Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 24. september 2004

Patrekur

Í viðhorfspistli dagsins hef ég hug á að kynna lesendur fyrir Patreki enda er hann mér mjög kær. Hann varð til á St. Patreksdag hinn 17. mars sl. en Patrekur er þó ekki barn eins og margir kynnu að halda. Patrekur er maður litla mannsins. Hann berst fyrir jafnrétti og útbreiðslu alheimsfemínismans. Hann er svo meðvitaður um áhrif félags- og kynmótunar að hann er hvorki karl né kona. Hann er heldur ekki samkynhneigður eða gagnkynhneigður, fatlaður eða ófatlaður, svartur eða hvítur. Patrekur er fyrst og fremst manneskja.

Patrekur er vel menntaður, víðsýnn og víðförull. Hann hefur lokið kennaraprófi, heimspeki og mannfræði í háskólanum og leggur nú stund á lögfræði og skemmtanastjórnun. Hann hefur dvalið langdvölum í ýmsum Evrópulöndum og að sjálfsögðu vestanhafs líka auk þess að hafa ferðast um leynda afkima Asíu og Afríku. Hvert sem hann kemur leggur hann sig í líma við að kynna sér sögu og menningu heimamanna. Hann hefur dansað salsa á Kúbu, rætt um jarðsprengjur í Afganistan, sungið í karókí í Malasíu, dúllað sér með hryðjuverkamönnum í Katar og svo mætti lengi telja. Þegar Patrekur er á erlendri grund er hann fljótur að tileinka sér siði heimamanna. T.a.m. heilsaði hann virðulegum múslima í Malasíu með hinu hefðbundna handataki þorpsbúa svo að viðstaddir gátu alls ekki séð að Patti litli hafði ekki hugmynd um hvað hann var að gera. “God bless you” sagði hann svo uppfullur af virðingu þegar húsfreyjan hnerraði við matarborðið og spurði örskotsstundu síðar hvort það væri svínakjöt á boðstólum.

Patrekur er sprellari af guðs náð. Á góðum dögum grillar hann í liðinu og skeytir lítt um hvort fólki finnst hann sniðugur eða ekki. Hann veit sem er að hann er yfirmáta fyndinn og fólk sem ekki hlær með hlýtur að vera að misskilja grínið. Hann gerir sér vel grein fyrir eigin ágæti og blaðrar oft út í eitt um nýjustu greinina sína á Sellunni eða sérlega vel skrifaða forsíðufrétt Morgunblaðsins.

Patreki er ekkert óviðkomandi og hvort sem reynsla hans er góð eða slæm nýtir hann hana á jákvæðan hátt sér og öðrum til handa. Til að mynda rekur Patrekur mikinn áróður fyrir eldvörnum og athugar ástand reykskynjara hvar sem hann kemur um leið og hann brýnir fyrir íbúum að verða sér úti um eldvarnarteppi. Ekki nóg með það heldur er hann í mikilli herferð gegn kynferðislegu ofbeldi og hefur lagt gríðarlegan metnað í að rannsaka vinnuumhverfi barna á Íslandi.

Þrátt fyrir að Patrekur sé vanalega ljónheppinn þá fer hann samt varlega vitandi að óvarkárni er ekki til góðs. Áhugi hans á fyrirbyggjandi aðgerðum er svo mikill að hann sem fyrirbæri er eiginlega fyrirbyggjandi. Hann veit að með samstilltu átaki er hægt að auka hamingjuna í heiminum og útrýma fátækt og vesæld. Ef fólk aðeins hlustaði á Patrek gætu sjúkdómar og slys heyrt sögunni til.

Patrekur tekur ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Hann á til dæmis ekki sjónvarp og er alfarið mótfallinn allri poppmenningu. Patrekur á heldur ekki bíl og fer allra sinna ferða gangandi eða á hjóli, nema þegar hann lætur mömmu sína keyra sig. Hann tekur engan þátt í útlitsdýrkun samfélagsins og þess vegna segir hann engum frá því þegar hann fer í ljós. Þetta tengist að sjálfsögðu lífsspeki Patreks; að það sem sést ekki er ekki. Þess vegna passar Patrekur sig að hafa drasl heimilisins undir rúmi eða inni í skáp og ef hann á von á gestum er hann fljótur að fela fartölvurnar sínar og kennir sambýlisfólkinu um forláta leðursófasett og brjálæðislega steríósamstæðu.

Patrekur er vel meðvitaður um samtakamátt alþýðunnar og veit hve mikil áhrif grasrótarstarf getur haft á framgang mála í þjóðfélaginu. Þess vegna er Patrekur virkur og óvirkur meðlimur í ýmsum samtökum, bæði pólitískum og ópólitískum. Amnesty International, Rauði krossinn, Orator, Samtök herstöðvaandstæðinga, knattspyrnufélag Magnúsar Finnssonar, Femínistafélag Íslands, Ísland-Palestína og Háskólakórinn fá öll að njóta samvista við Patrek. Hann blaðrar um þjóðnýtingu við Vinstri græna, mikilvægi frelsis við frjálshyggjumenn og dásamar markaðsvædda einkavæðingu í félagsskap krata.

Patrekur er á móti gróðasjónarmiðum og vill helst alltaf versla við lítil fyrirtæki sem standa höllum fæti. Hann er meðvitaður neytandi og kaupir sér pefsí frekar en kók og talar hátt um hin hrikalegu, siðlausu stórfyrirtæki. Samt veit hann að til þess að geta ferðast um heiminn og útbreitt fagnaðarerindið verður hann að eiga peninga. Og til þess að græða peninga neyðist hann til að versla í Bónus.

Patrekur skilur mikilvægi þess að alþjóð fái innsýn í þær dásamlegu hugmyndir sem brjótast um í kolli hans. Hann heldur því úti virkum bloggsíðum, ritar greinar bæði í blöð og vefrit og nýtir sér ljósvakamiðlana við að koma skoðunum sínum á framfæri. Patrekur hikar heldur ekki við að halda ræður við hvert tækifæri, hvort sem það er pólitískt eða hátíðlegt.

Það sem er kannski merkilegast við Patrek er að vinsældir hans má fyrst og fremst rekja til þess að hve miklu leyti fólk sér sjálft sig í Patreki. Því Patrekur er maður fólksins og fólkið er Patreks. Patrekur – svo miklu, miklu meira!