Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 25. júlí 2006

Kaupin á eyrinni

Þegar við vinkonurnar vorum yngri en í dag fannst okkur ógurlega gaman að spila. Við gátum setið heilu dagana og spilað. Við spiluðum rommý, veiðimann, ólsen ólsen, ólsen ólsen upp og niður, svindl-ólsen og skítikall. Fyrsta rifrildið okkar varð yfir “hæ gosa” enda stundum erfitt að átta sig á hver var á undan að heilsa að hermannasið þegar kóngurinn kom upp eða hrópa “hæ gosi” þegar sjálfur gosinn lá á gólfinu. En ósættið varði ekki lengi og við fórum bara að horfa á Fyrirmyndarföður í staðinn.

Stundum spiluðum við líka Scrabble eða Fimbulfamb, jafnvel Trvial Pursuit eða Matador. Mér fannst einna skemmtilegast í Matador og eiginlega mesta furða að ég hafi ekki lagt fyrir mig einhvers konar fjármálabrask miðað við ótrúlegan áhuga minn á fimmþúsundköllum.

Ef reglurnar í spilunum hentuðu okkur ekki þá breyttum við þeim og fórum eigin leiðir. Bólurani varð t.d. að gildu orði í Fimbulfambi, aðallega vegna þess að það var fyndið og þá gat leikurinn haldið áfram. Keppnisandinn var með, kannski óþarflega mikill hjá mér stundum, en mestu máli skipti að hafa sem mest gaman af spilinu. Okkar Matador-reglur leyfðu lán félaga í milli til að spilið væri ekki búið of snemma, þótt það hefði kannski þegar staðið í fjórar stundir.

Seinna lenti ég í mestu vandræðum með að spila Matador við Dani enda höfðu þeir allt aðrar hugmyndir en ég um framgang leiksins. Þeim fannst t.d. ekki eðlilegt að grípa teningana með hraði og kasta til að koma í veg fyrir sekt á Austurstræti eða Lækjargötu eða hrópa alltaf hátt “kaup’ana” (á íslensku auðvitað) til að koma í veg fyrir að andstæðingurinn næði að kasta áður en yfirlýsing væri komin um kaup.

Það er eiginlega frumskilyrði í spilamennsku að fólk sé sammála um reglurnar.

Ég veit ekki hvort George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Breta, hafa einhvern tíma spilað hæ gosa. Þeir hafa þá alla vega klárað hæ gosa-ósættið sitt því þeir virtust hinir mestu mátar í kvöldverðarboði í Pétursborg á dögunum en þeir voru staddir þar vegna fundar leiðtoga valdamestu ríkja heims.
Blair trítlaði til Bush sem var með fullan munninn af brauði og sagði: “Jó Blair, hvernig hefurðu það? ”

Bush og Blair áttuðu sig ekki á að kveikt var á hljóðnema við borðið og samtalið náðist á band. (Reyndar finnst mér mjög skemmtileg sú kenning að Blair hafi vitað af hljóðnemanum en það er líklega bara vegna þess að ég er afskaplega hrifin af samsæriskenningum yfirleitt…).

Bush þakkaði Blair fyrir peysu sem hann hafði fengið að gjöf og þeir göntuðust með að Blair hefði keypt hana sjálfur, jafnvel prjónað hana. Svo ræddu þeir næsta leik í sínu spili þar sem spilaborðið er aðeins stærra en í gamla Matadorinu hennar ömmu.

“Hvað um Kofi? Hann virðist í lagi. Mér líst ekkert á þetta vopnahlésplan hans. Allt sem hann hefur að segja er vopnahlé og að allt leysist…” sagði Bush og vísaði til kröfu Kofis Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um vopnahlé í Líbanon.

Blair stóð við borð Bush sem hætti auðvitað ekki að matast meðan þeir ræddu ástand heimsmálanna á líðandi stund. Bush sagði að “Condi”, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, færi til Líbanon fljótlega (sem hún og gerði) en Blair virtist tilbúinn að fara þangað sjálfur ef því væri að skipta.

Blair: Það er bara, ég meina, þú veist. Ef hún hefur…, eða þyrfti á því að halda að jarðvegurinn yrði undirbúinn aðeins…Ef hún fer verður hún augljóslega að ná árangri. Ég gæti aftur á móti alveg farið þangað og talað bara.

Bush: Sjáðu til, það kaldhæðnislega er að allt sem þeir þurfa að gera er að fá Sýrland til að fá Hezbollah til að hætta þessu rugli og þá er þetta búið.

Bush orðaði þetta á sínu eigin tungumáli sem “stop doing this shit”. Ekki er vitað hverjir þessir “þeir” eru en uppi eru getgátur um að Bush hafi þarna verið að vísa til Rússa.

“Sjáðu til, hvað heldur hann? Hann heldur að ef allt gengur upp í Líbanon, ef lausn finnst á Ísrael-Palestínu, þá fari Írak á rétta braut,” sagði Blair um Kofi Annan. Þar sem upptakan er óskýr ber netmiðlum ekki saman um hvort Bush hafi í framhaldinu sagt Annan vera indælan (sweet) eða sagt hann vera að basla (struggling). Mér heyrist hið síðarnefnda þó hafa átt við sem og að Blair hafi ekki kallað Annan “elsku” (honey).

Einhverra hluta vegna minnir þessi undarlega sena mig á þegar við vinkonurnar spiluðum Matador og beygðum reglurnar eftir okkar vilja. Munurinn er kannski sá að við vorum að kaupa og selja helstu götur Reykjavíkur fyrir pappírspeninga en á meðan Bush talar með fullan munninn við Blair í Pétursborg er verið að bombardera fólk í Líbanon.

Og um hvað eru þeir að tala?

Mynd framan á The Australian, fimmtudag 20. júlí: Þrjár stelpur á að giska 12 ára með skriðdreka í baksýn. Ein er að skrifa á sprengju sem stendur til að varpa á svæði í suðurhluta Líbanon. “To Hezbollah, with love”. Önnur fylgist með og sú þriðja heldur á myndavél.

Mynd fyrir neðan: Lítill strákur á sjúkrahúsi, með sársaukagrettu á andlitinu, sáraumbúðir og allur í skrámum. Heldur utan um leikfangariffil sem hann hafði fengið í batagjöf. Hver þarf bangsa?