Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 4. janúar 2005

Jól í Konukoti

Hún sagðist heita Ólafía og fór að gráta þegar ég talaði hlýlega við hana. Ég sá hana fyrst við Hlemm. Það var aðfangadagur og frekar kalt úti. Búðirnar lokaðar og örfáir á ferli. Hún staulaðist framhjá mér með tóm, fljótandi augu. Eins og vanalega ætlaði ég aðhorfa í aðra átt og drífa mig heim. En ég staldraði við og minnti mig á eigin orð um hvað heimurinn gæti verið góður ef við hjálpuðum hvert öðru. 

Ég fylgdist með henni fara upp í strætisvagn og horfði á bílstjórann ýta henni út. Ég spurði hana hvert hún vildi fara. Hún var töff. Blótaði bílstjóranum fyrir að hafa fleygt sér út og sagðist ætla niður á Austurvöll. Ég sagði henni frá Konukoti. Þar væri hlýtt, hrein rúm og nóg af öllu. Neðri vörin á henni byrjaði að titra.

Bíllinn var aðeins steinsnar frá Hlemmi en það tók okkur langan tíma að staulast þangað. Hún var máttfarin og ískyggilega grönn. Litlar vindhviður voru sem stormur.

Ég hafði aldrei komið í Konukot. Vissi bara að það ætti að vera opið allan sólarhringinn yfir hátíðirnar. Konukot var stofnað fyrir tæpum mánuði. Reykjavíkurborg útvegaði húsnæði en Rauði krossinn sér um reksturinn.

Talið er að um hundrað manns séu heimilislausir hér á landi, þar af um fjórðungur konur. Þarna er átt við fólk sem er algjörlega “á götunni”, þ.e. á sér ekki fastan samastað. Að undanskildu Konukoti er aðeins eitt gistiskýli fyrir heimilislausa í Reykjavík. Þar eru fimmtán pláss en þau eru sjaldnast fullnýtt enda segja þeir sem til þekkja að skilyrði fyrir gistiplássi sé að vera allsgáður. Með opnun Konukots var í fyrsta skipti komið til móts við heimilislausar konur.

Þegar við nálguðumst Konukot varð ég óneitanlega stressuð. Hvað ef það mætti ekki koma drukkin þangað inn? Hvert gæti ég þá snúið mér?

Ótti minn var ástæðulaus. Móttökurnar í Konukoti hefðu vart getað verið hlýlegri. Þar var sjálfboðaliði á vakt sem þekkti lífið á götunni af eigin raun. Ég komst ekki hjá því að hugsa til þess að Kennaraháskólaprófið mitt, reynsla af leiðtogastörfum og ritun pistla sem þessa voru einskis virði þarna inni. Ég var gersamlega vanmáttug gagnvart aðstæðum þessarar konu en sjálfboðaliðinn sem skildi hvernig henni leið sýndi mér að umhyggja er stundum allt sem þarf.

Ég komst að því að Ólafía var ekki hennar rétta nafn. Hún var ýmist hlæjandi eða grátandi, í hlutverki lítils barns, feiminnar unglingsstelpu eða reiðrar konu. Ég kunni ekki annað ráð en að eyða tali um dauðann og reyna að líta á spaugilegu hliðarnar á lífinu sem leikur okkur svo misgrátt. Hún skalf og titraði af reiði þegar hún í sundurlausu máli sagði okkur frá aðfaranótt aðfangadags í fangageymslu lögreglunnar. “Það kom enginn þegar ég hringdi bjöllunni. Ég þurfti að pissa á gólfið,” sagði hún og grét og blótaði konunni sem var á vakt.

Ég velti því fyrir mér hvernig það er að vera lokuð inni. Niðurlægingunni að fá ekki að fara á klósettið og þessu undarlega stolti sem kom upp þegar hún hafnaði því að fara í Konukot.

Ég taldi mér trú um að tímaskyn hennar hefði ábyggilega verið brenglað og að eilífðin sem hún upplifði áður en bjöllunni var svarað hefði í raun verið tíu mínútur. En tvær aðrar konur höfðu sömu sögu að segja, báðar edrú. Ég mundi allt í einu eftir ættingja mínum sem hafði gist í fangageymslu og pissað í buxurnar því hann komst ekki á klósettið. Ég hélt alltaf að það væri lygi.

Þær sögðu mér frá lyftunni á Hverfisgötunni sem fólki hefði verið misþyrmt í. Nauðgun og brotnum hnéskeljum. Mér fannst eiginlega verst að ég hafði heyrt um þessa lyftu áður. Lögreglumaður átti að hafa sagt hreykinn frá því þegar róni meig í sig af hræðslu inni í lyftunni.

Konurnar sögðu mér samt að þetta væru aðeins svörtu sauðirnir innan lögreglunnar. Þeir stoppuðu vanalega stutt við. “Þetta eru þessir rambóar sem finnst þeir vera valdamiklir en alls ekki gamla góða lögreglan. Hún reynist okkur yfirleitt vel.”

Eftir því sem leið á aðfangadag fór ég að skilja betur aðstæður þessara kvenna. Ótti þeirra við mitt líf er jafnmikill og ótti minn við þeirra líf. Sumir kalla heimilisleysingja aumingja en ég sannfærðist um að það þarf jaxla til þess að lifa af á götunni. Staða kvenna er sérlega slæm. “Við erum bara gjaldmiðill. “Ef ég fæ 30 grömm af spítti hjá þér mátt þú hafa þessa konu í eina viku. Gefðu henni bara bjór og þá er hún ánægð,”" sagði ein. Það þarf enginn að segja mér hvernig þessar konur verða sér úti um næturstað.
Sem stendur er Konukot aðeins opið yfir nóttina. Það er merkilegt að velferðarþjóðfélagið skuli ekki geta gert betur en það. Engan sérfræðing þarf til að átta sig á hvert konurnar fara að morgni. Barinn er a.m.k. húsaskjól.

Starfsemi Konukots á eflaust eftir að breytast á næstu mánuðum og árum. Fólk þarf tíma til þess að læra að treysta nýrri starfsemi. Það er mikill fengur í að hafa til staðar fólk sem þekkir þennan heim af eigin raun en hefur komið undir sig fótunum.

Virðing fyrir manneskjunni skiptir sköpum sem og skilningur á eðli heimilisleysis, geðsjúkdóma, fíknar, ofbeldis, vændis og kynferðisofbeldis.

Við hin getum svo tekið okkur sjálf í gegn og spurt hver viðhorf okkar eru til þeirra sem minnst mega sín.