Viðhorf: Myndir þú eyða mér?

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 28. ágúst 2004

Myndir þú eyða mér?

Og karlinn prumpar svona,“ söng pattaralegur, sköllóttur karl og fékk æsku landsins til að engjast um af hlátri. Fullorðna fólkið hló með svona til þess að vera ekki með forpokahátt á tímum æskudýrkunar og ef lagið var í útvarpinu mátti bóka að í marga klukkutíma á eftir ómaði það í höfðum hlustenda. Það er eitthvað svo fyndið við prump.

Sigmund Freud talaði um skiptingu persónuleikans í frumsjálf, yfirsjálf og sjálf. Frumsjálfið stýrist af frumhvötunum, þ.e. þörfinni fyrir að hafa hægðir, pissa, stunda kynlíf o.s.frv., og vill að þeim sé fullnægt á stundinni. Yfirsjálfið er hins vegar nokkurs konar siðgæðisvörður og vill alls ekki að þessum þörfum sé fullnægt. Sjálfið er svo í hlutverki sáttasemjarans.

Þegar frumsjálfið hrópar kúka hafnar yfirsjálfið því alfarið en sjálfið kemur með málamiðlunartillögu sem gæti verið að kúka í klósettið.

Á sumum tímum, í sumum samfélögum hefur allt sem tengist frumsjálfinu verið algjört tabú. Þannig hefur kynlíf verið ósiðlegt og allt sem tengist þvag- eða saurláti mikið feimnismál.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var kynlíf mikið í umræðunni á Norðurlöndum. Svo mikið að stundum er talað um kynlífsbyltinguna. Smokkurinn og pillan komu fram á sjónarsviðið og kynlíf hætti að vera rosalegt tabú og fór jafnvel yfir í að vera töff enda frjálsar ástir hluti af friðarstefnu.

Á níunda og tíunda áratugnum og væntanlega á þeim fyrsta nýrrar aldar var því rætt miklu opinskár um kynlíf og kynfræðsla fór að verða annað og meira en ein blaðsíða sem hoppað var yfir í líffræðibókinni. (Reyndar hefur það jafnvel gengið svo langt að kennslan á meira skylt við aðferðafræði en við fræðslu um heilbrigða kynímynd.) Breytingin frá tímunum þegar kynlíf var ósiðlegt og þjóðfélagsumræðan höfðaði einkum til yfirsjálfsins yfir í tíma kynslóðarinnar sem lærir um kynlíf frá boðberum frjálsra ásta er því mikil.

Nú er svo komið að öllum á að þykja kynlíf æðislegt og helst vilja alltaf vera að. Pör eiga að vera nýjungagjörn og prófa allt sem hugmyndaflugið leyfir og helst meira en það. Ef kynlíf er bara „venjulegt“, þ.e. inni í svefnherbergi án tóla og tækja og kannski bara í einni til tveimur stellingum, eru engar líkur á að sambandið endist. Í raun er það orðið svo að kynlíf er orðið kvöð frekar en hitt og þau sem kjósa að stunda ekki kynlíf eru stórskrýtin.

Á sama tíma hefur húmor Íslendinga breyst svo um munar. Tilkoma Fóstbræðra í sjónvarpi varð til þess að þjóðfélagslegt grín Spaugstofunnar hætti að vera eina tegund gríns og það þótti sniðugt að gera grín að samfélaginu og kenndum fólks. Í dag er svo komið að grín sem tengist frumsjálfinu er það allra besta. Rass, typpi, píka og brjóst þykja ekki einungis fyndin fyrirbæri á leikskóla heldur ratar þetta inn í sjónvarspsþætti sem eru með ótrúlega mikið áhorf. Landsþekktir menn drekka ógeðsdrykki í beinni útsendingu, forsetaframbjóðandi sem vill endurvekja virðingu forsetaembættsins lætur flengja sig og „ofurhugar“ hlaupa naktir um við mikinn fögnuð fólks.

Með öðrum orðum; veröld frumsjálfsins blómstrar.

Ekkert má vera óþægilegt eða fara úrskeiðis. Allur matur á að bragðast ofsalega vel og hollustan víkur að sjálfsögðu þar fyrir. Sæti eiga að vera þægileg, einkabílar eru mannréttindi, götur eiga að vera vel ruddar og umferð má helst ekki vera til, jafnvel þótt stærstur hluti Íslendinga yfir 17 ára aldri fari leiða sinna keyrandi.

Í vinnunni þurfa sætin að vera sniðin að líkamanum, tölvuskjáir í réttri hæð og kaffivélar í seilingarfjarlægð. Á heimilinu þurfum við örbylgjuofn, splunkunýjan sófa og fullkomið rúm. Allt okkar umhverfi á að vera hannað þannig að við getum hreyft okkur sem minnst án þess að þurfa að glíma við fylgikvilla hreyfingarleysis eins og vöðvabólgu og aðra líkamsverki.

Við höfum náð ansi langt í að losa okkur við líkamleg óþægindi. Hins vegar er sársauki manneskjunnar ekki eingöngu bundinn líkamanum heldur glímum við líka við tilfinningar og sársauka sem tengist þeim. Það er öllu erfiðara að halda andlegum og tilfinningalegum sársauka í skefjum. Engu að síður hafa okkar færustu sérfræðingar fundið út að með því að deyfa líkamann nógu mikið deyfist sálin sjálfkrafa með enda erfitt að vera með sjálfseyðandi hegðun þegar orkuleysið er algjört.

Kvikmyndin Eternal Sunshine of the Spotless Mind fjallar m.a. um þjónustu sem miðast að því að þurrka út óþægilegar minningar. Misheppnuð ástarsambönd, dauðsföll ættingja eða skammarleg hegðun; þú getur gleymt öllu með aðstoð sérfræðinga. Þarna er komin fullkomin lausn fyrir okkar frumsjálfmiðaða samfélag. Ef þetta getur orðið að veruleika þurfum við ekki neinar erfiðar tilfinningar.

Og að lokum getum við skapað hið fullkomna þægilega samfélag. Ofbeldi breytir litlu því fórnarlömbin geta bara gleymt því. Við borðum súkkulaði og sjúgum svo fituna af. Við finnum aldrei tilfinninguna að hafa klárað erfiðan íþróttatíma. Við munum ekki finna hvað það er notalegt að losna við nefstíflu því stíflan er aldrei til staðar.

Við getum lifað og dáið í hægindastól og ef einhverjum þótti vænt um okkur og sárt að við skyldum deyja mun minning okkar glatast að eilífu.

Prev PostViðhorf: Söguskoðun
Next PostJafnréttismál: Hver misskilur jafnréttishugtakið?