Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 19. mars 2007

 

Samningar, samsæri og kveðjustundir

 

“Fundi er slitið” er líklega sú setning sem fékk þingmenn til að varpa öndinni léttar á aðfaranótt sunnudags enda hefur Alþingi fundað stíft undanfarið og þennan daginn eina fjórtán tíma samfleytt. Þingmenn féllust í faðma og hatrömmustu andstæðingar breyttust í vini og vinnufélaga til fjögurra, átta, tólf, sextán, tuttugu ára.

Alþingi er stundum eins og venjulegur vinnustaður, en ekki á dögum sem þessum. Alþingismenn ráða nefnilega ekki örlögum sínum, heldur kjósendur og eftir tilvikum flokksfélagar. Þrettán þingmenn af 63 hafa þegar tilkynnt brotthvarf sitt úr stjórnmálum og hugtakið “öruggt þingsæti” á sannarlega ekki við í öllum tilvikum. Vinnufélagarnir sem gengu út í kosningavorið á laugardag munu ekki allir snúa til baka að loknum kosningum.

Einu sinni las ég bók í samningatækni sem heitir Getting to Yes: negotiating agreement without giving in (á íslensku: Já! Listin að semja án þess að gefa eftir). Þessi lesning kom oftar og oftar upp í huga mér á síðustu dögum þingsins. Deilur og plott undanfarinna mánaða runnu allar saman í eitt. Komið var að uppgjörinu. Frumvörp og þingsályktunartillögur hurfu. Sumt var svæft í nefnd, annað komst ekki á dagskrá. Til að taka málin upp aftur þarf að leggja þau fram að nýju á næsta þingi, flytja ræðurnar aftur og há sömu bardagana. Og fjölmiðlafólkið í bakherberginu segir fréttirnar aftur.

Stjórnarandstaðan er líklega aldrei eins valdamikil og á síðustu dögum þingsins. Meirihlutinn vill ljúka þingstörfum en líki stjórnarandstöðunni ekki við málalok getur hún rætt málin fram og aftur, og svo aftur og fram, ef svo ber við. Stjórnarflokkarnir eru því tilneyddir til að ganga til samninga; láta einhver mál liggja milli hluta og hleypa stjórnarandstöðumálum að. Flokkarnir hafa sín markmið en það hafa líka einstaka þingmenn sem og ráðherrar.

Í samningaviðræðunum völdu stjórnarandstöðuflokkarnir sér mál sem þeir höfnuðu að yrðu tekin fyrir og lofuðu kannski að tala ekki lengi um önnur mál í staðinn. Frjálslyndi flokkurinn lagðist t.a.m. gegn stofnfrumufrumvarpinu og Vinstri græn vildu ekki sjá vegalögin í óbreyttri mynd. Samfylkingin fékk á dagskrá þingsályktunartillögu um störf án staðsetningar á vegum ríkisins og fyrningarfrestur á alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum var afnuminn á lokasprettinum.

Stóra stjórnarskrárdramað setti sinn svip á síðustu daga þingsins. Úr varð að engar breytingar verða gerðar á stjórnarskrá þrátt fyrir það samkomulag sem þó náðist í stjórnarskrárnefnd um að stjórnarskrárbreytingar færu eftirleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu, að gefnum ákveðnum skilyrðum. Forsætisráðherra var ósáttur við ákvæðið eins og það kom frá stjórnarskrárnefnd og málið strandaði á rökræðum um orðalag.

Ekki fór heldur svo að auðlindaákvæðið rataði í stjórnarskrá. Formenn stjórnarflokkanna sögðu stjórnarandstöðunni um að kenna en hún vísaði öllu til baka. Eftir stóðu fjölmiðlamenn, og líklega meirihluti þjóðarinnar, og veltu fyrir sér hvað í ósköpunum átti sér stað. Hvers vegna fór þetta mál af stað, hver var tilgangurinn og hvað nú? Allir hafa sínar tilgátur, jafnvel samsæriskenningar. Og blaðamennirnir reyna samviskusamlega að “skrifa söguna”, sem síðar verður öll dæmd ýmist sönn eða ósönn.

Meðan samningaviðræður standa yfir í þinghúsinu veit eiginlega enginn neitt. Fólk bara heldur. Þingmenn halda, blaðamenn halda, ráðherrar halda. Átök eru milli flokka, innan flokka, milli einstaklinga, milli ráðherra, milli kjördæma, milli framkvæmdavalds og þings og svo framvegis. Það eina sem er alveg traust, og engin átök um, er mötuneytið sem hlýtur að vera með þeim betri á landsvísu.

“Getting to yes without giving in”, hugsaði ég þegar ég horfði á þreytulega þingflokksformennina ganga til enn eins fundarins og ímyndaði mér hvernig þeir næðu já-inu. “Allt í lagi, við gleymum þessu með léttvín í búðir og þið talið ekki lengi um sameiningu HÍ og KHÍ,” og “tjah, ef þið viljið koma þessum vegalögum í gegn óbreyttum, þá skuluð þið muna að við höfum mjög mikið að segja um þau, og það getur tekið langan tíma.”

En einhvern veginn náðu þau já-inu. Samkomulag var í höfn, fundi slitið, þingmenn féllust í faðma og héldu svo út í kosningavorið.