Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. nóvember 2007

 

Utanríkismál og ósammála ráðherrar

 

Utanríkismál voru efst á baugi á Alþingi í vikunni. Umræður um munnlega skýrslu utanríkisráðherra tóku allan fimmtudaginn en fyrr í vikunni höfðu stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar deilt um íslensku friðargæsluna og loftslagsmál.

Forsætisráðherra sagði á Alþingi að það væri hans skoðun að Ísland ætti að freista þess að fá svonefnt íslenskt ákvæði samþykkt í næstu samningalotu í loftslagsmálum. Það vakti talsverða athygli vegna þess að umhverfisráðherra er á annarri skoðun, þó að það hefði kannski ekki þurft að koma neinum á óvart að hugmyndafræðilegur ágreiningur væri milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Ráðherrarnir sögðu nægan tíma til stefnu til að taka ákvarðanir og það verður spennandi að fylgjast með því ferli.

Daprar umræður

Utanríkismál eru eitt af mínum stærstu áhugamálum og þess vegna var ég talsvert spennt fyrir umræðunni um munnlega skýrslu utanríkisráðherra. Skýrslan var ágæt og tók á helstu málum að undanskildum Evrópumálum en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók fram að hún hygðist leggja fram sérstaka skýrslu um þau í janúar.

Ég verð hins vegar að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með umræðurnar. Kannski var ég með of miklar væntingar um að þingmenn myndu nota tækifærið og þylja upp hugsjónir sínar um heimsmálin, en ég er hrædd um að háar væntingar hafi ekki einar og sér nægt til að valda vonbrigðum. Að ólöstuðum þeim sem lögðu greinilega vinnu í undirbúning og tóku þátt í umræðunni af bæði áhuga og þekkingu, virtust sumir þingmenn fara upp í pontu allt að því óundirbúnir eða með sáralítið fram að færa.

Á köflum þóttu mér málefni Íslands vera helst til mikið í brennidepli. Þótt það sé eðlilegt upp að vissu marki þegar utanríkismál Íslands eru rædd var það fullmikið af því góða þegar stór hluti ræðu eina fulltrúa Framsóknarflokksins í umræðunni snerist um starfsmannamál Ratsjárstofnunar. Nú má vel vera að illa hafi verið vegið að forstjóra stofnunar en það er spurning hvort bollaleggingar um það eigi ekki heima á öðrum stað en í umræðum um eins stóran og viðamikinn málaflokk og utanríkismál eru.

Minni mæting á nefndarfundi?

Innan við fjórðungur þingmanna tók þátt í umræðunum og mjög fáir fylgdust með þeim í salnum allan tímann. Af því að Íslendingar eru svo hrifnir af höfðatölu þá má segja að Frjálslyndi flokkurinn hafi tekið mestan þátt enda fóru þrír af fjórum þingmönnum flokksins upp í pontu.

Tveir af níu nefndarmönnum í utanríkismálanefnd þingsins lögðu ekkert til málanna og sáust satt best að segja lítið í þinghúsinu. Nú skal að sjálfsögðu hafa þann fyrirvara á að þingmenn geta fylgst með umræðum á skrifstofum sínum og í sumum tilvikum getur verið um mjög eðlilegar fjarvistir að ræða.

Þetta leiðir samt hugann að orðum sem einn gamalreyndur þingmaður lét falla á göngum þinghússins á dögunum en hann hafði af því þungar áhyggjur að þátttaka í þingstörfum færi minnkandi. Mæting á nefndarfundi væri oft léleg og hann var á því að þannig hefði það ekki alltaf verið. Þingmaðurinn setti þó þann fyrirvara að um huglægt mat væri að ræða og það getur vel verið að hann sjái fortíðina í óþarflega miklum ljóma. Hvorki er hægt að sannreyna né hrekja orð þingmannsins því að upplýsingar um mætingar á nefndafundi eru ekki fáanlegar en hafi hann rétt fyrir sér vekur það spurningar um starf og hlutverk kjörinna fulltrúa.

Þingmennskan sé aðalstarf

Þegar meirihlutinn er sterkur og með marga menn í þingnefndum og stjórnarandstaðan ósamstillt og veik má vel vera að í sumum tilfellum sé það ekki höfuðatriði fyrir afgreiðslu mála að allir nefndarmenn séu til staðar. Og ekki ætla ég að halda því fram að þingmenn hafi ekki í nógu að snúast. Stjórnmál geta verið tímafrek og sumir hafa skyldum að gegna innan sinna flokka. Þingmenn þurfa að hitta margt fólk og sinna ýmsu tilfallandi, eins og að halda ræður á ráðstefnum og fundum, heimsækja stofnanir og spjalla við kjósendur.

Einhverjir þingmenn sinna samhliða þessu öðrum störfum eða námi. Þeim er að sjálfsögðu, eins og öllum þjóðfélagsþegnum, frjálst að ákveða hvað þeir gera við tíma sinn og margir Íslendingar eru bæði í námi og vinnu eða í fleiri en einu starfi. Hins vegar má spyrja hvort þetta geti verið ástæðan fyrir því að þátttaka í þingstörfum er verri en æskilegt væri og að sumum virðist ekki gefast tími til nægilegs undirbúnings. Ef svo er þá er það áhyggjuefni fyrir lýðræðið enda væri það augljós afturför að fara til baka til þess tíma þegar þingmennskan var ekki aðalstarf þeirra sem henni sinntu.