Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 20. október 2007

 

Dramatísk sápuópera og fyrirferð karla á þingi

 

Stundum er pólitík betri en bestu sápuóperur. Það hefur sannast í borgarmálunum undanfarnar vikur. Það vantaði bara eins og eitt ástarævintýri inn í söguþráðinn og þá hefði allt sem einkennir góðar sápuóperur verið til staðar. Leynimakk, svik, gífuryrði. Eins dauði, annars brauð.

Einhvern veginn hélt ég að ráðhúsfjörið mynda hafi einhver áhrif í þinghúsinu. Það svakalegasta sem hefur gerst var að Alfreð Þorsteinsson kom í hádegismat og heilsaði bæði Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri Skarphéðinssyni. Samsærisbjöllur hringdu í öllum hornum, en ekkert gerðist.

Sjálfstæðismenn hafa verið misupplitsdjarfir frá því að borgardramatíkin byrjaði. Sápuóperan var kannski meira eins og hryllingsmynd í þeirra augum, og einhverjir vilja finna sökudólginn.

Sumir benda á Vilhjálm, aðrir á Björn Inga og enn aðrir á borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Öllu lágværari eru raddirnar sem vilja kalla flokksforystuna til ábyrgðar fyrir að hafa ekki gripið í taumana þegar ljóst var í hvað stefndi.

Geir H. Haarde steig loks fram í vikunni og gerði það sem góðir leiðtogar eiga að gera á svona stundum; hvatti flokksmenn til að snúa bökum saman og horfa fram á veginn.

Engar hrakspár

Ráðhúsdramað hefur styrkt stöðu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn enn frekar, þó ekki nema bara með því að sá nokkrum óttafræjum í brjóst sumra sjálfstæðismanna. Vinstri stjórn í borginni gerði möguleikann á vinstri stjórn á landsvísu nálægari. En hægri menn geta þó huggað sig við að forsætisráðherra er með þingrofsvald, og getur beitt því ef í hart stefnir.

Stjórnarandstöðuflokkunum hefur þó ekki enn tekist að reka fleyg milli ríkisstjórnarflokkanna og utan frá séð virðist samstarfið ganga ágætlega.

Samfylkingin á mikið undir því að halda trúverðugleika sínum og því má ætla að forystan myndi hugsa sig tvisvar um áður en hún gerðist þátttakandi í einhverri byltingu. Þess vegna ætla ég ekki að skipa mér í hóp þeirra sem spá samstarfsslitum, a.m.k. ekki á næstunni.

Máttlítill minnihluti

Alþingi er í raun allt öðruvísi núna en það var á vordögum. Nýir þingmenn koma inn með nýjar áherslur en að sama skapi er ásýnd þingheims önnur. Síðasta vetur stillti stjórnarandstaðan saman strengi sína en núna eru flokkarnir þrír svo ólíkir, og svo langt frá því að geta myndað raunhæfan valkost við núverandi stjórnvöld, að það eru litlar líkur á samhæfðum aðgerðum.

Þrátt fyrir að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu flestir vinnusamir og reyni að halda stjórnarflokkunum við efnið þá er minnihlutinn máttlítill, einkum og sér í lagi vegna fámennis.

Það er umhugsunarefni hvort ekki þurfi að búa betur að stjórnarandstöðuflokkum á Alþingi. Sú hugmynd hefur komið fram að formenn allra flokka fái aðstoðarmenn, líkt og ráðherrar, og hún er nógu góð til að henni megi hrinda í framkvæmd sem fyrst. Það má líka velta því upp hvort það væri hægt að setja lög um að ef meirihlutinn er mjög öflugur þá megi fjölga starfsmönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Rígnegldir við ræðustólinn

Annað sem er umhugsunarefni í lýðræðisríki er hversu áberandi karlar hafa verið í ræðustól Alþingis það sem af er þingvetri.

Konur eru nú þriðjungur þingmanna sem er talsvert undir meðaltali á Norðurlöndunum en vel yfir meðaltali á heimsvísu, sem er í kringum 17%. Hlutfall kvenna á þingi hefur hins vegar ekki endurspeglast í þátttöku þeirra á þingfundum, og stundum hafa umræður um heilu málaflokkana farið fram án þess að konur taki til máls.

Þegar tæpar þrjár vikur voru liðnar af þingvetri höfðu karlar haldið 657 ræður en konur aðeins 153. Ræður karla hafa einnig verið talsvert lengri og þeir hafa verið í ræðustóli í 84% af þingfundartíma en konur aðeins 16%. Þessi mikli munur verður því sannarlega ekki skýrður með því að konur séu helmingi færri en karlar á þingi. Þá hlýtur fólk að spyrja sig: Hvað veldur?

Klisjukenndasta skýringin væri að konur séu ragari við að taka til máls á þingi. Önnur skýring gæti verið að karlar sjái sig alltaf knúna til að tala og það lengi. Ræðurnar séu á köflum innihaldslitlar og jafnvel stundum fluttar til að koma þeim sjálfum á framfæri, en ekki sjónarmiðunum.

Enn ein skýring gæti verið að fólk treysti frekar körlum en konum til þess að tala. Þeir fái því meiri hvatningu og þeim sé frekar teflt fram af þingflokkunum. Þá er líka mögulegt að skýringanna sé að leita í þeim málum sem hafa verið rædd, þau séu einfaldlega karllægari. Í umræðum um mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar tóku t.d. bara karlar til máls en í umræðum um stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum var kynjahlutfallið jafnt.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það sé um blöndu af þessum skýringum að ræða þegar kemur að hlut karla í ræðustól á Alþingi en hafna því um leið að hægt sé að kalla konur einar til ábyrgðar. Hitt er þó víst að lýðræðisins vegna er mikilvægt að leiðrétta þennan mikla mun.