Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 30. nóvember 2004

Jafnrétti um jólin II

Kæra Grýla. 

Ég skrifa þér þetta bréf af því að ég veit að þú ert mamma jólasveinanna. Um daginn skrifaði ég nefnilega bréf til Giljagaurs þar sem ég óskaði eftir jafnrétti í jólagjöf.

Ástæðan fyrir því að ég valdi Giljagaur er sú að síðast þegar ég bar upp ósk við hann um að eignast snúsnúband rættist hún. Mér hefur ekki borist svar frá Giljagaur en hins vegar svaraði mér maður í gær, mánudag. Hann hélt því fram að jólasveinar væru ekki til. Ekki veit ég hvaðan hann hefur þá vitneskju en kannski veit hann meira en við hin um jólasveina, álfa, geimverur og jafnvel guð. Það skrýtnasta er að hann vildi samt fá að þykjast vera Giljagaur. Þessi maður virðist hafa áhyggjur af geðheilsu minni. Það er kannski skiljanlegt miðað við allt sem ég benti á í bréfinu til Giljagaurs. Þar sagði ég meðal annars frá því að oftar en einu sinni hef ég lent í því að hitta eða sjá menn sem ég veit að hafa nauðgað. Ástæðan fyrir því að ég veit það er sú að ég þekki fórnarlömbin. Ég hef horft á þau gráta. Í framhaldinu lýsti ég líkamlegum afleiðingum þessarar óstjórnlegu reiði sem grípur mig við að sjá þessa menn. Einhverra hluta vegna hélt “Giljagaur” að mér liði svona illa af ótta við að mennirnir myndu nauðga mér en það kemur hvergi fram í mínu bréfi. Hann heldur því líka fram að ég lifi í stöðugum ótta við að verða nauðgað. Ég þykist nú reyndar ekki kannast við að ótti stjórni mínu lífi á einn eða annan hátt en ég skal alveg viðurkenna að ég verð stundum fjári reið.

Ég var nefnilega ekkert að grínast í bréfinu mínu til Giljagaurs þegar ég sagði að u.þ.b. önnur hver kona í kringum mig hefði verið misnotuð kynferðislega. (Nú get ég einungis fullyrt um þær konur sem ég hef svo gott samband við að við ræðum þessi mál.) Ég vonaðist að sjálfsögðu til að þetta væri undantekning þangað til um daginn að kunningi minn tjáði mér að hlutfallið væri það sama í kringum hann. Það er ansi hátt hlutfall og ætti að svara spurningu “Giljagaurs” um líkurnar á því að mér eða annarri konu verði eða hafi verið nauðgað.

“Giljagaur” segist líka þreyttur á flestu sem byrjar á kvenna og endar t.d. á -guð, -hlaup og -framboð og kallar málflutning kvenna kvennaáróður. Ég held, Grýla, að hann geri sér ekki grein fyrir að forskeytið “karla” er aldrei notað fyrir framan allt sem tilheyrir körlum. Ég sit nefnilega undir stöðugum áróðri en einhvers staðar í ferlinu gleymdist að skeyta “karla” fyrir framan hann. Ég segi það sama við þig og ég sagði í bréfinu mínu til hins sanna Giljagaurs að ég er orðin leið á að vera frávik frá norminu. 

Kæra Grýla. Um daginn var maður fundinn sekur um að hafa beitt konuna sína ofbeldi. Reyndar er það skuggalega algengt hér á Íslandi sem og annars staðar að eiginmenn beiti konurnar sínar ofbeldi en það fer sjaldnast fyrir dóm. Í þessu tilviki ákvað dómarinn að hafa dóminn skilorðsbundinn með vísun í það að konan hefði skapraunað manninum. Ég held að það sé þetta mál sem “Giljagaur” skrifar um og hneykslast á því að fólk hafi mótmælt dóminum. Ég verð samt að vera sammála “Giljagaur” í því að það er erfitt að mynda sér marktæka skoðun ef maður þekkir ekki málavöxtu. En ég held það sé ekkert erfitt að mynda sér skoðun á dómi. Það var nefnilega dómurinn sem gerði fólk reitt enda hefði enginn vitað af ofbeldinu ef ekki væri fyrir dóminn.

Í bréfinu vísar “Giljagaur” í ritgerð um ástæður nauðgana. Hann segir að höfundur hafi stundað nám við heimspekideild Háskóla Íslands og segir í framhaldinu að BA-ritgerðir séu sjaldan merkileg plögg. Ég þykist nokkuð viss um að hann sé að vísa til meistararitgerðar Guðrúnar Guðmundsdóttur um af hverju karlar nauðga. Ritgerðin er reyndar úr félagsvísindadeild, nánar tiltekið mannfræði. Ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hversu marktæk skoðun “Giljagaurs” er á “BA-ritgerðum” til meistaraprófs ef hann þekkir ekki málavöxtu betur en þetta.

“Giljagaur” talar um að ég eigi að hugsa jákvætt. Ég held ég sé reyndar yfirleitt frekar jákvæð en ég get ómögulega séð að það sé eitthvað jákvætt við kynjamisrétti og nauðganir.

En veistu, Grýla, að það sem ég held að raunverulega valdi þessum óróa hjá “Giljagaur” er að ég bendi á að langflestir ofbeldismenn eru karlar og þessi tilhneiging mín til að tala um ofbeldi karla gegn konum sem já, ofbeldi karla gegn konum. Einu sinni þegar ég var yngri, um svipað leyti og ég eignaðist snúsnúbandið, þá lærði ég að þótt allir þorskar séu fiskar er ekki þar með sagt að allir fiskar séu þorskar. Ég held að þetta eigi mjög vel við í þessari umræðu.

Eflaust á ég heima í þeim hópi sem “Giljagaur” kallar svekktar konur. Og kæra Grýla, ég verð að játa að ég er svekkt. Ég er svekkt yfir öllu því misrétti sem ég og kynsystur mínar stöndum frammi fyrir daglega. Og ég er svekkt yfir því að þegar ég bendi á það rís einhver karl upp og reynir að gera mig ómerka orða minna með yfirlýsingum um geðheilsu mína. Ég er svekkt yfir að þessi sami karl geri lítið úr málflutningi allra kvenna og að hann líki reiði minni yfir því hversu algengar nauðganir eru við meintan ótta Bandaríkjamanna við allt sem er óþekkt.

Kæra Grýla, ég býst ekkert endilega við svari frá þér en þú getur kannski hnippt í hinn sanna Giljagaur og bent honum á þessa umræðu sem á sér stað hér í mannheimum. 

Þín einlæg, Halla.