Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 3. febrúar 2007

 

Logn og jákvæðir verkir

 

Þótt rólegt hafi verið yfir Alþingi undanfarna viku er ekki laust við að það læðist að manni sú tilfinning að nú sé lognið á undan storminum. Áætlað er að slíta fundum um miðjan mars en fjöldi mála bíður afgreiðslu, t.d. samgönguáætlunin, sem er þegar farin að valda usla án þess að hún sé komin fram. Hún velkist nú um hjá þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem hafa óskað eftir meiri tíma til að kynna sér efni þessa doðrants. Varla er til viðkvæmara efni til umræðu svo skömmu fyrir kosningar en samgöngumál, enda þurfa þingmenn þá að hugsa um kjördæmið sitt frekar en flokkinn. Þannig eru Suðurlandsþingmennirnir uggandi yfir lagningu Suðurlandsvegar, verður hann 2+1 eða 2+2? Björgvin G. Sigurðsson segir að skollaleiknum þurfi að linna, samgönguráðherra verði að upplýsa hvort standi til að hlunnfara Sunnlendinga með þykjustu-tvöföldun. Samgönguráðherra biður menn að bíða þar til áætlunin kemur og skilur ekki hvers vegna Björgvin reynir sífellt að gera hann tortryggilegan. Hringir samt sjálfur í Ríkissjónvarpið og segir frétt um að til standi að leggja 2+1 ranga, en er það þá 2+2? Ekkert svar.

Í bakherberginu situr blaðamaðurinn og veltir fyrir sér hvort leitin að sannleikanum sé tilgangslaus, hann er líklega ekki til.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gagnrýnir gífurlegan hagnað bankanna. Geir H. Haarde segir að hún sé seinheppin því bankarnir séu svo ægilega góðir. Hver er seinheppinn? Ingibjörg segir að það sé óstjórn í efnahagsmálum, Geir segir efnahagsmál aldrei hafa verið betri. Blússandi þensla – blómstrandi efnahagslíf.

Valgerður Sverrisdóttir segir upptöku evru vera ágæta hugmynd. Flokksbróðir hennar og formaður, Jón Sigurðsson, stendur í ræðustóli á Alþingi og dásamar hina íslensku krónu í sömu andrá og hið íslenska hagkerfi og hina frjálsu íslensku þjóð. Hann talar um mikilvægi þjóðhyggju. Venjulegt fólk skilur ekki orðið en Jón segir það vera þjóðlega félagshyggju – áhersla á sameiginlega hagsmuni í þjóðfélaginu og á þjóðleg sjónarmið.

En þegar Frjálslyndir segja þjóð þá kippast allir við. Formaðurinn er óhress með kvótakerfið, má ekki heyra minnst á kvennakvóta en vill endilega taka upp kvóta á innflytjendur. Þeir keppa við Íslendinga um störf, segir hann. En samt vantar fólk í störf. Betra að láta aldraða og öryrkja vinna, segir hann. Ég ætla að spyrja ömmu hvort hún sé til í að byggja Kárahnjúkavirkjun.

Og Frjálslyndir koma stjórnarandstöðunni í bobba. Samstarfið sem gekk svo vel er allt í einu komið út á brún. Eru Samfylkingin og Vinstri græn tilbúin að vinna með flokki sem daðrar við rasisma? spyrja stjórnarliðar. Það er fátt um svör. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hljóta að minnsta kosti að vera með það á hreinu að þau vilji ekki starfa með Frjálslyndum eftir kosningar. Núna má fara sænsku leiðina frekar en þá dönsku. Í Svíþjóð hafna stjórnmálaflokkar samstarfi við öfl sem ala á þjóðernishyggju. Í Danmörku er þeim tekið fagnandi.

Og svo er endalaust spekúlerað, hvað verður um þingmennina sem ekki hefur verið plantað á lista, eins og fátt sé auðveldara en að skipta um flokk. Valdimar L. Friðriksson talar um Sundabraut í ræðustóli, ætli hann sé á leið í Suðurkjördæmi? Margrét Sverrisdóttir er orðuð við næstum alla flokka, nema kannski VG. Kristinn H. Gunnarsson gengur enn með grænt bindi, ætli það sé vinstri grænt eða framsóknargrænt? Kannski breytir hann í blátt.

Og svo er hagvöxturinn víst neikvæður á Vestfjörðum. Hvað næst, jákvæðir vaxtarverkir?