Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 30. nóvember 2006

Órækt í bakgarðinum

Fyrir rúmum tveimur árum birti ég í þessum dálki Viðhorf þar sem ég minntist á viðbrögð sem ég fékk við áætlun minni um nokkurra mánaða ferðalag á eigin vegum. Við fregnunum brást fólk oft með því að spyrja mig hvort ég væri ekki hrædd og kallaði mig ýmist fífldjarfa eða brjálaða. “Hrædd við hvað?” spurði ég, og þá komu vöflur á viðmælendur mína.

Karlkyns félagar mínir sem hafa lagt upp í álíka ferðalög hafa ekki fengið jafn dramatísk viðbrögð. Hvers vegna? Þeir geta ekki frekar en ég forðast rán, óhöpp eða rútuslys. Þegar ég spyr nánar út í þennan ótta, sem ég á að hafa, kemur undantekningarlaust í ljós að hann hafi með nauðganir að gera. (Þarna er auðvitað horft fram hjá því að körlum er líka hægt að nauðga.) En staðreyndin er sú að það eru ekkert meiri líkur á að mér verði nauðgað í útlöndum en heima á Íslandi. Nauðgarar eru yfirleitt einhver sem þolandinn þekkir og treystir og ég verð að játa að ég þekki og treysti fleira fólki hér á landi en í útlöndum.

Ég fékk mikil viðbrögð við Viðhorfinu frá konum sem höfðu eða vildu ferðast einar. Þær voru frústreraðar yfir þessum endalausu viðvörunum og hvernig óttinn við nauðgun er notaður til að halda konum niðri.

Það er ekki nóg með að fólk virðist halda að nauðganir séu algengari í útlöndum heldur virðist sem mörgum þyki innflytjendur á Íslandi líklegri til að beita slíku ofbeldi. “Þú veist þú ert rasisti [...] þegar þú finnur til óstjórnlegrar bræði þegar þú heyrir um að útlendingur hafi nauðgað konu, á meðan tíðar fréttir af afrekum alíslenskra nauðgara fara að mestu framhjá þér án þess að valda þér teljanlegu hugarangri,” skrifaði bloggarinn Hnakkus á www.hnakkus.blogspot.com. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Hnakkus var sagður í engum tengslum við veruleikann og því fylgdu hryllingssögur af útlenskum ofbeldismönnum.

Í fyrsta lagi eru engar vísbendingar um að útlendingar beiti ofbeldi frekar en Íslendingar. Í máli Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahúss, á málþingi um ábyrgð karla í umræðu um kynferðisofbeldi sl. helgi kom fram að innflytjendur voru gerendur í 3% brota á hegningarlögum árið 2005. Það sama ár voru innflytjendur hins vegar 4,6% af íbúum landsins. Í öðru lagi er ekkert sem bendir til þess að það sé verra að vera nauðgað af útlendingi en Íslendingi.

Ég fæ ekki betur séð en þarna sé það eignarrétturinn sem spilar inn. Litið er á konur sem viðföng og að íslenskir karlar eigi einhvern meiri rétt en útlendingar til íslenskra kvenna – hvort sem það er til að giftast þeim eða nauðga þeim.

Tilhneiging til að fordæma ofbeldi gegn konum í útlöndum og loka augunum fyrir því sem á sér stað í bakgarðinum hefur einnig verið mér umhugsunarefni. Hvað þýðir það t.d. þegar Egill Helgason talar um ofbeldi gegn konum í múslimalöndum? Einmitt sami Egill og hleypur upp til handa og fóta þegar minnst er á að karlar þurfi að taka ábyrgð í umræðunni um ofbeldi gegn konum á Íslandi.

Nýverið kvartaði Egill undan því að Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingiskona hefði, með því að hvetja karla til að mótmæla ofbeldi, sett hann sjálfan í sama flokk og ofbeldismenn, bara af því að hann er karl. “Hvað á ég sammerkt með þeim mönnum sem nauðga annað en að ég er af sama kyni og þeir?” spurði Egill. Þetta er álíka og hvítir menn í Bandaríkjum 19. aldar hefðu alfarið hafnað því að tala gegn þrælahaldi, þar sem þeir héldu ekki þræla sjálfir.

Það er ekki tilviljun að karlar eru oftast gerendur í kynferðisofbeldismálum og konur oftast þolendur. Þetta er hluti af kúgun kvenna sem á sér margar birtingarmyndir, t.d. í launamisrétti og lágu hlutfalli kvenna í fjölmiðlum. Kúgun kvenna í útlöndum er af sama meiði og kúgun kvenna á Íslandi, þótt auðvitað sé staða kvenna í mörgum löndum verri en hér.

Katrín Anna Guðmundsdóttir gagnrýndi Egil á póstlista Femínistafélagsins og hann sendi þá póstlistanum bréf sem jafnframt hefur birst á Netinu. “Ég hef aldrei viljað umgangast ofbeldismenn, forða mér ef ég verð var við eitthvað slíkt. Ég lifi lífi mínu þannig að ofbeldi á þar engan þátt. Það er besta aðferðin til að vera á móti ofbeldi,” segir í bréfinu. En hvað veit Egill hversu margir þeirra karla sem koma í þáttinn til hans eru ofbeldismenn? Hann hefur ekki hugmynd um það frekar en hann veit hvort þær fáu konur sem hann talar við hafa orðið fyrir ofbeldi.

Ég verð að játa að ég öfunda Egil af því að lifa lífi sínu þannig að ofbeldi eigi þar engan þátt. Konur hafa nefnilega ekki þetta val. Þær sem ekki verða fyrir ofbeldi þurfa að búa við ógnina af því og þær sem verða fyrir því þurfa að bera skömmina sem samfélagið þröngvar upp á þær.

Niðurstaða mín er að þegar talað er um ofbeldi gegn konum í múslimalöndum er litið á þær sem viðföng og tilgangurinn er ekki að vekja athygli á bágri stöðu þeirra. Þvert á móti er staða þeirra notuð í pólitískum tilgangi til að sýna fram á að múslimskir karlar séu villimenn, því þeir fari svo illa með konurnar sínar.

Konur eiga ekki að þurfa að búa við ógn af ofbeldi og baráttan má ekki vera einkamál kvenna. Í sameiningu þurfum við að taka valdið af ofbeldinu, m.a. með því að setja ábyrgðina og þ.a.l. skömmina þangað sem hún á heima – hjá ofbeldismönnunum, sem oftast eru karlar.