Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 3. mars 2007

 

Líf og fjör í Framsókn

 

ÞAÐ ER ekki laust við að Framsókn hafi hleypt lífi í þingheim í vikunni og reyndar svo miklu að stjórnarandstæðingar tókust á loft seinni part fimmtudags. “Þetta gæti leitt til stjórnarslita,” pískruðu menn spenntir sín í milli.

Fjörið hófst á miðvikudag þegar félagsmálaráðherra tilkynnti hækkun á íbúðalánum úr 80% í 90% og um leið að hámarkslánsfjárhæð yrði 18 milljónir króna í stað 17. Þetta var eitt af helstu kosningaloforðum Framsóknarflokksins og ekki seinna vænna að efna það. “Þú verður að spyrja félagsmálaráðherra um það. Þetta er hans mál,” sagði Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, inntur eftir viðbrögðum í morgunútvarpi Rásar 1 sl. fimmtudag.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks eru mishrifnir af þessu föndri framsóknarmanna og halda að það geti komið illa niður á efnahagsástandinu.

Kurrið í sjálfstæðismönnum minnkaði ekki þegar leiðtogar Framsóknarflokksins og ráðherrar, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson, lýstu því skýrt yfir að Framsókn myndi ganga fast fram í að fá Sjálfstæðisflokk til að standa við stjórnarsáttmálann og setja inn ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar. En stjórnarandstæðingar sperrtu eyrun. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrá en ekki náðist samkomulag um það í stjórnarskrárnefnd sem skilaði af sér nýverið. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti.

Áður hafði verið samið um að stjórnarskrárnefnd myndi engu skila af sér nema í fullu samráði og leiddi það til þess að samstaða náðist aðeins um eina breytingu. Sjálfstæðismenn eru í sjálfu sér ekki á móti sameignarákvæðinu en eru hræddir við orðalag greinarinnar enda ljóst að a.m.k. hluti stjórnarandstöðunnar vill með þessu ákvæði ná í gegn breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þó verður að teljast ólíklegt að Halldór Ásgrímsson hafi haft það í huga þegar hann og Davíð Oddsson gengu frá stjórnarsáttmálanum á sínum tíma og Framsókn leggur raunar áherslu á að styrkja enn frekar löggjafarvald Alþingis í þessum efnum.

Framsókn þurfti líka að fara upp á afturfæturna í umræðum um Íraksstríðið sl. fimmtudag en stjórnarandstaðan þreytist ekki á að kalla eftir afsökunarbeiðni af hálfu leiðtoga flokksins. Stuðningur við Íraksstríðið var ekki að frumkvæði Framsóknar á sínum tíma en flokkurinn hefur engu að síður þurft að taka ábyrgð á því að leiðtoginn skuli hafa látið hafa sig út í það. Athygli vakti að sjálfstæðismenn voru víðs fjarri í þessum umræðum sem og þeim fyrrnefndu.

Það er gömul saga og ný að Framsókn reyni að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum rétt fyrir kosningar og Jón Sigurðsson áréttaði það enn frekar í stefnuræðu sinni á flokksþingi Framsóknar sem hófst í gær og heldur áfram í dag. Sjálfstæðismenn halda þó ró sinni enn sem komið er en þó er ólíklegt að allir þingmenn flokksins sýni jafn mikla þolinmæði og fyrir fjórum árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enda þegar komið sínum stærstu málum í gegnum þingið og hörð afstaða Framsóknarflokksins hefur orðið til þess að sumir spá því að ríkisstjórnarsamstarfi gæti verið slitið nú á lokasprettinum.

Framsóknarflokkurinn hefur allt að vinna enda hefur hann komið illa út úr skoðanakönnunum undanfarið. Þar sem undirrituð er stundum dálítið “svag” fyrir pólitískum tískubylgjum hefur hún áður gerst sek um að spá Framsóknarflokknum dauða. Sá fjöldi fólks sem sækir flokksþing Framsóknar nú um helgina sýnir þó að flokkurinn er sannarlega ekki dauður úr öllum æðum og ætlar sér stóra hluti í vor. Markmiðið er fylgið á miðjunni og til þess er teflt fram bæði unnum og óunnum verkum.

Á næstu dögum mun ráðast hversu hátt kurrið verður í sjálfstæðismönnum fyrir sólóleikjum Framsóknar undanfarna viku og á meðan höldum við sem fyrir utan stöndum áfram að skella fram spám og samsæriskenningum um það sem verður.