Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 26. maí 2007

Lausn, ekki vandamál

Ég held heimili í nágrenni við Hlemm í Reykjavík. Þetta er að mínu mati einn besti staður borgarinnar til að búa á. Öll helsta þjónusta er í göngufæri en ef sækja þarf eitthvað lengra kemur hjólið að góðum notum, já, eða einn af þeim fjölmörgu strætisvögnum sem stoppa í túnfætinum. 

Auðvitað getur verið þreytandi að stofuglugginn vísi út á umferðargötu en á móti kemur að svefnherbergi og eldhús snúa út í port sem íbúar við þrjár götur deila. Þar eru bílastæði, leikvöllur og körfuboltavöllur og portið er venjulega hið líflegasta, sérstaklega á góðum vor- og sumardögum.

En inn í þetta port kemur líka fólk í leit að skjóli. Fólk sem hefur ekki verið eins heppið og margt annað og hefur jafnvel ekki stað til að halla höfði sínu. Aldrei hef ég orðið fyrir minnsta ónæði frá þessum hópi, eða orðið vör við að annað fólk verði það, ef frá eru talin angurvær óp sem heyrast eina og eina nóttina með margra mánaða millibili, álíka oft og rifrildi góðborgara sem hafa fengið sér aðeins of mikið neðan í því.

Fyrir nokkru voru gerðar miklar endurbætur á strætisvagnastöðinni við Hlemm. Þá var tekin ákvörðun um að hætta að bjóða upp á salernisaðstöðu fyrir gesti og gangandi. Í staðinn var komið upp nokkurs konar sjálfsölum þar sem fólk getur borgað fyrir afnot af klósetti. Fyrir hinn almenna borgara skipti þetta kannski ekki miklu máli, nema þá vegna kortavæðingarinnar sem þýðir að það vantar kannski hundrað krónur í vasann á neyðarstundum. En breytingin kom sannarlega niður á þeim hópi fólks sem í gegnum tíðina hefur leitað skjóls við Hlemm. Og þegar fólk þarf að pissa, þarf það að pissa. Ef það kemst ekki á klósett á Hlemmi er lítið annað að gera en að leita í næsta skjól. Þá verður áðurnefnt port stundum fyrir valinu.

Ég hef svo sem ekki kippt mér upp við það þótt fréttist af stöku róna kasta af sér vatni í portinu enda reyna þeir örfáu sem ég hef haft spurnir af að láta sem minnst fyrir sér fara. Sjónin sem blasti við mér um daginn var þó öllu ófrýnilegri.

Í göngum sem liggja inn í portið og ég á leið um nær daglega hafði einhver ógæfusamur maður haft hægðir. Úrgangurinn lá ofan á ræsi og augljóst að viðkomandi hafði viljað skilja sem minnst eftir sig.

Þetta var harkaleg áminning um hvað neyð fólks sem ekki á í nein hús að venda getur verið mikil og þess vegna rifja ég þetta upp núna þegar málefni heimilislausra eru oft í fréttum vegna skorts á gistirýmum fyrir þennan hóp fólks.

Allir sem þekkja til málefna heimilislausra hafa fagnað mjög þeirri löngu tímabæru fyrirætlan borgaryfirvalda að koma á fót tveimur tíu manna heimilum fyrir heimilislausa. Hins vegar hafa heyrst kröftug mótmæli frá hluta nágranna mögulegs heimilis við Njálsgötu, þá einkum vegna barnanna í hverfinu og leikskóla sem er steinsnar frá umræddu húsi.

Án þess að vilja ætla nágrönnunum nokkuð illt sýnist mér andstaða þeirra vera byggð á miklum misskilningi, jafnvel fordómum í sumum tilvikum. Einhvern veginn virðist almennt talið að heimilislaust fólk sé hættulegra en annað fólk og að drukkið, heimilislaust fólk sé líklegra til voðaverka en annað drukkið fólk. Þá virðast margir halda að heimilislausir fíkniefnaneytendur séu mun hættulegri en aðrir fíkniefnaneytendur sem halda til í fínustu hverfum um allt land.

Misjafn sauður leynist að sjálfsögðu meðal heimilislausra en það sama á við um alla þjóðfélagshópa. Börnum stendur hins vegar mun meiri ógn af útúrdrukknu fólki á eigin heimili en af fyllibyttum á götum úti, enda eru fyllibytturnar oft svo slæmar til heilsunnar að þær gætu varla gert flugu mein, jafnvel þótt þær vildu.

Hvað nálægð við leikskóla varðar þá eru í fyrsta lagi hverfandi líkur á því að karlarnir sem leita skjóls á Njálsgötu sjái nokkra ástæðu til að angra leikskólabörn. Í öðru lagi starfar á þessum leikskóla, eins og öðrum leikskólum, fullorðið fólk sem ætti vel að vera fært um að takast á við slíkt ef upp kæmi.

Allir sem þekkja til þeirra athvarfa sem rekin eru fyrir þau okkar sem minnst mega sín vita að þangað sækja fæstir í leit að partíum. Þangað sækir fólk í neyð sem þarf mjög á hvíld að halda. Partíin eru annars staðar.

Hluti af því að búa í samfélagi er að þar er alls konar fólk, með alls konar breyskleika og misgóða heilsu. Sumir verða veikir, aðrir ekki. Sumir nota áfengi og lyf, aðrir leita af örvæntingu í ástarsamband eftir ástarsamband og enn aðrir borða alltof mikið súkkulaði. Sumir ná tökum á vandamálum sínum og finna bata. Aðrir ekki.

Það vaknar enginn upp einn daginn og ákveður að verða heimilislaus, og flestir í þeirri stöðu myndu aðspurðir eflaust segjast hafa óskað sér annars. Fólk sem er á götunni er fársjúkt, bæði andlega og líkamlega. Veikindi þess eru þó almennt ekki viðurkennd sem “alvöruveikindi” og þess vegna eru úrræðin fá. Í stað þess að vilja þennan veika hóp burt úr augsýn ættum við öll að leggjast á eitt við að fjölga úrræðunum.

Vandamálin skapast ekki þegar fólk hefur stað til að sofa á eða salerni til að hafa hægðir í. Salerni á Hlemmi og heimili við Njálsgötu eru lausnin, ekki vandamálið.