Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 24. febrúar 2007

 

Kosningaskjálfti og samstaða gegn klámi

 

Aðeins þrjár vikur eru eftir af starfstíma þingsins og ekki er laust við að örlítill kosningaskjálfti sé farinn að grípa um sig meðal þingmanna, ráðherra, frambjóðenda og almennra flokksmanna. Blaðamönnum er reglulega sendur tónninn og stundum mætti ætla að menn haldi að hér í (reyklausa) bakherberginu sé rekin kosningaskrifstofa fyrir alla flokka. Við erum ýmist sögð hygla ráðherrum of mikið, éta upp rausið í stjórnarandstöðunni, þagga niður stórmerkilegar fréttir eða leika okkur að því að fleygja fram röngum fyrirsögnum. En á meðan samsæriskenningarnar koma úr öllum áttum er víst engin ástæða til að hafa áhyggjur af þeim.

Um þessar mundir er enginn maður með mönnum nema hann spái því hvernig kosningarnar fara í vor. Til að vera ekki eftirbátur annarra kverúlanta set ég fram þá varfærnislegu spá að stjórnarsamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sé liðið undir lok. Það er jafnframt í tísku að segja annað hvort að það sé þreyta í stjórnarsamstarfinu eða halda því fram að samstarfið hafi verið farsælt og aldrei betra en nú. Auðvitað er klisjukennt að benda á að of margt skilji á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks því það er alveg sama hvaða tveir flokkar eru bornir saman, það er alltaf eitthvað sem skilur í milli.

Þreytan kemur hins vegar fram í því að svör við spurningum eru venjulega mikil upptalning á því hvað hefur verið gert. Erfitt getur verið að fá stjórnarliða til að ræða hugmyndir eða framtíðarsýn því allt snýst um áætlanir sem er búið að semja, skóflustungur sem hafa verið teknar og lagabreytingar sem hafa gengið í gegn. Úr tjaldbúðum stjórnarandstöðunnar kemur hefðbundin gagnrýni á að loforðin sem nú eru gefin séu mörg hver þau sömu og fyrir fjórum árum, verkin hefðu getað verið unnin fyrr og mestu þjóðþrifamálin sitji á hakanum. Auðvitað er ekkert lofað, þótt vel sé gert.

En þingmenn stíga líka stundum upp úr skotgröfunum. Með stærri málum líðandi stundar eru umhverfismál og til að halda fyrirsjáanlegum spádómum áfram þá verða þau meðal kosningamála vorsins. Í umræðum um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sl. fimmtudag var töluverður samhljómur í þingsal. Þingmenn voru vitanlega ósammála um hvort virkjanastefnu stjórnvalda væri lokið eða ekki og hver bæri ábyrgð á áframhaldandi stóriðju, en fulltrúar allra flokka útilokuðu að Landsvirkjun gæti beitt eignarnámi vegna umræddra virkjana. Þetta þýðir að Landsvirkjun verður að ná samningum við landeigendur og þá hlýtur að vakna sú spurning, sem Björgvin G. Sigurðsson benti á, hvort náttúruverndarsamtök geti ekki boðið í jarðirnar á móti Landsvirkjun.

Þingflokkar á Alþingi náðu einnig saman um yfirlýsingu vegna svonefndrar klámráðstefnu sem stóð til að halda í Reykjavík aðra helgi. Sögðu flokkarnir það yfirlýst markmið sitt að vinna gegn klámvæðingu og vændi og þess vegna væri það í óþökk þeirra að ráðstefnan væri haldin hér á landi. Þetta eru töluverð pólitísk tíðindi enda líkast til í fyrsta sinn sem allir þingflokkar ná samstöðu um nokkurt mál sem tengist klámi eða vændi. Þrátt fyrir að klám sé ólöglegt á Íslandi hefur lítið farið fyrir eftirfylgni þeirra laga. Nægir að hringja í myndbandaleigur (ekki allar auðvitað) og spyrja hvort þar sé hægt að fá klám og þá er svarið iðulega já. Og er það klám? Aftur er svarið, já. Þótt lögin setji ekki fram neina skilgreiningu á klámi þá virðast framleiðendur, dreifingaraðilar og neytendur vera sammála um að um klám sé að ræða.

Þess vegna verður spennandi að fylgjast með því hvort framundan sé harðari barátta gegn klámi á Íslandi í framhaldi af afdráttalausri, þverpólitískri samstöðu sem náðist bæði á Alþingi og í borgarstjórn.