Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 2. júní 2004

Vandi skólakerfisins

Æi, enn ein rannsóknin sem sýnir að strákum líði agalega illa í skólum og miklu verr en stelpum,” röflaði ég við morgunverðarborðið um daginn. Ég las umrædda frétt í flýti og hélt svo áfram að röfla. Móðir mín hlustaði þolinmóð á.

“Þegar það hallaði á stelpur í skólum landsins þá var alltaf sama viðkvæðið, þær yrðu bara að standa sig betur. Reyndar heyrast sömu raddir í dag þegar rætt er um launamun kynjanna. Konur standa sig ekki nógu vel í samningaviðræðum, í starfi eða bara í myndun tengslanets.

En um leið og það hallar á strákana breytist umræðan og það á að grípa til aðgerða. Ástæðna er þá leitað í utanaðkomandi þáttum en ekki í fari drengjanna sjálfra. Nú er ég alls ekki að halda því fram að við eigum bara að una við það að drengjum landsins líði illa í skólanum. Hins vegar á ég erfitt með að ímynda mér að stelpum líði svakalega vel ef helmingi bekkjarfélaga þeirra líður illa. Undanfarin ár hafa komið fram ýmsar rannsóknir sem sýna fram á að við séum í raun að eyðileggja öll börn með skólakerfinu eins og það er í dag.”

Mamma var smám saman að reyna að losna undan ræðunni enda kominn tími á að hefja daginn. “En hvers vegna líður börnum svona illa í skólanum?” spurði hún rétt áður en hún slapp út úr dyrunum. Ég sat eftir með Cheeriosið og Moggann, klóraði mér í höfðinu og spurði sjálfa mig: Já, hvers vegna?

Ég fór því að rifja upp mína eigin skólagöngu. Ég var reyndar svo heppin að tilheyra elítunni sem bæði kann fyrir sér í íslensku og stærðfræði. Ég var því ekki lengi að sannfærast um að ég væri alveg nógu klár til að vera í skóla. Ég lærði að hvers kyns verkmennt væri ekki nærri eins göfug og blessuð tungan og að ekkert væri göfugra en að geta lagt saman tvo og tvo og jafnvel þulið margföldunartöfluna. Í öðrum greinum gekk mér ekki eins vel. Ég var með tíu þumalputta í saumum og varð fljótt öskureið yfir að þurfa að læra þessa vitleysu. Mér gekk aldrei sérlega vel í myndmennt og fékk C í hegðun í tónmennt.

Ekki nóg með það heldur sannfærðist ég um að ég gæti ekki og myndi aldrei geta saumað, teiknað eða sungið. Ég var kannski fljót að gefast upp en það hlýtur samt að teljast vafasamt að kórstjórinn hafi sagt yfir barnahópinn að aðeins tveir nemendur væru svolítið laglausir. Annar tveggja var ég. Mér leið samt ekki illa í skólanum því að ég vissi að ég var klár í einhverju sem var svo miklu miklu merkilegra; íslensku og stærðfræði! Það er þó ekki laust við að ég velti því fyrir mér hvernig bekkjarfélögum mínum sem voru slakari í þessum fögum og sterkari í öðrum hafi liðið.

Öll umræða um skólamál er mjög tvíbent. Um leið og við viljum auka sveigjanleika og búa til einstaklingsnámskrár fjölgum við samræmdum prófum og gefum út Aðalnámskrá grunnskóla sem segir til um markmið sem flestir nemendur eiga að ná á sama tíma.

Próf er mjög einhæft námsmat og ég leyfi mér að fullyrða að flestir kennarar séu sammála um að próf snúist síst um hvað nemendur geta eða kunna. Það getur ómögulega samræmst þeim sveigjanleika sem menntafrömuðir dásama að ýta öllum nemendum inn í það þrönga form sem próf eru. Háleit markmið Aðalnámskrár eru stundum svo undarleg að það virðist sem skólinn eigi að skila börnum fullkomnum.

Ég hef einfalda lausn á vanda skólakerfisins í dag. Afnemum samræmd próf og hendum Aðalnámskrá grunnskóla í ruslið.

Það er ekki langt síðan ég var í skóla. Ég er nokkuð viss um að enn þykja íslenska og stærðfræði mun göfugri en aðrar greinar og verkmenntagreinarnar kúra eflaust á botninum. Ef börnum á að líða vel í skóla þurfa þau að fátækifæri til að þroska hæfileika sína á sem flestum sviðum og verklegu sviðin þarf að meta til jafns á við þau bóklegu. Um leið og barn fær einhverja upplifun í þá átt að það standi sig vel eru miklu meiri líkur á að það verði jákvætt gagnvart öðrum fögum.

Einkunnagjöf er hins vegar til þess eins fallin að auka samkeppni meðal nemenda. Að þurfa stöðugt að bera sig saman við aðra er engum hollt, hvorki þeim sem koma vel út né þeim sem koma illa út. Við þurfum að staldra við og velta fyrir okkur hvort skólakerfið okkar í dag sé endilega hið eina rétta. Kerfi sem byggir á aldagamalli hefð og veruleikanum sem var fyrir upplýsingatæknibyltinguna. Á meðan hugmynd okkar um skóla snýst eingöngu um stofu með þrjátíu borðum, og það flippaðasta sem okkur dettur í hug er að raða borðunum öðruvísi upp en vanalega, munum við aldrei ná því marki að skóli verði sú mennta- og uppeldisstofnun sem kröfur standa til.

Sú skilvirknidýrkun sem ríkir í menntamálum á Íslandi mun seint verða til þess að börnum líði vel í skólanum. Það að rjúka yfir námsefni og temja börnum páfagaukalærdóm fyrir samræmd próf, svo að skólinn komi nú vel út í samanburði við aðra, kemur í veg fyrir að við nokkurn tíma náum að skapa þann sveigjanleika sem er menntakerfinu nauðsynlegur. Það væri nær að gefa kennurum og skólastjórum það svigrúm sem þeir þurfa á að halda til að gera stærstu vinnustaði landsins að mannvænum stofnunum.

Við þurfum ekki að breyta skólakerfinu eins og það er í dag. Við þurfum að skipta um kerfi!