Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 4. september 2004

Meintur “gannislagur”

Átján ára karlmaður hefur lagt fram kæru á hendur 28 ára gömlum karlmanni fyrir líkamsárás. Meint árás á að hafa átt sér stað laugardagskvöldið 3. júlí síðastliðinn á heimili hins ákærða. Engin vitni voru að verknaðinum. Kærandi segir að þeir hafi setið að drykkju á heimli ákærða þegar sá síðarnefndi reiddist og fór að láta öllum illum látum. Kærandi segir hann hafi kýlt sig ítrekað í magann og ógnað sér með hnífi. Kærandi óttaðist um líf sitt og sá sér vænstan kost í stöðunni að taka við höggunum án þess að hreyfa miklum mótmælum. Þegar ákærði hafði lamið nægju sína mun hann hafa sest niður, fengið sér viskí og boðið kæranda að drekka með sér. Kærandi sagðist þurfa að bregða sér á salernið en þaðan stakk hann af út um gluggann og komst við illan leik á bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Samkvæmt skýrslu vakthafandi læknis var kærandi í losti þegar hann kom á sjúkrahúsið en ekki var að sjá mikla áverka á honum. Hann var drukkinn og óstaðfastur í frásögn. Til að mynda sagði hann fyrst að ákærði hefði hafið barsmíðarnar í sófanum en síðar breytti hann framburði sínum og sagði að hann hefði dregið hann út á gólf og byrjað að láta höggin dynja á honum. 

Lögreglan í Reykjavík hefur farið með rannsókn málsins en talið er að um gannislag hafi verið að ræða og að kærandi hafi ákveðið að kæra til þess að ná sér niðri á ákærða. Ekki er þó vitað hver ástæða þess gæti verið. Þá ber að geta þess að kærandi var á þessum tíma snoðklipptur og gaf það til kynna að hann hefði gaman af að slást. Ákærði neitar að um ofbeldi hafi verið að ræða en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu til að láta vita af gannislagsmálunum og þykir hann staðfastur í frásögn.”

Nú býst ég fastlega við því að lesendur séu farnir að velta fyrir sér hvort viðhorfsdálkar séu nú notaðir undir fréttir fremur en skoðanir blaðamanna Morgunblaðsins. Eða er þetta ekki annars frétt? “Gannislagir” voru (og eru eflaust enn) sérlega vinsælt tómstundagaman og þá einkum drengja. Stundum gengu gannislagirnir of langt og enduðu með því að einhver meiddi sig. Gangavörður eða kennari tók að sér að hugga og kyssa á bágtið og sá sem sársaukanum hafði valdið hrópaði vanalega: “Þetta var bara gannislagur. Í alvöru, þetta var alveg óvart.” Sá slasaði samsinnti því milli ekkasoganna og allt varð gott að nýju. Með tímanum lærðu strákarnir betur á mörk hver annars og það kom sjaldnar fyrir að einhver slasaðist í gannislag.

Þrátt fyrir æfingar æskuáranna er ekki algengt að fullorðnir karlmenn leiki sér í gannislag nema þá kannski í þar til gerðum hringjum með mjúku undirlagi. Þess vegna heyrast aldrei fréttir líkt og þessi hér að ofan og þrátt fyrir að engin vitni séu að líkamsárásum er vanalega ekki talið að fórnarlambið sé að ljúga.

Það fer þó öðrum sögum ef fórnarlambið er kona og ofbeldið kynferðislegt (svipað á við um heimilisofbeldi en það er ekki umfjöllunarefni þessa pistils).

Það er nóg að skoða sýknudóma héraðsdóma og Hæstaréttar til þess að sjá hversu undarlegar málsmeðferðir í kynferðisofbeldismálum eru. Sem dæmi má nefna sýknudóm í nauðgunarmáli. Þar kemur glöggt fram hversu mikið áfengi konan sem kærði hafði innbyrt en vímuefnaneysla ákærða er ekki til umfjöllunar þrátt fyrir vísbendingar um að hún hafi verið þónokkur. Það þykir ýta undir trúverðugleika hans að hann hafði samband við lögreglu að fyrra bragði og var samstarfsfús málið í gegn (það virðist ekkert þykja undarlegt að ákærði hafi séð ástæðu til þess að hafa samband við lögreglu!). Þá þykir dómurum mikilvægt að taka fram að allar skýrslur bentu til að ákærða þætti hann ekki hafa brotið á konunni en væri þó nokkuð stoltur yfir að hafa tekist að beita hana fortölum til þess að fá hana til samræðis við sig. Hins vegar þótti það ýta undir ótrúverðugleika konunnar að hún sagðist ýmist hafa staðið utandyra eða inni í anddyri á ákveðnum tímapunkti í frásögninni. Alveg ótrúlegt að kona í losti geti ekki sagt skilmerkilega frá, eða hvað?

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að innan við 2% af tilkynntum nauðgunum eigi ekki við rök að styðjast. Það er sama hlutfall og í öðrum afbrotum. Engu að síður virðist umræða um nauðganir alltaf fyrst og fremst snúast um ábyrgð fórnarlambsins á því sem fram fór og nauðganir eru kallaðar meintar á meðan aðrir ofbeldisglæpir fá ekki þetta fína viðskeyti. (Sjálf tengdi ég orðið meint alltaf við eitthvað agalega vont og hélt það þýddi að nauðgarinn hefði meint þetta…). Þrátt fyrir að fólk geti grætt á því að sviðsetja innbrot í eigið húsnæði er það ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar innbrot er tilkynnt. Hvers vegna það er öðruvísi með nauðganir og annað kynferðisofbeldi er erfitt að segja. Við viljum sjálfsagt ekki að svona vondir ofbeldisglæpir séu til og við reynum að deila ábyrgðinni jafnt á brotaþola sem á ofbeldismanninn. Kannski er auðveldara að sætta sig við að einhver ljúgi svona ljótum glæp upp á annan en að einhver fremji hann.

Þrátt fyrir að manneskja liggi dauðadrukkin og nakin, innandyra eða utandyra, þá gefur það engum rétt til þess að stinga einhverju í hana, hvort sem það er hnífur eða typpi. Með von um að meintum gannislögum fækki og að lögreglurannsókn byggist á réttlæti en ekki fyrirfram ákveðnum niðurstöðum.