Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 14. apríl 2007

Úlfur úlfur! Kommúnisti!

Hvers vegna er orðið kommúnisti alltaf notað sem skammaryrði?” spurði vinkona mín um daginn. “Mér finnst svo skrítið að láta eins og allir sem vildu koma þessu þjóðfélagsskipulagi á hafi verið vont fólk og viljað heiminum allt illt,” bætti hún við.

Ég velti þessu fyrir mér og greip til almenna svarsins um að sigurvegarinn skrifaði söguna. Kapítalisminn hefði “unnið” og þess vegna væru allir kapítalistar góðir en kommúnistar vondir. Vinkona mín samsinnti og við ræddum fram og aftur tengsl núverandi stjórnmálamanna við kommúnisma og kapítalisma kalda stríðsins. Ber fólk sem vill að gosdrykkir séu dýrari en ávaxtasafi á Íslandi í dag á einhvern hátt ábyrgð á voðaverkum Stalíns í Sovétríkjunum á sínum tíma?

Nú hugsa eflaust einhverjir að þarna hafi verið tveir litlir kommúnistar að spjalla um stórhættulega framtíðarsýn sína. Að sama skapi hefðu gamlir vinstri menn (hvort sem þeir kölluðu sig kommúnista eða ekki) sem hefðu hlýtt á áframhald umræðna okkar eflaust andvarpað þungt yfir því hvernig kapítalisminn hefur náð föstum tökum á hinni ungu kynslóð.

Í framhaldi af þessari samræðu rifjaðist upp fyrir mér félagsfræðatími í Kvennó, sem við vinkonurnar sátum einmitt báðar, þar sem við fengum í hendurnar kubba í mismunandi litum og ólíkir hópar áttu að reyna að kubba einlit eða marglit hagkerfi eftir því hvort þeim var úthlutað hinni kommúnísku hugsjón, kapítalisma eða ósk um blandað hagkerfi. Ég var kapítalisti og lenti m.a. í deilu við kommúnista sem vildi endilega græða sem mest á kubbaskiptum við mig. Ég sagði henni að lesa kennslubókina. Hún væri kommúnisti núna og ætti ekki að reyna að græða á mér, saklausum kapítalistanum.

Þetta var sá árgangur Kvennaskólans sem útskrifaðist árið 2000. Við vorum 8, 9 og 10 ára þegar Berlínarmúrinn féll. Ég man eftir að hafa horft á fréttir í sjónvarpi heima hjá hálfþýskum vini mínum þar sem vel var fylgst með gangi mála. Sjálf var ég meira að spá í hvort þau ætluðu ekki að fara að fá sér litasjónvarp, það væri algjört rugl að horfa á teiknimyndir í svarthvítu.

Í umræddum félagsfræðatíma þekktu sum okkar muninn á kapítalisma og kommúnisma. Í hugum annarra voru þessi hugtök merkingarlaus, kannski vegna áhugaleysis á pólitík, kannski vegna áhugaleysis á því að vera dregin í dilka sem aðrir bjuggu til.

Það var líka sérstakt fyrir okkur sem ekki ólumst upp á þrælpólitískum heimilum að velta stefnunum fyrir okkur í félagsfræðatíma ári eða tveimur áður en við fræddumst um sögu kalda stríðsins og spennuna sem var á milli “liðanna tveggja”.

Frá því að ég talaði máli kapítalismans í Kvennó fyrir tíu árum hafa verið gerðar margar tilraunir til að skipa mér í annað liðið. Ég hef verið kölluð kommúnisti og marxisti, já og jafnvel bláeygur kommúnisti en þess má geta að ég er með grænbrún augu, (sem hefði þó varla sést í svart-hvíta sjónvarpinu sem ég hafði áhyggjur af þegar Berlínarmúrinn féll).

“Það er eins og aldrei sé reynt að komast að kjarnanum í neinum málum. Fólk skiptir sér frekar í flokka og vill svo gera allt til að klekkja hvert á öðru,” sagði vinkonan sem ég nefndi í upphafi. “Ég er sannfærð um að það getur verið meiri samvinna innan stjórnmálanna. Af hverju er svona miklum tíma eytt í að reisa múra og nálgast hlutina á neikvæðan hátt?” spurði hún og þvertók fyrir að hægt væri að skipta Íslandi í rautt og blátt, eða í tvo hópa yfirleitt.

Þegar upphrópanir ráða ríkjum í pólitík er um leið verið að gera lítið úr pólitískri umræðu. Hinn almenni kjósandi verður smám saman stressaður yfir að átta sig ekki á hvað er allra mikilvægast fyrir land og þjóð og leyfir málefnum nærumhverfisins að víkja fyrir óljósum hugmyndum um þenslu og samdrátt, hagstjórn og óstjórn. Skipulagsmál verða þá að stórpólitískum málaflokki þar sem 2+1 eða 2+2 er allt í einu ekki lengur fyrsta bekkjar reikningur heldur tilefni til að skipta öllum í tvo hópa, úthrópa stjórnvöld fyrir svik og pretti og saka stjórnarandstöðuna um upphlaup. En er 2+1 eða 2+2 pólitík? Eða öllu heldur praktískt skipulagsatriði?

Í málaflokkum á borð við menntamál, velferðarmál og jafnréttismál eru miklu meiri pólitísk átök sem skipta allt fólk í landinu gríðarlega miklu máli. Á að leyfa upptöku skólagjalda? Hvernig á að búa að öldruðum? Gjaldfrjáls leikskóli? Sænska leiðin?

Úlfur úlfur! gala pólitíkusar. Er nema von að almenningur missi traust á stjórnmálamönnum og áhuga á stjórnmálum? Það er nefnilega þannig að það getur vel verið að það sé úlfur á leiðinni, en það getur líka verið að allir úlfar séu víðs fjarri. Og hverju á fólk að trúa?

Ekki bætir úr skák þegar stjórnmálamenn missa tímaskynið og vara fólk með látum við fjarlægri ógn liðinna tíma, eins og að ætla að hræða göngugarpa um hálendi Íslands við mikilli og síaukinni umferð kyrkislangna um svæðið. Og þrátt fyrir alla skynsemi og vitneskju um að kyrkislöngur eigi almennt ekki leið um hálendi Íslands sitjum við eftir með örlítinn ótta við dramatískan dauðdaga með slöngu um hálsinn. Og innan við helmingur þjóðarinnar ber traust til Alþingis.