Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 6. október 2007

 

Ræðuskraut og sessunautar

 

Ég minnist þess að á einhverju tímabili í grunnskóla hafi kennarinn minn tekið upp á því að láta okkur nemendurna draga um sæti. Þetta var svakalega spennandi enda fátt mikilvægara en að hafa góðan og skemmtilegan sessunaut í skólanum. Ég man ekki hvar ég lenti nema í eitt skiptið þegar ég sat uppi án sessunautar og það þóttu mér harkaleg örlög fyrir málglatt barn eins og mig.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér nú í vikubyrjun þegar alþingismenn drógu um sæti í þingsal og ég er ekki frá því að þeir hafi verið álíka spenntir og ég um árið.

Sætaskipan er langt frá því að vera einfalt mál á vinnustöðum og hvað þá á þjóðþingum. Á finnska þinginu sitja flokkarnir saman og raðast frá hægri til vinstri í salnum eftir stöðu í pólitík. Í S-Afríku ákveða þingflokkarnir hins vegar sín í milli hver fær hvaða sæti. Kjördæmin ráða sætaskipan í Noregi en í Englandi sitja stjórn og stjórnarandstaða gegnt hvor annarri.

Það hljómar kannski hálfundarlega að draga um sæti. Mestu andstæðingar geta lent í að sitja hlið við hlið heilan vetur og kannski má færa rök fyrir að það takmarki samstarf þingflokkanna að þeim sé dreift um salinn með þessum hætti. Þó er vert að hafa í huga að þingmenn eyða aðeins litlum hluta tíma síns í þingsalnum og í öllum lengri umræðum er salurinn sjaldnast fullskipaður.

Það að dregið sé um sæti á Alþingi minnir á að hver og einn þingmaður er aðeins bundinn af sannfæringu sinni. Jafnframt getur það komið í veg fyrir vandamál sem kunna að koma upp þegar þingmaður segir sig úr flokki og gengur jafnvel í annan.

Mislíflegar ræður

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana sl. þriðjudagskvöld gáfu tóninn fyrir þingveturinn en ræðurnar voru sannarlega misfjörlegar. Ræða forsætisráðherra var nánast eingöngu upptalning á því sem þegar hefur verið gert eða tilkynnt og ekkert gert til að lífga upp á töluna. Ekkert skáldlegt, ekkert grín – bara hráar staðreyndir.

Skemmtilegasta ræðan þetta kvöld var hins vegar án efa ræða Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna og hann sýndi að hann er risinn upp á nýjan leik. Einna mestum spretti náði hann þegar ríkisstjórnin var orðin “hin frjálslynda, umburðarlynda jafnaðarmannaumbótastjórn eða hvað hún kallar sig svo hátíðlega á stundum, milli þess sem hún kennir sig við gliðnunar- og sprungusvæðið Þingvelli”, og sömuleiðis þegar hann taldi ráðherrana í salnum og komst upp í tólf þrátt fyrir hugmyndir forsætisráðherra um að fækka ráðuneytum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, átti einnig fína spretti í ræðuhöldum kvöldsins og má flokka hann sem skáldlegasta ræðumanninn, t.d. þegar hann notaði tækifærið og hnýtti í iðnaðarráðherra: “Össur Skarphéðinsson er hamingjusamur með að vera orðinn ráðherra á nýjan leik. Hann vaknar oft á nóttunni og strýkur yfir grásprengt skeggið. Gamli byltingarsinninn stenst ekki mátið og tekur hamskiptum í bloggheimum. Hann er stjórnarsinni á daginn en stjórnarandstæðingur á nóttunni. Hann blótar á laun.”

Nú má vel vera að það sé einungis ósanngjörn krafa fjölmiðlafólks í leit að krassandi fyrirsögnum að ræður séu líflegar og kannski er réttasta leiðin að koma bara því sem þarf til skila í svona ræðum. Annað orðagjálfur og skáldlegheit sé tilgerðarlegt og brandarar standast jú ekki alltaf tímans tönn. Engu að síður ætla ég að standa fast á því að ræður megi gjarnan skreyta, þó ekki sé nema bara til að lífga upp á hversdagsleikann, nú þegar myrkrið verður sífellt meira.

Fjörugur þingvetur?

Þessi vika á þingi bar merki þess að efnahagsmál verða eitt af stærstu málum vetrarins. Þingmenn tala ýmist um efnahagsvandann eða efnahagsundrið og fyrir óbreytta leikmenn er ekki nokkur leið að skilja hvort allt er í volli eða blússandi uppsveiflu og gleði.

Vinstri græn hafa sýnt að þau ætla að halda Samfylkingunni vel við efnið og minna stöðugt á fyrirheit frá fyrri árum. Frjálslyndi flokkurinn ætlar ekki að gefast upp á að minna þingheim á vankanta kvótakerfisins og bága stöðu landsbyggðarinnar og Framsókn sýnir þess merki að hún gæti gengið í endurnýjun lífdaganna nú þegar hún er frjáls frá Sjálfstæðisflokknum.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin styðjist við mikinn þingmeirihluta er ekki þar með sagt að dauft verði yfir Alþingi í vetur. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa meira frelsi en þeir höfðu á síðasta kjörtímabili enda hafa þeir engan möguleika á að búa til valkost við ríkisstjórnina og þurfa þess vegna ekkert endilega að vinna mikið saman. Að sama skapi hafa þingmenn meirihlutans líka meira frelsi þegar þeir tilheyra stærri hópi.

Minnug þess að þingmenn eru bundnir við sannfæringu sína, og sitja þ.a.l. þvers og kruss um þingsalinn, ætla ég því að leyfa mér að spá líflegum vetri á Alþingi. Kannski verða andstæðingar allt í einu mestu mátar sem sitja hlið við hlið. Og vonandi situr enginn einn.