Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 3. nóvember 2007

 

Bleikar gjafir og konur með siðgæðistilfinningu

ÞINGMANNAMÁL tóku mestan tíma Alþingis í vikunni sem er að líða. Fyrir fréttaþyrsta fjölmiðla eru þau kannski ekkert sérstaklega spennandi, ekki af því að þingmenn skorti góðar hugmyndir, heldur miklu fremur vegna þess að þingmannamál hljóta svo sjaldan fullnaðarafgreiðslu.

Þótt þingmanni takist að ná þverpólitískri samstöðu er alls óvíst að málið komist á dagskrá viðeigandi nefnda og hvað þá á dagskrá þingsins þegar þar að kemur. Mikil og góð vinna þingmanna fer því í súginn og framkvæmdavaldið er með mun sterkari stöðu fyrir vikið.

Þingmenn ættu að hugleiða það hvort þeir sjái sér ekki sjálfir fært að breyta þessu. Þeir geta sameinast um að koma ákveðnum málum á dagskrá þó ekki sé nema bara til að fá að greiða atkvæði um þau, og um leið yrðu ráðherrum send skýr skilaboð um að þeir séu ekki einir færir um að gera breytingar.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, lýsti því yfir í vikunni að hann ætlaði ekki að standa í vegi fyrir því að bjór- og léttvínsfrumvarpið svonefnda hlyti afgreiðslu í allsherjarnefnd. Staðan væri nefnilega sú að meirihluti nefndarmanna væri mótfallinn frumvarpinu og gæti því hæglega komið í veg fyrir að það rataði út úr nefndinni. Haft var eftir Jóni í fréttum Ríkisútvarpsins að hann hefði kynnt þá afstöðu sína þegar hann kom inn á þing í fyrsta sinn sem varaþingmaður, fyrir tuttugu árum, að hann teldi ekki hlutverk nefnda að stöðva mál. Fleiri þingmenn mættu taka sér Jón til fyrirmyndar í þessum efnum enda er mun æskilegra fyrir kjósendur að geta séð svart á hvítu hver afstaða kjörinna fulltrúa er og það er erfitt ef málin týnast í nefndum.

Bleikar gjafir í barnaafmæli

Miklar umræður spunnust á þingi í vikunni um nýtt frumvarp félagsmálaráðherra um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt frumvarpið og þingflokkar beggja stjórnarflokkanna tekið það til meðferðar. Þrátt fyrir að sumir þingmenn hafi sett fyrirvara við frumvarpið þá voru allir sem komu upp í pontu sammála um markmiðin og ekki nóg með það, heldur mótmælti því enginn að ákveðið misrétti væri milli karla og kvenna í samfélaginu.

Pétur Blöndal vildi þó heldur einblína á jafnrétti fólks, enda ætti mismunun milli fólks af sama kyni sér líka stað. Pétur vakti samt einnig athygli á því að ólík framkoma við börn af sitthvoru kyninu gæti haft talsverð áhrif og rifjaði upp barnaafmæli hjá stúlku þar sem allar gjafir voru bleikar og ýttu mjög undir hefðbundin kynhlutverk.

Konur skortir dómgreind en hafa meiri siðgæðistilfinningu

Það ættu kannski ekki að þykja stórtíðindi að þingmenn séu nokkurn veginn á einu máli um að komið sé fram við konur og karla á ólíkan hátt. Hins vegar þarf ekki að horfa langt aftur til að komast að því að skoðanir hafa sannarlega verið skiptar í gegnum tíðina. Þannig sagði Albert Guðmundsson í þingræðu um fyrstu jafnréttislögin, sem hann var lítið hrifinn af, árið 1976: “Eru einhver dæmi þess að atvinnurekendur hafi beinlínis mismunað fólki eftir kynferði? Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt þess getið og hefði gaman af að fá hér dæmi um það.”

Sé horft til baka til baráttunnar fyrir kosningarétti má einnig finna ýmis kostuleg ummæli sem oftar en ekki byggðust á ákveðnum hugmyndum um hæfileika og hlutverk kynjanna. Í umræðu um frumvarp um kosningarétt kvenna árið 1911 sagði Jón Ólafsson: “Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum.”

Jón Jónsson frá Múla var hins vegar á því að konan sómdi sér best innan veggja heimilisins (kannski á bak við eldavélina?): “Staða konunnar er aðallega sú, hér eins og annars staðar, að vera móðir og húsmóðir og ég geri ráð fyrir að enginn sé svo djarfur að halda því fram, að það sé þýðingarminna að ala upp börn og standa fyrir heimili en að halda misjafnar ræður á Alþingi. Það er því einfalt og auðsætt, að sérhvað það, sem dregur huga konunnar frá heimilinu, er úr hinni lakari átt og þarf mikið gott á móti að koma ef ábati á að verða að því.”

Snúið upp á handlegg?

Í umræðum um frumvarp félagsmálaráðherra í vikunni héldu stjórnarandstöðuþingmenn því fram að Samfylkingin hefði þurft að snúa upp á handlegg Sjálfstæðisflokksins til að fá frumvarpið lagt fram. Stjórnarliðar, þ.m.t. félagsmálaráðherra, blésu á þetta og sögðu Sjálfstæðisflokkinn standa heilshugar að baki frumvarpinu.

Engu að síður settu sjálfstæðisþingmenn fram ákveðna fyrirvara í samræmi við stefnu síns flokks. M.a. létu þeir í ljósi áhyggjur af þeim kvöðum sem eru lagðar á atvinnulífið og heimild Jafnréttisstofu til að beita dagsektum.

Undirrituð verður hins vegar að játa að hún hnaut aðeins um gagnrýni þess efnis að frumvarpið væri e.t.v. “of kvennamiðað”. Í umræðunum virtust a.m.k. flestir vera á einu máli um að það hallaði ívið meira á konur en karla í samfélaginu. Er þá eitthvað óeðlilegt við að frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé kvennamiðað?

Hvað sem öðru líður voru umræðurnar um jafnréttisfrumvarpið með þeim líflegri sem hafa átt sér stað það sem af er þingvetri. Hitt er svo annað, og kannski bæði fagnaðar- og áhyggjuefni, að af þeim sextán þingmönnum sem tóku til máls voru aðeins fimm konur og þá er meðtalin Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.