kom hins vegar dálítið á óvart þegar hann tók sér hálfpartinn fundarstjórnarvald á Alþingi í vikunni. Samkvæmt dagskrá átti Björn að ræða almenn hegningarlög en þegar hann var búinn að tala í u.þ.b. mínútu áttaði fólk sig á því að hann var að flytja ræðu um almannavarnafrumvarpið. Forseti hringdi bjöllunni og benti á mistökin en Björn þakkaði bara fyrir og hélt ótrauður áfram. Það er mögulegt að forseti hafi sagt Birni að halda áfram, án þess að það hafi heyrst, en þetta leit a.m.k. ankannalega út. Mikill órói greip um sig í þingsal og ekki síst hjá þingmönnum sem voru á mælendaskrá.

Hugsanlega áttaði Björn sig ekki strax og hélt þess vegna áfram en forseti þingsins hefði með réttu átt að stöðva hann aftur og óska eftir að hann byrjaði á réttu máli.

Með búnt og byssu

Vinstri græn ollu usla sl. fimmtudag í umræðum um kúvendingu sveitarstjórnar Flóahrepps sem hefur þvert á fyrri áætlanir ákveðið að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hóf umræðuna og sagði lýðræðislega kjörna fulltrúa hafa „bakkað með sitt nei og sína sannfæringu“ og ekki þorað annað andspænis ægivaldinu sem Landsvirkjun er. Steingrímur J. Sigfússon bætti um betur og sagði Landsvirkjun hafa mætt á staðinn daginn eftir að hreppsnefndin hafnaði virkjunaráformum „með seðlabúntið í annarri hendinni og byssuna í hinni“.

Þetta eru þung orð. Er verið að halda því fram að Landsvirkjun beri fé á sveitarstjórnir og að þær taki við því? Ef svo er þá er um mjög alvarlegt mál að ræða og þyrfti að taka upp á öðrum vettvangi og þar sem allir sem aðild eiga að málinu geta svarað fyrir sig.

Hitt er svo annað mál og það er að Guðfríður Lilja og félagar fengu lítil sem engin svör við spurningum sínum. Ætla stjórnvöld að axla einhverja ábyrgð í málinu? Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki og þess vegna geta stjórnvöld ekki bara bent á sveitarfélögin. Hvar stendur Samfylkingin? Afstaða stjórnvalda þarf að vera skýr, hver svo sem hún er.

Duglegir varaþingmenn

En til að enda annars óþarflega neikvætt þingbréf á jákvæðu nótunum þá langar mig að hrósa þeim varaþingmönnum sem hafa komið inn á þing það sem af er þingvetri. Þeir hafa sannarlega tekið hlutverk sitt alvarlega og ekki setið með hendur í skauti sér. Þannig eru nú til meðferðar í þinginu fjögur frumvörp, ein þingsályktunartillaga og ellefu fyrirspurnir sem varaþingmenn hafa lagt fram. Mörg málanna eru í takt við pólitíska stefnumótun sem hefur átt sér stað innan flokkanna og til fyrirmyndar að varaþingmenn, sem koma oftast bara inn á þing í tvær vikur, taki af skarið með svona miklum myndarbrag.