Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 22. nóvember 2006

 Útlönd fyrir útlendinga

 Ég er nýkomin heim frá útlöndum. Ég var að koma frá Ástralíu sem þýðir að ég þurfti að fljúga í ofsalega marga klukkutíma. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema af því að það breyttist eitthvað í flugvélinni á leiðinni, eða öllu heldur flugvélunum.

Í vélinni frá Sydney til Bangkok rifjaði ég upp góða daga í Ástralíu. Ég var ennþá hálftapsár yfir að fótboltaliðið mitt hefði ekki náð að merja fram sigur í innanhússmóti háskólans. Þetta var svo skemmtilegt lið. Við vorum sjö leikmenn frá jafnmörgum löndum og þremur heimsálfum, að spila í þeirri fjórðu. Helsti stuðningsmaðurinn okkar kom svo frá fimmtu heimsálfunni. Minningar brengla stundum veruleikann og allt í einu fannst mér eins og það hefði alltaf verið sól þegar við borðuðum hádegismat eftir leiki og hlógum að mismunandi matarvenjum

Á flugvellinum í Bangkok komst ég ekki hjá því að rifja upp gamla daga í Taílandi á sama tíma og ég nagaði mig í handarbökin yfir að ætla að fljúga lengra norður í kuldann. Burt frá ströndunum, burt frá skóginum, burt frá fólki sem reyndist mér svo vel – Íslendingnum í Taílandi.

Á Heathrow-flugvelli í London ríkti aðskilnaðarstefna í nafni öryggis og viðskiptasamninga. Litað fólk fór í eina röð og hvítt fólk í aðra. Sú síðarnefnda var umtalsvert styttri. Auðvitað voru nokkrar undantekningar en þetta var meginreglan.

Farþegar á leið í tengiflug voru pirraðir. Sumir voru að missa af flugi en raðirnar voru langar og kröfurnar strangar. Örþreytt starfsfólkið svaraði endurteknum spurningum stuttaralega meðan það rak fólk sem hafði fleiri en eina tösku í handfarangri til baka og sagði þeim að tjékka sig inn. Ég setti tannburstann og tannkremið í glæran plastpoka og reyndi að fylgja öllum reglum til að flýta fyrir.

Ég þurfti að bíða á Heathrow í níu klukkutíma í stað fimm vegna ófærðar heima fyrir. “Hlýlegar móttökur föðurlandsins,” hugsaði ég og brosti í kampinn. Þegar ég heyrði sífellt fleiri tala íslensku fóru hlutirnir að breytast. Ég, sem hafði verið útlendingur, breyttist í Íslending og allir hinir í útlendinga.

Í vélinni heim sat ég við hliðina á útlendingum sem blótuðu alla leiðina. Sætin voru óþægileg, fréttirnar í blöðunum heimskulegar og fólk almennt fífl. “Vanþakklátt pakk,” hugsaði ég rétt áður en ég kvartaði sáran yfir því að ekkert Morgunblað væri um borð. En þvílíkur munur að geta kvartað á íslensku. Og nú vil ég deila með ykkur hugarangri mínu.

Frá því að ég kom heim hef ég haft gríðarlegar áhyggjur af því Íslendingar fari alltof mikið til útlanda. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fóru rúmlega 390 þúsund Íslendingar um Leifsstöð á árinu 2005 sem er fjölgun um hundrað þúsund frá árinu 2003. Auðvitað eru sumir margtaldir en þetta þýðir að á hverjum degi ársins eru meira en þúsund Íslendingar að fara til eða koma frá útlöndum.

Engar rannsóknir hafa farið fram á þeim áhrifum sem þessi þvælingur Íslendinga hefur á íslenskar listir og menningu. Hvað verður um íslenskt tónlistarlíf þegar listafólkið okkar eyðir mestum tíma sínum í útlöndum?

Ekki eru til neinar staðfestar tölur um hversu margir Íslendingar búa í útlöndum, m.a. vegna skorts á upplýsingum um andlát sem og barneignir. Á Norðurlöndunum einum búa sextán þúsund Íslendingar! Á tímabilinu 2000-2005 fluttu 18.233 íslenskir ríkisborgarar til útlanda en aðeins 15.870 fluttu heim. Þetta þýðir tap upp á 2.363 Íslendinga. Í ofanálag dvelur fjöldi Íslendinga í útlöndum í skemmri eða lengri tíma án þess að tilkynna brottflutning.

Ísland er fámennt land og íslenskan brothætt. Þótt fæðingartíðni hér sé hærri en gengur og gerist í Evrópu er augljóst að þjóðin má ekki við frekari brottflutningi. Auðvitað eru til Íslendingasamfélög í útlöndum sem halda í hefðir og venjur en það er samt erfitt að dvelja í útlöndum í lengri tíma án þess að smitast af menningu heimamanna. Þetta ætti ég að þekkja. Þegar ég kom heim frá Asíu tók ég upp á því að elda núðlur og hrísgrjón í öll mál. Það er auðvitað ógnun við matarmenningu okkar Íslendinga. Hvað með soðinn fisk og svið? Eftir ársdvöl í Danmörku drakk ég alltof mikinn bjór (á kostnað maltöls) og talaði um “góðan slag” og “doblur” þegar ég spilaði kotru, sem ég auðvitað kallaði bakcgammon eins og hver annar viðvaningur. Og núna eftir Ástralíudvölina finnst mér eins og ég eigi að setja kommur út um allt og byrja allar setningar á “takandi mið af” og “þrátt fyrir”. Í ofanálag ætlaði ég að fara að spara vatn við uppvaskið og flokka rusl. Það er hræðileg ógn við uppvasksmenningu okkar Íslendinga sem og þá hefð að henda öllu rusli í sama poka.

Hvað næst? Hætti ég að halda upp á jólin? Neita ég að borða hvalkjöt? Gleymi ég öllu því sem gerir mig að Íslendingi?

Ég vona að allir Íslendingar sjái mikilvægi þess að við höldum okkur heima við. Stöðugur þvælingur út um allar trissur er stórhættulegur menningu okkar og gildum. Ef við gætum okkar ekki þá gleymum við því að við erum Íslendingar og förum að líta á okkur sem útlendinga, líkt og ég gerði áður en ég áttaði mig í Heathrow.

Um leið óska ég eftir að einhver stjórnmálaflokkur taki þetta upp. Það er alla vega löngu tímabært að ræða þessi mál. Útlönd fyrir útlendinga.