Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 18. september 2004

Í sátt við náttúruna

Taman Negara. Ég fyllist alltaf lotningu þegar ég segi þetta nafn.

Taman Negara er þjóðgarður í Malasíu. Ekki nóg með það heldur er um að ræða elsta regnskóg heims. Þjóðgarðurinn sjálfur er í kringum 4000 km², frumskógurinn er þéttur og um hann rennur kröftug á. Stígarnir í skóginum breytast reglulega eftir því hvaða leið dýrin ganga. Árið 1993 týndist bandarísk kona í skóginum og hefur enn ekki fundist.

Taman Negara er staður sem ég gleymi seint. Ekki nóg með að ég hafi þurft að horfast í augu við eigin fordóma gagnvart múslímum og hafi gert mér grein fyrir að skordýr eru ekki bara skordýr og leðurblökur leðurblökur heldur lærði ég líka um kraft náttúrunnar. Hver er ég andspænis elsta regnskógi heims?

Vinur okkar Basri Basir, eða Bas eins og hann var vanalega kallaður, leiðbeindi okkur um skóginn en sjálfur er hann fæddur og uppalinn í einu þorpanna í nágrenni þjóðgarðsins. Utan við skóginn vorum við Bas félagar. Við spjölluðum, spiluðum á gítar, hlógum og nutum þess að vera til. Inni í skóginum var víst að ég hefði ekki lifað af án þess að hafa Bas með í för.

Einn daginn í skóginum fékk ég mikinn magaverk og um leið fannst mér eins og steini hefði verið komið fyrir í þvagrásinni. Ég varð taugaveikluð mjög enda vön predikunum um hættulega sjúkdóma sem vanalega enda með dauða og svo ég tali nú ekki um ef sjúklingurinn er að þvælast í einhverjum frumskógi í fjarlægu landi þar sem hvítir læknar eru fjarri góðu gamni.

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrr um daginn hafði ég losað þvag í litla á og tilhugsunin um blóðsugu á óþægilegum stað eða eitthvað þaðan af verra fékk mig til að svitna. Ég var kvalin í svolítinn tíma og taugaveiklunin var síst til þess fallin að draga úr verkjunum. Þetta leið þó fljótt hjá og um kvöldið var ég búin að gleyma þessum skrýtna verk.

Við lágum í svefnpokum undir stjörnubjörtum himni og ég einbeitti mér að því að hugsa ekki um kakkalakkann sem var á dýnunni rétt áðan eða leðurblökurnar sem sveimuðu við hellisopið. Annars hugar bað ég Bas um að segja okkur einhverja góða sögu úr frumskóginum fyrir svefninn.

Sagan hans var eitthvað á þessa leið: “Þegar ég var nýbyrjaður að vera leiðsögumaður fór ég með hóp af Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum í frumskóginn. Það var dálítið langt síðan ég hafði komið í skóginn og svo fór að ég villtist og gekk með þau í marga hringi áður en ég fann næturstað okkar. Ég var orðinn mjög hræddur og stressaður. Þegar við loksins komum á staðinn var ég glorhungraður og borðaði alltof hratt og mikið. Um kvöldið fékk ég slæman magaverk og endaði með að fara niður í ána og gera þarfir mínar þar. Mér leið betur um stund en daginn eftir fékk ég rosalegan magakrampa. Ég var kengboginn á leiðinni til baka. Þegar ég kom heim lá ég fyrir í heila viku og var mjög kvalinn. Móðir mín, sem er náttúrulæknir, valdi jurtir úr skóginum, lagði yfir þær vatn úr ánni og las upp úr Kóraninum. Í vatninu sá hún spegilmynd mína þar sem ég var í ánni að gera þarfir mínar. Hún spurði mig út í það og varð reið þegar hún komst að því að ég hafði notast við ána án þess að biðja náttúruna um leyfi. “Ef þú ferð inn í hús hjá fólki þá biður þú um leyfi áður en þú notar kamarinn eða klósettið. Að sama skapi verður þú að biðja náttúruna um leyfi áður en þú nýtir hana á einhvern hátt,” sagði hún. Að því loknu gaf hún mér jurtir og bað fyrir mér og daginn eftir var ég stálsleginn.”

Bas kunni fullt af sögum af fólki sem náttúran hafði refsað fyrir vanvirðingu. Sögurnar voru þó ekki nóg til þess að fá mig til þess að breyta hegðun minni í náttúrunni. Það var miklu frekar tilfinningin inni í skóginum. Ég fann kraftinn sem bjó þarna og fylltist vanmætti yfir eigin smæð. Sama tilfinning og ég fæ þegar ég horfi á hafið.

Eftir þetta spurði ég náttúruna um leyfi fyrir öllu mögulegu og ómögulegu. Ég bað trén afsökunar ef ég braut grein og þakkaði þeim fyrir að skjóta rótum sínum í brekkur svo það auðveldaði mér að ganga upp þær. Það hvarflaði ekki að mér að henda rusli annars staðar en í ruslafötur og ekki dró ég orð Bas í efa þegar hann sagði okkur að allar jurtir í skóginum hefðu einhvern tilgang, annaðhvort væru þær eitraðar eða með lækningamátt. Ég sannfærðist endanlega þegar við hittum fyrir hóp veiðimanna og safnara. Hópurinn lifir í skóginum og notar eingöngu afurðir náttúrunnar. Þar eru engir læknar með hátíðleg háskólapróf og apótek eru víðs fjarri. Samt sem áður deyr fólk vanalega úr elli en ekki einhverjum hrikalegum sjúkdómum. Það er reyndar mjög heppilegt í ljósi þess að hópurinn þarf að flytja sig um set þegar einhver deyr.

Ég hef aldrei litið á mig sem eitthvert náttúrubarn en náttúran kenndi mér að bera virðingu fyrir sér. Ég finn ekki hjá mér þörf til þess að beisla náttúruna eða beygja hana á einhvern hátt undir minn vilja. Mig langar ekki að drepa þúsundir dýrategunda til þess að ég geti fengið hitt eða þetta. Ég er hins vegar tilbúin að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna og nýta auðlindir hennar án þess að þurrausa allt sem ég kemst í.

Ég leitaði ef til vill langt yfir skammt með því að fara til Malasíu til þess að skilja það. Hvað segið þið? Kárahnjúkar?

En þetta er nú bara viðhorf…