Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 3. ágúst 2004

Söguskoðun

Ég hlakka svo mikið til að verða amma. Ég veit nefnilega að ömmur segja barnabörnunum sínum sögur og mér þykir ferlega gaman að segja frá. Ég mun að sjálfsögðu passa mig á að vera hvorki kommúnisti né marxisti enda hef ég það fyrir satt að þeim farnist illa að segja sögur. Ég ætla að segja barnabörnunum söguna um Ísland:

Fyrir ofsalega mörgum árum komu víkingar til Íslands. Hér bjuggu engir írskir munkar svo víkingarnir tóku land sem enginn átti og ákváðu að eiga það. Víkingarnir byrjuðu á að berjast um hver ætti hvað og þeir voru að sjálfsögðu hver öðrum stoltari og hefnigjarnari. Þetta voru náttúrlega mest karlar. Sumir merkilegir og aðrir ómerkilegir og ýmist ljósar eða dökkar hetjur. Konur voru náttúrlega ekki hetjur af því að þær voru lítið fyrir að skora hver aðra á hólm.

Einn dag ákváðu víkingarnir að hætta að trúa á alls konar skrýtin goð og fóru að trúa á einn guð. Þarna reyndi mikið á sáttahæfileika víkinganna. Þeir stóðu sig svo agalega vel að það var ekki fyrr en árið 2004 að önnur eins snilldarákvörðun var tekin á Íslandi.

Íslendingar urðu fljótt sannfærðir um yfirburði sína. Þó þeir þyrftu af og til að vera undir einhverjum öðrum konungum þá logaði sjálfstæðiseldurinn alltaf í brjóstum þeirra. (Svo færi það eftir því hvað ég hefði langan tíma hversu mikið ég myndi segja frá sjálfstæðisbaráttunni og slagsmálum Valdasjúkra karla.)

Tuttugasta öldin var bráðskemmtileg. Þá ruku Íslendingar úr torfkofum og byggðu sér glæsileg einbýlishús. Á sama tíma fóru konur að krefjast einhverra réttinda en ég ætla nú ekkert að vera að tala of mikið um merkilegar konur því það gæti varpað skugga á það ljómabað sem körlunum sæmir. (Svo nafngreini ég að sjálfsögðu hundrað kalla í einni bunu og læt góðan skammt af ártölum fylgja með).

Íslendingar vissu sem var að þeir voru einstakir. Fallegustu konurnar og sterkustu karlarnir byggðu þetta land og enginn hefði efast um að það væru eftirsóknarverðir eiginleikar. Íslendingar pössuðu vel upp á sjálfstæðið eftir að þeir loks fengu það. Það var vitað að sjálfstæðið yrði best varið með herveldi og vopnaburði. Þess vegna gekk Íslands til liðs við NATO og fékk fínan bandarískan her til landsins.

Íslendingar voru svolítið lengi að gera sér grein fyrir með hverjum þeir ættu að standa í stríði. Í stríði var nefnilega sigurvegari og Íslandi sómir sérlega vel að sigra. Það var jú vitað að þjóð sem ekki fer í stríð getur ekki unnið stríð. Stríð voru háð af því að góði kallinn vildi kenna þeim vonda að vera góður líka. Í stríðum sannaðist að menn sem voru á móti hernaðarátökum og vildu ekki taka þátt höfðu rangt fyrir sér og töpuðu. Friðsælu fólki skyldi aldrei treyst fyrir utanríkismálum Íslendinga því það væri ávísun á tap. Allt sem ekki er sigur er tap.

Íslendingar vissu alltaf hvert markmiðið var; að verða rosalega ríkir. Landið var fallegt og til þess að byggja upp ferðaþjónustu voru lagðir fínir vegir og fyrst þeir voru þarna á annað borð var allt eins hægt að setja upp stærðarinnar virkjanir. Helsta verkefni Íslendinga var að sanna yfirburði sína og einn liður í því var að beisla náttúruna. Án virkjana hefði þjóðin dáið út.

Íslendingar vissu líka ósköp vel að þeir voru miklu merkilegri en flestir aðrir og þeir þreyttust ekki á að sannfæra hver annan um það. Það var því alveg hrikalegt áfall þegar útlendingar fóru að stunda það að gera Íslendinga ástfangna af sér.

Fyrst voru það útlenskir hermenn sem heilluðu íslenskar konur. Það vandamál var fljótt kallað ástandið og allt kapp var lagt á að leysa vandann. Konurnar voru útskúfaðar úr samfélaginu, börn þeirra kölluð illum nöfnum og ungum stúlkum fylgt eftir og ógnað með meyjarhaftsprófi. Sem betur fór voru svartir hermenn bannaðir á Íslandi því annars hefði óæskileg kynþáttablöndun getað átt sér stað.

Hið seinna ástand var svo þegar útlenskar konur fór að sækja í víkingana. Ekki nóg með að þær væru útlenskar heldur voru þær líka öðruvísi á litinn. Versti parturinn var þó sá að konur þessar vildu bara fá að búa á Íslandi en þetta hafði ekkert með ást að gera. Aldrei hefði hvarflað að Íslendingum að giftast af annarri ástæðu en ást.

Svo þegar konurnar fluttu til Íslands drógu þær alla ættina með. Þetta var hið alvarlegasta mál enda hafði hver Íslendingur aðeins þrjá til fjóra ferkílómetra fyrir sig og það sér það hver heilvita maður að það er ekki nóg pláss. Inn í spilaði líka að við áttum landið og þá mátti að sjálfsögðu ekki hver sem var ryðjast inn í það. En Íslendingar brugðust við þessum vanda.

Með snilldarlegum lagasetningum, alþjóðlegum sem heimatilbúnum, lokuðu þeir landinu fyrir útlendingum sem voru skrýtnir á litinn. Hættulegastir voru útlendingar undir 24 ára aldri svo það voru sett sérstök lög til þess að halda þeim í burtu. Þeir fáu sem sluppu í gegn voru svo hakkaðir í spað með orðróminum einum saman enda voru Íslendingar svo frjálsir að þeir máttu segja og gera hvað sem var. Karlarnir voru sagðir hafa keypt konurnar og þær sagðar dragbítar á hinu margrómaða velferðarkerfi. Þau börn sem sluppu í gegnum viðamiklar DNA-rannsóknir fengu þó að ganga í skóla á Íslandi.

Nú væri eflaust kominn háttatími fyrir börnin svo amma litla myndi breiða ofan á þau, kyssa þau á ennið og bjóða góða nótt.