Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 15. júní 2004

 “Við” og “hinir”

Í ársskýrslu Amnesty International (AI) kemur fram að ástandið í heiminum eftir hryðjuverkaárásirna á Bandaríkin 11. september 2001 einkennist af tortryggni, ótta og sundrung. Á blaðamannfundi Íslandsdeildar AI kom fram að útlendingalögin sem sett voru hér á landi endurspegla þetta ástand og þann ótta sem nú ríkir í garð útlendinga. Þar var jafnframt bent á að við værum í raun búin að skilgreina “okkur” frá “hinum”.

Fyrir hálfu ári lagði ég af stað í ferðalag til landa sem myndu ekki flokkast undir okkar menningarheim. Fjöldi fólks lýsti yfir áhyggjum af fyrirhuguðu ferðalagi mínu. Hálfókunnugt fólk var sannfært um að ég væri klikkuð að ætla að fara ein í langt ferðalag. Ég reyndi mitt besta til að útskýra að þetta væri ekki eins slæmt og mörg kynnu að halda og að það væri í raun auðvelt og skemmtilegt að ferðast á eigin vegum. Þá virtist fara sérstaklega fyrir brjóstið á fólki að ég var ekki bara ein á ferð heldur var ég líka stelpa. Það er jú vitað mál að stelpur geta ekki varið sig fyrir neinu en einhverra hluta vegna virðist fólk öruggt um að strákar geti það frekar. Þannig var ég reglulega spurð hvort ég væri ekki hrædd. Hrædd við hvað?

Ég leitaði og leitaði að einhverju til að vera hrædd við en allt kom fyrir ekki. Ef ég yrði rænd þá yrði bara að hafa það. Það eru ekkert minni líkur á að ég verði fyrir einhvers konar ofbeldi í Reykjavík en í einhverri annarri borg. Ég fann ekki þennan ótta sem fólk reyndi að sannfæra mig um að ég ætti að hafa.

Það vildi svo til að ég var stödd í Taílandi þegar fuglaflensan kom upp. Fjölmiðlafárið á Vesturlöndum var gríðarlegt. Endalaus óttaáróður varð til þess að ég fékk tölvupóst frá vinum og vandamönnum heima þar sem mér var tjáð að ég ætti bara að drífa mig heim, eða í það minnsta fara til öruggari svæða eins og Evrópu eða Ástralíu. Annars myndi ég deyja, ein og yfirgefin í Asíu. Ég hélt þó þvælingnum áfram en reyndi bara að sleppa því að klappa kjúklingum.

Þegar ég var í Hanoi, höfuðborg Víetnams, komst ég að því að á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs létust 144 manneskjur í umferðarslysum þar í borg. Á öðrum svæðum deyr fólk úr hungri, þorsta, malaríu og alls kyns ógnum. Það fór lítið fyrir þessu í fjölmiðlum á Íslandi en ég hélt áfram að fá tölvupóst þess efnis að ég gæti fengið fuglaflensuna og yrði að drífa mig heim.

Á sama tíma létust í kringum 100 manns í hryðjuverkaárásum í syðri hluta Taílands. Ættingjar mínir heima fengu sem betur fer engar fréttir af þessu árásum. Smám saman fjaraði fuglaflensuáróðurinn út.

Í öllum þessum fréttaflutningi skín merkileg staðreynd í gegn. Dauðsföll í þriðja heiminum skipta okkur ekki máli nema þau geti haft bein áhrif á okkur. Fuglaflensan hefði getað smitast til hins vestræna heims en hryðjuverkaárásir í Taílandi eða umferðarslys í Hanoi verða eflaust bara þar. Svo ég tali nú ekki um hungursneyð í Laos eða ungbarnadauða vegna skorts á lyfjum í Kambódíu.

Þegar ég svo kom heim, fimm mánuðum seinna, heyrði ég reglulega þessa sömu spurningu: “Kom ekkert upp á?” Nei, það kom nefnilega ekkert upp á. Það fannst mörgum undarlegt. Að allt skyldi bara ganga vel.

Það helsta sem breyttist var heimsmynd mín. Ég gerði mér grein fyrir að Ísland er ekki endilega miðpunktur alls og að það er meira í veröldinni en Vestur-Evrópa og Bandaríkin.

Það sem var kannski það allra merkilegasta var að alls staðar var mér vel tekið. Fólk vildi allt fyrir mig gera, opnaði heimili sín og gaf mér tíma af lífi sínu. Án þess að vilja nokkuð í staðinn.

Túlkun Íslandsdeildar AI á ástandinu í heiminum fer vel saman við reynslu mína. Við skiptum heiminum upp í tvö meginsvæði. Svæðið “okkar” og svo svæðið sem “hinir” búa á. Landið okkar tilheyrir náttúrlega okkar svæði ásamt löndum sem við þekkjum vel og hafa kannski svipaða menningu. Á hinu svæðinu er allt hið vonda í heiminum. Þar eru nauðganir, morð, hryðjuverk, sjúkdómar o.s.frv.

Það er kannski eðlileg tilhneiging hjá manneskjunni að reyna að skilgreina sig frá öllum áhættuhópum. Á meðan það er aðeins fátækt fólk sem fær sjúkdóma og ólánsfólk sem er rænt, myrt eða því nauðgað getum við haldið áfram að lifa með gluggatjöldin dregin fyrir. Á meðan allt illt kemur frá útlendingum og því sem er framandi er nokkuð víst að við þurfum ekkert að óttast.

Það sem var erfiðast við heimkomuna var að sjá þessi nýstaðfestu útlendingalög. Nú er það skjalfest að allt fólkið sem tók svo vel á móti mér er tortryggilegt fyrir þær einar sakir að vera öðruvísi á litinn. Þannig hefur Útlendingastofa fullt umboð til að halda áfram að reyna að “góma” þá sem gætu verið ólöglegir í landinu og státa svo af því að hafa sent fólk til baka sem var hér með góðum vilja og á jafnvel ekki afturkvæmt til eigin lands. Við getum meira að segja meinað lituðum ferðamönnum að koma til landsins enda er miklu betra að þetta fólk haldi sig bara í sínu horni. Ég skora á þingheim að beita sér fyrir því að við múrum okkur ekki inni með þjóðrembu að vopni. Bjóðum útlendinga velkomna til landsins, sama frá hvaða menningarheimi þeir eru. Við höfum nóg pláss og nóg af störfum!