Þingbréf: Frjálslyndir og Tyrkjaránið

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 10. febrúar 2007

 

Frjálslyndir og Tyrkjaránið

 

FRJÁLSLYNDA flokkinum barst enn meiri liðsstyrkur í vikunni þegar Kristinn H. Gunnarsson tilkynnti að hann gengi til liðs við flokkinn. Þingmennirnir eru nú fimm talsins og mögulegar uppstillingar flokksins í næstu kosningum eru mikið ræddar á Alþingi. Áhugasamastir um málefni Frjálslynda flokksins eru án efa þingmenn Framsóknar, sem hafa margt við innflytjendapælingar þeirra fyrrnefndu að athuga, og hafa gengið hart fram í að fá úr því skorið hvort hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, þ.e. VG og Samfylking, geti sætt sig við þær. Enn sem komið er fer lítið fyrir svörum en á göngunum hvísla menn að Frjálslyndi flokkurinn sé smám saman að mála sig út í horn.

Augljóst er af yfirlýsingum framsóknarþingmanna að litlar líkur eru á samstarfi F-flokkanna tveggja eftir kosningar. Þótt sjálfstæðismenn hafi haldið sig til hlés í þessari umræðu þá heyrast raddir úr þeirra herbúðum að samstarf við Frjálslynda myndi ekki ganga upp. Það er samt kannski eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn stígi varlega til jarðar í þessum efnum enda hefur ríkisstjórn hans staðið fyrir umdeildum lagabreytingum í málefnum útlendinga. Skemmst er að minnast breytinga á útlendingalögunum á vorþingi árið 2004 sem vöktu mikla umræðu í samfélaginu. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka mótmæltu frumvarpinu og þá sérstaklega svonefndri 24 ára reglu, sem kveður á um að maki yngri en 24 ára fái ekki sjálfkrafa dvalarleyfi á landinu, sem og því ákvæði að heimila Útlendingastofnun að taka lífsýni úr fólki sem sækir um dvalarleyfi.

Í umræðu á Alþingi var Jónína Bjartmarz, sem þá var varaformaður allsherjarnefndar, eini framsóknarþingmaðurinn sem tók til máls og gerði m.a. grein við fyrirvara sínum við 24 ára regluna. Framsókn greiddi engu að síður atkvæði með frumvarpinu en stjórnarandstaðan stóð sameinuð gegn því. Fremstur í flokki Frjálslyndra fór Magnús Þór Hafsteinsson, sem er hvað mest orðaður við „rasismadaður“ í dag. Magnús mótmælti 24 ára reglunni og lífsýnatökum og sagði þær „lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil“. Magnús sagði að gera ætti ákveðnar kröfur til útlendinga en þótti skjóta skökku við að byggja lagasetningu á einöngruðum tilvikum. „Ég get ekki séð að slík einöngruð tilvik sem eflaust má einmitt rekja til þess að við erum sem þjóðfélag að laga okkur að því að það eru breyttir tímar og flutningur fólks sem er af erlendu bergi brotið er smám saman að aukast hingað til Íslands. Þetta eru miklu frekar dæmi um það að við erum sjálf í aðlögun ekki síður en það fólk,“ sagði Magnús og blés á rökstuðning um að 24 ára reglan gæti hugsanlega komið í veg fyrir ofbeldi á konum. „Það er líka framið ofbeldi gegn íslenskum konum af íslenskum karlmönnum. Ég get ekki séð að þessi lagabreyting muni breyta nokkru þar um,“ sagði Magnús.

Nú má spyrja hvort tónninn í málflutningi Magnúsar hafi breyst eitthvað síðan 2004 og hvort kannski hafi hlutverkin snúist við, þ.e. Frjálslyndir kalli á harðari lagasetningu en Framsókn vilji fara öllu með gát. Aðför Framsóknarflokksins að Frjálslynda flokkinum er að sjálfsögðu skiljanleg, eða hvaða flokkur kæmi annars fyrst til greina til að vera dreginn með í mögulega „vinstri stjórn“ ef Frjálslyndir detta út?

Það breytir þó ekki því að Samfylkingin og Vinstri græn geta ekki hundsað spurningu Framsóknar því þetta er einmitt sama spurning og fjöldi kjósenda þeirra spyr sig.

 

Prev PostFótbolti: Framboð til formanns KSÍ
Next PostÞingbréf: Kosningaskjálfti og samstaða gegn klámi