Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. mars 2007

 

Heppnað útspil

 

Eftir yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins á Alþingi í sl. viku um auðlindaákvæði í stjórnarskrá upphófst mikið fjör. Stjórnarandstaðan lifnaði við, boðaði til blaðamannafundar og bauð Framsókn upp í dans. Hjálpumst að við að breyta stjórnarskránni, sagði auðmjúk andstaðan.

Sjálfstæðismönnum leist ekki á blikuna og sögðust sumir jafnvel tilbúnir í stjórnarslit frekar en að fallast á kröfur Framsóknar, enda víst að hugtök á borð við “sameign” og “þjóðareign” hugnast varla hægrimönnum, og hvað þá ef hriktir í stoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra átti tvo kosti og báða vonda. Annars vegar gat hann farið alfarið að kröfum framsóknarmanna en hefði þá líklega sætt harðri gagnrýni frá eigin flokksmönnum, ekki síst þeim sem skilgreina sig lengst til hægri í flokknum, en hann hefur ekki verið laus við gagnrýni þaðan hingað til. Hins vegar gat hann rofið þing og það hefði sannarlega verið umdeilt.

Þingrof fer venjulega fram samkvæmt lögum, t.a.m. ef breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar, og það þýðir aðeins að þing er rofið áður en hefðbundnu kjörtímabili lýkur. Þingrofsheimildinni hefur aðeins verið beitt tíu sinnum án þess að skylda kveði á um, síðast árið 1979. Tvisvar hefur verið deilt mjög um hvort þingrof stæðist lög. Í fyrra tilvikinu, árið 1931, höfðu fjárlög ekki verið samþykkt og í því síðara rauf Ólafur Jóhannesson þing 1974 vitandi að vantrauststillaga væri í bígerð.

Geir var því ekki í öfundsverðri stöðu. En hann dó ekki ráðalaus heldur lagðist í að koma saman frumvarpi sem myndi róa Framsókn án þess þó að stressa eigin flokksmenn um of. Í samræmi við landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, og reyndar flokksþingsályktun Framsóknar, er í frumvarpinu talað um náttúruauðlindir almennt, fremur en auðlindir sjávar, og lögð var mikil áhersla á að þetta myndi ekki vega að fiskveiðistjórnunarkerfinu eða hrófla við eignarréttinum.

Geir og Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, boðuðu síðan fund með formönnum hinna flokkanna og óskuðu eftir að afbrigði yrði samþykkt svo að málið gæti farið á dagskrá þegar á föstudag og helgina mætti nýta til nefndarstarfs. Stjórnarandstaðan hafnaði því, sagðist engan tíma hafa haft til að kynna sér frumvarpið og sakaði stjórnarflokkana um að brjóta allar vinnureglur varaðandi stjórnarskrárbreytingar. Þær ætti að setja fram í fullri sátt allra flokkanna. “Bíddu, var það sátt af ykkar hálfu að bjóða aðeins Framsókn í dans en vilja ekki hafa Sjálfstæðisflokkinn með?” gat Geir þá spurt. (Tekið skal fram að þetta er orðalag höfundar, ekki Geirs.)

Stjórnarandstaðan lét alveg ógert að hrópa húrra fyrir tillögunni og héldu sumir því fram að Framsókn hefði látið plata sig með frumvarpi sem nær ekki því fram sem flokkurinn sjálfur vildi.

Stjórnarandstæðingar hafa áhyggjur af því að í besta falli sé ákvæðið merkingarlaust en í versta falli festi það fiskveiðistjórnunarkerfið enn frekar í sess og munu því líklega leggjast harkalega gegn frumvarpinu nema veigamiklar breytingar verði gerðar á því, breytingar sem sjálfstæðismenn myndu aldrei samþykkja. Eða eins og einn stjórnarandstæðingur orðaði það: Ætla menn að vera hér til áramóta?

Því má ekki gleyma að tvö þing þarf til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og fáir telja líklegt að núverandi ríkisstjórn haldi völdum eftir næstu kosningar. Ef stjórnarandstaðan er öll á móti frumvarpinu, Sjálfstæðisflokknum eiginlega alveg saman, í hvaða meirihlutasamstarfi gæti Framsókn tryggt að frumvarpið komist í gegn?

Hugsanlega tók Geir áhættu en jafnframt má halda því fram að niðurstaðan hafi verið ljós fyrirfram.

Eftir stendur hann með pálmann í höndunum, búinn að róa Framsókn og æsa stjórnarandstöðuna. Framsókn þarf hins vegar að taka við skítkastinu, nú sem endranær. Og enginn stígur dans.