Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 20. janúar 2007

 

Langir þingfundir: Gísling eða málþóf?

 

Ég kom fyrst inn á Alþingi fyrir tíu árum, þá á fyrsta ári í menntaskóla. Sögukennarinn hafði sett okkur fyrir að heimsækja þingpallana og skrifa stutta ritgerð um eitthvert eitt málefni. Við vorum að læra um þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég man ekki hvaða málefni ég valdi mér en ég man að það kom mér svolítið á óvart hvað það voru fáir í salnum. Nokkrum misserum áður hafði ég heyrt kennara gagnrýnda fyrir takmarkaða viðveru í skólastofunni og það misbauð réttlætiskennd minni gróflega að aldrei væri minnst á viðveru þingmanna í þingsal.

Á þessum tíma hefði mig líklega aldrei grunað að ég ætti síðar eftir að koma mér fyrir í einu bakherbergjanna og skrifa daglegar “ritgerðir” um það sem fram fer á Alþingi.

Undanfarin vika hefur verið heldur furðuleg fyrir nýliðann í bakherberginu enda fá mál verið rædd jafnmikið og eina málið á dagskrá – frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. Stjórnarandstaðan segir meirihlutann halda þinginu í gíslingu en meirihlutinn segir stjórnarandstöðuna koma í veg fyrir eðlileg þingstörf með endalausu málþófi. Báðir aðilar hafa líklega eitthvað til síns máls. Hefðbundnir dagskrárliðir hafa verið látnir víkja og fundað er frá hálfellefu á morgnana og fram til miðnættis, jafnvel lengur. Lengstu ræður vara í marga klukkutíma og ætla má að væru þingfundir ekki svona langir gæti tekið margar vikur að afgreiða RÚV-frumvarpið.

Stjórnarandstaðan hefur lagt sig fram um að fá meirihlutann til að samþykkja frestun á gildistöku laganna um RÚV fram yfir kosningar svo að þjóðin geti kosið um málið. Í þessu skyni hefur stjórnarandstaðan bæði formlega og óformlega þjarmað að Framsókn. Ástæðan er einkum sú að RÚV-frumvarpið má kenna við Sjálfstæðisflokkinn og allur sá tími sem fer í að ræða það gerir það að verkum að Framsókn kemst ekki að með þau mál sem eru flokknum líklegri til vinsælda, t.a.m. frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð.

Framsóknarmenn virðast hins vegar ætla að standa með samstarfsflokki sínum og klára afgreiðslu RÚV-frumvarpsins enda er Sjálfstæðisflokkurinn ekki til viðræðu um breytingu á gildistökutíma laganna.

Þar sem stjórnarandstaðan er mjög ósátt við að brugðið hafi verið út af hefðbundinni dagskrá hefur hver þingfundur hafist með miklu karpi um störf þingsins og fundarstjórn forseta. Forseti hefur oft þurft að áminna fólk um að halda sig við það efni sem til umræðu er. Þingmönnum hættir nefnilega til að nota umræðutímann í aðrar bollaleggingar.

Ætla má að umræðan um RÚV-frumvarpið muni standa í a.m.k. eina viku enn enda mælendaskrá löng og ræðumenn margir ekki stuttorðir.