Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 24. nóvember 2004

Jafnrétti um jólin

Elsku Giljagaur. 

Þú hefur verið uppáhaldsjólasveinninn minn frá því að ég var níu ára. Þá skrifaði ég þér bréf og spurði hvort þú gætir gefið mér snúsnú-band í skóinn. Þú svaraðir mér ósköp fallega og sagðir mér að bíða um sinn því þú værir ekki með neitt snúsnú-band með þér. Stuttu síðar eignaðist ég snúsnú-band og mig grunar að þú hafir komið eitthvað að málum. Vegna þessarar góðu reynslu ákvað ég að skrifa þér þetta bréf. Fyrst var ég að hugsa um að biðja til guðs en var svo hrædd um að guð myndi beita fyrir sig þessu ákvæði að við mannfólkið höfum frjálsan vilja. 

Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Ég er svo andlaus og þreytt. Þetta byrjaði allt fyrir nokkrum árum. Þá fór ég að taka eftir alls konar undarlegum hlutum. Í menntaskóla tók ég svo sem ekki eftir neinu, nema kannski eftir á að hyggja. Ég man samt að einu sinni bauð ég mig fram í einhverja nefnd. Við vorum þrjár stelpur en mótframboðið var þrír strákar. Þeir unnu og engin okkar komst inn. Samt fannst mér við miklu hæfari en kannski fannst þeim það sama. Þá læddist að mér þessi grunur að kannski væri það af því að við vorum stelpur en ekki þeir. Ég sagði það samt aldrei upphátt því þá hefði einhver getað haldið að ég væri að reyna að vera eitthvað. Stelpur eiga ekki að vilja vera eitthvað. 

Með tímanum óx þessi tilfinning að sumt væri eins og það var af því að ég er stelpa. Og núna er ég orðin þreytt á öllu þessu rugli. Ég er orðin þreytt á því að þegar ég geri mistök í starfi eða tómstundum þá klúðri ég málum fyrir kvenþjóðina eins og hún leggur sig. Er þetta kannski eins hjá þér? Ef þú klúðrar einhverju heldur fólk þá að jólasveinar séu gersamlega vanhæfir? Kannski lendir þú líka í því að einhver fjölmiðill vill fá þig til að tjá þig um eitthvað sem þú veist lítið um og ef þú vilt það ekki er sagt að það sé alltaf sama sagan með jólasveina, þeir vilji ekki tala í fjölmiðlum. Ég er orðin svo þreytt á að vera alltaf skilgreind sem hópur.

Nú er kannski kominn tími á að ég beri upp ósk mína. Elsku Giljagaur, það eina sem mig langar í um jólin er jafnrétti. Ég er orðin leið á að búa í samfélagi sem er mótað í kringum lítinn en ótrúlega valdamikinn hóp karla. Ég er orðin leið á að vera frávik frá norminu.

Undanfarin ár hef ég trúað því að ég geti breytt einhverju um málið. Ég hef beitt ótal aðferðum. Ég hef talað, skrifað, mótmælt, kvartað, rifist og reynt að gerast fullgildur meðlimur í kapítalísku samfélagi með því að skipta ekki við fyrirtæki sem ýta undir fyrirlitningu gagnvart konum. Ég er kannski óþolinmóð en mér finnst einhvern veginn ekkert breytast. Kannski finn ég ekki réttu leiðina en mér finnst ég hafa reynt allt.

Um daginn hitti ég vin minn á bar. Við vorum að spjalla um femínisma þegar hann spurði mig hvort ég vissi af hverju konur eru í þessari stöðu sem þær eru. Ég var sein til svars og þá sagði hann: “Að minnsta kosti helmingur þeirra kvenna sem ég hef kynnst hefur verið misnotaður kynferðislega.” Hann sagði það hreint út sem ég hef svo lengi vitað en óttast að horfast í augu við. Í kringum mig er hlutfallið svipað og hann talar um. Á markvissan hátt er konum haldið niðri. Oftar en einu sinni hef ég lent í því að hitta eða sjá menn sem ég veit að hafa nauðgað. Þeir eru að drekka bjór á barnum eða kaupa sér ís í Kringlunni. Ég er orðin leið á að finna hnén lamast, æðarnar þrútna og hjartað fara á fullt.

Kæri Giljagaur. Ég er orðin þreytt á að konur þurfi stöðugt að búa við þann ótta að verða nauðgað. Ég gerði þessa baráttu að minni með það fyrir augum að aukin fræðsla hjálpi fórnarlömbum að leita sér hjálpar og beini um leið sjónum að ofbeldismönnunum sem eru svo óhugnanlega margir. Samt má aldrei minnast á þessa ofbeldismenn því um leið og það er gert verður fólk öskureitt. Það er hægt að samþykkja að skuggalega mörgum konum sé nauðgað og börn beitt ofbeldi en að ofbeldismennirnir séu líka rosalega margir, það má ekki tala um. Samfélagið er nokkurn veginn sammála um að kynferðislegt ofbeldi eigi ekki að líðast og ég hélt því að baráttan yrði auðveld. En ég er að berjast við ósýnileg öfl. Öfl sem sannfæra okkur um að í nauðgunarmálum skipti máli hvort konan hafi drukkið, stundað kynlíf með einhverjum sama kvöld (eins og kynlíf og nauðgun sé nokkurn veginn það sama), farið heim með nauðgaranum eða bara yfirleitt þekkt hann. Þessi atriði skipta líka máli fyrir hinu meinta réttarkerfi. Ég segi þér það satt Giljagaur að mér finnst minn réttur aldrei skipta máli fyrir rétti.

Á örfáum mánuðum hafa tvær konur verið drepnar hér á Íslandi. Önnur af maka en hin af fyrrverandi maka. Ísland er ekki stórt land. Mér finnst svo skrýtið að það séu meiri líkur á að ég verði beitt ofbeldi af maka en að ég lendi í umferðarslysi. Ég get haldið endalaust áfram. En elsku Giljagaur. Það sem sjokkerar mig mest er að það er sama hvað ég tala og skrifa það virðist ekkert breytast. Ég er orðin þreytt á að tala alltaf við sama fólkið. Fólkið sem veit þetta allt saman. Ég er orðin þreytt á að sækja fundi um jafnrétti kynjanna þar sem mikill meirihluti fundargesta er konur.

Elsku Giljagaur. Ég veit ekki hvað ég á til bragðs að taka. Þess vegna leita ég til þín. Ég er tilbúin að skila snúsnú-bandinu, ef ég bara fæ jafnrétti.

Þín einlæg, Halla.