Viðhorf: Klæðaburður eða lífsviðhorf?

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 7. desember 2004

Klæðaburður eða lífsviðhorf?

Pönkið er bara ein tilraun af mörgum til þess að sýna fram á að reglunum verður viðhaldið ef við gerum það, annars ekki.

Engin fíkniefni fundust í fórum gesta á Stranglers-tónleikunum sl. laugardag en lögreglan mætti með leitarhund á svæðið. Aðeins er farið með leitarhunda á tónleika ef líkur eru á að tónleikagestir neyti fíkniefna. Það virðist því sem pönkið eigi ekki samleið með fíkniefnum. Þetta kom fram í Morgunblaðinu í gær og ekki lýgur Mogginn. Það væri hins vegar gaman að vita hvaða ástæður liggja til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um hvort þurfi leitarhund á tónleikum eða ekki.

Koma Stranglers til Íslands fyrir 26 árum markaði að margra mati upphaf pönksins hér á landi. Smám saman urðu til misgóðar hljómsveitir en aðalatriðið var ekki að syngja vel eða spila heldur einmitt að brjóta sem flest norm og pönka. Pönkinu fylgdi hugsjón um líf sem ekki þyrfti að stjórnast af fyrir fram ákveðnum stöðlum. Pönkarar merktu sig með sérstökum klæðaburði og allt snerist um að gefa skít í hina venjubundnu merkingu hlutanna.

Sjálf þekki ég pönktímabilið ekki af eigin raun enda var ég ófædd þegar Stranglers komu til landsins í fyrsta skipti. Í grunnskóla horfðum við á Rokk í Reykjavík en myndin átti að hafa einhvers konar forvarnargildi og ég man að ég ákvað að sniffa aldrei lím.

Ég var skíthrædd við pönkara og þótti hanakambar sérlega ógnandi. Ég vissi sem var að hár átti alls ekki að vera feitt eða hart og því síður í skærum litum. Ég tengdi pönk beint við útlit sem í mínum huga var ávísun á dóp og vitleysu. Seinna komst ég að því að pönk snýst hvað minnst um útlit en einmitt frekar um lífsstíl og lífsviðhorf.

Flestir hópar í samfélaginu nota föt og glingur til þess að merkja sig. Mikils metnir lögfræðingar mæta í kokkteilpartí í sínum gráu fötum og unga konan, sem gengur óvart í lit, er kannski ekki sérlega velkomin. Blaðamenn reyna að klæða sig „hlutlaust“ enda þykir hlutleysi mikil dyggð í þeirri stétt. Í fjármálaheiminum geturðu gleymt öllum þínum frama ef þú gengur ekki í jakkafötum eða sambærilegum klæðnaði hönnuðum fyrir konur sem reyna að taka þátt í leiknum.

Þetta snýst í raun ekki um klæðaburðinn heldur einmitt að skilgreina sinn hóp. Þess vegna er ekki nóg að setja upp hanakamb til þess að verða pönkari eða ganga í jakkafötum til þess að fá völd.

Ég sem áður óttaðist pönkara, og allt ofbeldið sem þeir myndu beita mig ef ég rækist á þá ein á ferð, hef nú gert mér grein fyrir að ég ætti miklu frekar að óttast hópa sem hafa meiri völd en ég. Það er nefnilega þannig að allt ljótasta ofbeldið, sem er til, tengist misbeitingu valds. Gildir þá einu hvort það er ofbeldi fullorðinna gegn börnum, karla gegn konum eða auðugra stórvelda gagnvart fátækari ríkjum sem minna mega sín.

Í samfélaginu höfum við ótal skráðar og óskráðar reglur til þess að þeir sem völdin hafa geti viðhaldið þeim. Skráðu reglurnar kallast lög. Eignarrétturinn er skilgreindur fram og aftur til að gæta þess að viðhalda valdapýramídanum. Fólk sem grípur til örþrifaráða í uppreisn sinni eða falli í ómannúðlegu samfélagi er sent í fangelsi þrátt fyrir að allir viti að þær stofnanir eru síst til þess fallnar að bæta nokkurn mann. Ríkisvaldið (sem endar ekki á orðinu vald fyrir tilviljun) fær peninga frá þegnunum til þess að geta ákveðið hvernig við eigum að haga lífi okkar. Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að fólk skuli greiða hluta af tekjum sínum í sjóð sem ætlað er að sjá til þess að allir geti dregið fram lífið. En við erum ansi langt frá því markmiði þegar þessi sjóður er nýttur í að halda úti rándýrum valdastofnunum (oft kallaðar ráðuneyti og sendiráð), splæsa í móttökur fyrir jakkafatahópa og taka þátt í hermannaleik þeirra stóru.

Þar sem lög og skráðar reglur viðhalda ekki öllu valdinu (t.d. eftir að konur fengu jafnan rétt skv. lögum) er restinni bjargað með alls kyns óskráðum reglum. Óskráðar reglur segja hvernig við eigum að hegða okkur. Viðurlögin við brotum eru lúmskari en engu að síður nógu hörð til þess að halda flestum okkar frá því að brjóta reglurnar.

Íhaldsöfl eru svo með stöðugan hræðsluáróður um að ef fólk samþykkir ekki vald sem leikfang fámenns hóps leysist allt upp í gríðarlegt kaos. Fólki er talin trú um að það geti ekki lifað án stjórnvalda því að án þeirra brytist allt út í ofbeldi og látum. Eins og við lifum við frið, ást og hamingju í dag. Hvað segið þið, nefndi einhver ofbeldi á Íslandi, já eða ástandið í Írak?

Þrátt fyrir að samfélagsskipanin, sem við búum við í dag, geri út á þætti eins og græðgi og völd er ekki þar með sagt að þeir þættir séu órjúfanlegur hluti af mannlegu eðli. Það er í raun stórkostlegt vanmat á manneskjunni að halda því fram að hún geti ekki lifað í sátt og samlyndi við sjálfa sig og annað fólk öðruvísi en að það liggi viðurlög við því að gera það ekki. Í samfélagi, sem byggist á keppni um völd, er hins vegar ekki furðulegt að ofbeldisglæpir, þjófnaðir, þunglyndi og geðsjúkdómar séu eins algengir og raun ber vitni.

Vald verður ekki afnumið með þrengri skilgreiningu á eignarrétti og fleiri lögum og reglum heldur einmitt með því að gefa fólki færi á andlegum, tilfinningalegum og líkamlegum þroska í samfélagi við annað fólk.

Pönkið er bara ein tilraun af mörgum til þess að sýna fram á að reglunum verður viðhaldið ef við gerum það, annars ekki.

Prev PostViðhorf: Jafnrétti um jólin II
Next PostViðhorf: Jól í Konukoti