Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 24. júní 2005

Látinn píanóleikari heldur tónleika

Mánudagur. Það eru vöfflur í kaffinu og þú ert bara nokkuð sátt við lífið og tilveruna. Spennt yfir að ætla til Eyja á fimmtudeginum að fylgjast með Pæjumótinu. 

(Hvörf). 

Fyrir tilviljun kemstu að því að það eru laus pláss á námskeiðum Bandalags íslenskra leikfélaga í Svarfaðardal en slíkt námskeið hefur verið lengi á “þetta ætla ég að gera” listanum. Þriðjudeginum eyðirðu í að sannfæra yfirmenn þína um að þetta sé þinn eini möguleiki til að verða fræg leikkona. Á miðvikudeginum pakkarðu niður í flýti. 

Í Eyjum er allt eins og það á að vera. Fótboltastelpur eru svo skemmtilegar. “Byrja aftur að þjálfa fótbolta” færist ofar á áðurnefndum lista. Þú ert orðin hás af að garga: “Áfram Afturelding!” C-lið litlu systur verður Pæjumótsmeistari innanhúss. Þú hverfur ellefu ár aftur tímann og þér finnst bikarinn vera þinn á ný. Á kvöldin drekkurðu te með hunangi og reynir að lesa yfir leikritið sem verður unnið með á námskeiðinu.

Á laugardeginum prísarðu þig sæla yfir að flogið sé til Reykjavíkur. Skiptir um töskur og föt og ferð svo með næstu vél til Akureyrar. Mætir of seint á námskeiðið og rétt nærð að hugsa hvern fjárann þú ætlar með því að mæta á námskeið þar sem þú þekkir engan. Andar djúpt áður en þú stígur út úr bílnum og virðir fyrir þér staðinn þar sem þú ætlar að eyða næstu átta dögum. Þú gengur hikandi í átt að fólkinu. Hatar alltaf jafn mikið þetta gamalkunna óöryggi sem þú ert samt svo góð í að fela. Konan sem kenndi þér leiklist þegar þú varst níu ára sprettur upp og faðmar þig. Hún er skólastjóri. Þú andar léttar.

Gerir alla sem þú kannast örlítið við að þínum bestu vinum. Bregður í brún þegar herbergisfélagarnir tala um að morgunleikfimin byggist upp á jóga. Sérð fyrir þér hræðilegar teygjur. Jóga er ekki nógu töff fyrir þig. Þú ert töff. Ekki gleyma því.

Þér líkar nokkuð vel í fyrsta tímanum. Kennarinn góður og hópurinn vinalegur. Hneykslast á busavígslunni og passar að enginn sjái að þér fannst hún nokkuð flott og jafnvel skemmtileg. Veist að busavígslur ganga þvert á pólitíska rétthugsun.

Þú nemur leiklist frá níu á morgnana til sex á kvöldin. Með hæfilegri hádegispásu sem rúmar líka smá blund. Þér finnst alltaf skemmtilegra og skemmtilegra en það hvarflaði ekki að þér að það væri hægt að fá allar þessar harðsperrur. Þú lærir að nota röddina og losa um mjaðmirnar. Bíður með að hlæja yfir furðulegum æfingum þar til á kvöldin.

Á mánudegi tekurðu þátt í Bandaleikunum og skemmtir þér konunglega við að leika lúðrasveit allt kvöldið. Fagnar sigrinum brjálæðislega. Blái trompetinn sem nágrannarnir hata kemur sterkur inn.

Þú færð orku frá fjöllunum og þarft ekki að sofa eins mikið og venjulega. Þú hlýtur titilinn Túttumeistari 2005. Segir mömmu stolt frá því í símann og gleymir næstum að láta fylgja með að það var fyrir að kasta gúmmítúttum allra lengst úr rólu. Smám saman verðurðu hluti af heild. Þú sofnar dauðþreytt á kvöldin en hlakkar til að vakna á morgnana.

Á föstudegi tekurðu þátt í uppfærslu á völdum atriðum úr Kirsuberjagarðinum. Áhorfendur eru þakklátir. Stemmningin góð. Fagnar frumsýningu með gufubaði og sprikli í blautri náttúrunni.

Á laugardegi kynnistu því sem hinir hóparnir unnu með. Hlærð þig máttlausa yfir blaðamannskarakternum sem hugsaði allt í fyrirsögnum. Veltir fyrir þér hvernig þú getir komið fyrirsögninni: “Látinn píanósnillingur heldur tónleika” inn í Morgunblaðið. Kannski litlar líkur á því.

Þú leikur í örleikriti undir öruggri leikstjórn pilts sem var á leikstjórnarnámskeiði. Nýtur sköpunarkraftsins sem einkennir allt og alla á staðnum. Lokahófið er sorglegt og stórskemmtilegt í senn. Þú sem hatar að dansa rýkur út á dansgólfið og heldur þig þar fram eftir nóttu.

Á sunnudegi bölvarðu yfir því að ekki sé boðið upp á morgunleikfimi þennan daginn. Telur á þér marblettina sem ná frá öxlum og niður á tær. Áður en þú sest inn í bílinn faðmarðu alla nemendur skólans, líka þá sem þú talaðir bara tvisvar við. Heldur aftur af tárunum enda ekki endanlega búin að glata “kúlinu”. Hefur sængina og koddann uppi við á leiðinni heim til að geta unnið upp einhvern svefn. En það er bara svo miklu skemmtilegra að spjalla. Þú talar um vald, anarkisma, afbrýðisemi, útlönd, ást, ofbeldi og fíkn. Brjálæðislegar hugmyndir fæðast. Þú ert enn of ung til að skilja að þær verða ekki endilega allar að veruleika á morgun. “Þetta ætla ég að gera” listinn er orðinn enn lengri en hann var áður en þú fórst norður.

Mætir til vinnu á mánudegi, dauðþreytt enda kraftur fjallanna alltof langt í burtu. Skilur ekki tilganginn í að vinna. Það er svo margt miklu merkilegra í lífinu. Samnemendur þínir kalla þetta fráhvarfseinkenni. Skrifar síðan Viðhorf um þetta allt saman og hefur það af einhverjum orsökum í annarri persónu. Yfirskriftin er samt engin tilviljun. Það er svo gaman að láta drauma sína rætast.