Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 13. október 2007

 

Riddarinn sem hætti að vera andlag

 

VIKA er langur tími í pólitík, segja spekingarnir alltaf þegar mikið gengur á. En vika getur líka verið leiðinlegur tími í pólitík, eins og ég sagði rétt eftir hádegi á fimmtudag og lét orð eins og ládeyðu og tilbreytingarleysi fylgja með.

Það var eins og þingheimur væri dofinn og það er kannski lýsandi fyrir stemmninguna að ein mest spennandi uppákoman í vikunni var þegar Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að auðlindir sem eru í almannaeigu ættu “ekki endilega að vera andlag einkavæðingar”. Ögmundi Jónassyni, þingmanni Vinstri grænna, misheyrðist og hélt að Geir hefði sagt að auðlindirnar ættu ekki endilega að vera allar einkavæddar. “Skildi ég það rétt?” spurði Ögmundur, og það gerði hann ekki, því Geir kom upp í pontu rétt á eftir honum og leiðrétti misskilninginn. Og þá upphófst svakalegt fjör í litla þingfréttaritarabakherberginu. Hvað meinar maðurinn með “andlag einkavæðingar”? Er þetta kannski stórfrétt?

Grunnskólamálfræðin var ekki alveg til taks þessa stundina og þrátt fyrir að Google hafi hjálpað mér að rifja upp að andlag væri “fallorð, fallsetning, fallháttur eða bein ræða, sem stendur ævinlega í aukafalli og stýrist af sagnorði”, þá var ég engu nær.

Í örvæntingu minni hringdi ég í próförk Morgunblaðsins og spurði hvað forsætisráðherra hefði eiginlega átt við. Jú, andlag þjófnaðar er þýfið sjálft.

Ég tautaði þetta nokkrum sinnum meðan ég fór á salernið og þar sem ég stóð og þvoði hendur mínar rann þetta allt upp fyrir mér. Ef andlag þjófnaðar er þýfið sjálft, þá hlýtur andlag einkavæðingar að vera það sem er einkavætt!

Ég sneri hróðug aftur upp í litla bakherbergið og tilkynnti kollegum mínum hátíðlega að ég væri búin að fá botn í málið. Svo talaði ég í belg og biðu um frumlag, andlag, sagnfyllingu, þýfi, þjófnað, einkavæðingu og orkulindir.

Á göngum þingsins fóru fram miklar æfingar með notkun andlagsins sem fæstir höfðu heyrt minnst á síðan í samræmdu prófunum eða í mesta lagi í menntaskóla. Þingmenn eru andlag endalausrar gagnrýni og Viðey er andlag friðar og ég hlýt að vera andlag Morgunblaðsins, eða er Morgunblaðið kannski andlag mitt? Alla vega, þá hefði þetta getað verið fyndið ef ég hefði verið búin að átta mig almennilega á stóra andlagsmálinu.

En svo fjaraði andlagsfjörið út og ég var aftur sest í tilbreytingarleysið í bakherberginu að hlusta á umræður um fjáraukalög og reyna um leið að koma einhverju á blað um enn eina umræðuna um meinta einkavæðingu auðlinda landsins. Ég glímdi við eirðarleysið og var eiginlega orðin sannfærð um að ég hefði misst áhugann á pólitík, væri komin með hræðilegan starfsleiða eða væri jafnvel bara að uppgötva að blaðamennska ætti ekkert við mig. Og einmitt þá gerðist það: “Hafið þið heyrt eitthvað um að meirihlutinn í borginni sé fallinn?”

Allir ruku í símann og ég hljóp upp og niður tröppurnar á þinginu til að reyna að rekast á fólk sem gæti vitað hvað væri í gangi, og viti menn, hann var fallinn!

Í hálfa aðra klukkustund hélt ég áfram að hringja og hlaupa upp og niður tröppurnar og mér var farið að líða eins og ég væri ekki lengur aumur þingfréttaritari með óviðráðanlegan starfsleiða. Nei, mér fannst ég meira vera riddari á þönum um þinghúsið með upptökutæki að vopni og að sjálfsögðu ávallt viðbúin, líka við því að hlaupa út á ráðhúsplan og breytast í borgarfréttaritara eða borgarfréttariddara og fylgjast með nýjum meirihluta ganga í takt eftir Vonarstræti með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar.

Og einhvern veginn gladdist ég svo mikið, í sjálfhverfu minni, yfir að hafa fundið starfsánægjuna aftur. Þingfréttir frá því um morguninn voru ekki lengur fréttir, meirihlutinn var ekki lengur meirihluti og ég var ekki lengur andlag leiðinlegra þingfunda.