Viðhorf: Í dag er ég kona

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 14. júlí 2004

Í dag er ég kona

Þetta byrjaði eflaust allt á fæðingardeildinni þegar ég var færð í bleik föt. Þarna var kominn nýr þjóðfélagsþegn og þessi þjóðfélagsþegn skyldi verða kona. Það var eflaust augljóst en samt er eitthvað svo miklu meira fólgið í því að vera kona en að vera með píku. Eftir á að hyggja byrjuðu vandræðin ekki fyrr en ég varð tveggja ára. Kannski var mamma með eitthvert mikilmennskubrjálæði eftir að hafa farið ólétt að kjósa Vigdísi Finnbogadóttur til forseta. Ákvörðun hennar var alla vega afdrifarík. Hún gaf mér nefnilega bíl í afmælisgjöf. Þessi plastvörubíll varð fljótt eftirlætis leikfangið mitt (að undanskildum bangsanum Óla en þessi pistill er síst ritaður til að móðga hann).

Mamma hefði eflaust betur hlustað á fólkið sem sagði henni að bíll væri ekki hentugt leikfang fyrir litlar stelpur því vandinn óx með árunum. Ég þróaði með mér óþrjótandi áhuga á hímendúkkum og leikfangagröfum. Ég var treg til að ganga í kjól eða pilsi en undi mér vel við að spila fótbolta og klifra. Ekki nóg með það heldur var ég hávær og talaði óhóflega mikið. Allt varð þetta til þess að ég neyddist til að horfast í augu við blákalda staðreynd: Ég var ekki kvenleg. Ég veit ekki hvað ég var gömul þegar það rann upp fyrir mér að stelpur yrðu konur en strákar karlar. Það var alla vega dagurinn sem baráttan hófst. Ég skyldi verða kona. Ég þurfti að sjálfsögðu fyrst að komast að því hvað konur gera. Ég ákvað fljótt að verða hjúkrunarkona enda gerði titillinn mig sjálfkrafa að konu. Fyrsta skrefið var að klæða mig upp sem slík á grímuballi. Það fór ekki eins vel og ég óskaði. Mig klæjaði undan sokkabuxunum og þótti óþægilegt að vera ekki í buxum. En ég dó ekki ráðalaus. Ég fann út að konum þætti gaman að versla. Eftir nokkrar þrætur við móður mína fékk ég leyfi til að fara með vinkonu minni með strætó í bæinn. Ég gekk kotroskin inn í Kringluna en hafði vitanlega enga eirð í mér til þess að hanga inni í mannmergðinni í þessari verslunarmiðstöð sem var eitt merkasta menningarskref Íslendinga. Stærsti lærdómurinn sem ég dró af ferðinni var að þegar taka skal strætó til baka er heillavænlegra að stilla sér ekki upp sömu megin við götuna og stigið var út úr honum. Ég var hins vegar engu meiri kona fyrir vikið.

Tólf ára gömul byrjaði ég á túr. Þá varð ekki aftur snúið. Ég yrði kona, hvort sem mér líkaði betur eða verr. Þessu „ástandi“ fylgdi að sjálfsögðu mikil skömm enda ekki úr vegi að skammast sín, a.m.k. einu sinni í mánuði, fyrir að vera kona. Þrátt fyrir forréttindin að losna við skólasund var ég mjög ósátt þegar ég á unglingsárunum fór að hafa blæðingar tvisvar í mánuði. Mamma fór með mig til læknis og hann setti mig, þrettán ára gamla, á pilluna.

Dag einn tók ég svo eftir að ég var komin með hár undir hendurnar. Engin kona má hafa slík hár. Nema hún sé sveittur túristi, helst franskur eða þýskur. Eftir að hafa falið handarkrikana vel í sundferðum spurði ég mömmu hikandi hvernig ég gæti fjarlægt þessi hár.

Seinna uppgötvaði ég að augabrúnir eru mikið lýti á konum. Þ.e.a.s. ef þær eru venjulegar. Hikandi gekk ég inn á snyrtistofu og bað um litun og plokkun. Mig langaði að öskra af sársauka en ég vissi að það gera konur ekki svo ég brosti bara og sagði spekingslega: „Beauty is pain.“ Og mikið agalega var ég falleg með rakaða handarkrika og eldrauð undir augabrúnunum. Sextán ára gömul var ég alltof feit, að því er mér fannst. Það hafði ég verið alveg frá því að ég hætti að passa í Levi’s-buxurnar sem ég átti þegar ég var tólf ára. Auðvitað fáránlegt að passa ekki alla ævi í þær. Vesen að vera með mjaðmir. Eftir enn meira tíðahringsrugl var ákveðið að ég skyldi skipta um pillu. Ég skrapp saman í andlitinu. Það kom í ljós að í þrjú ár hafði ég japlað á hormónum, samkvæmt læknisráði, sem komu út í miklum bjúg. Ég komst samt aldrei aftur í Levi’s-buxurnar.

Dag einn fann ég lausn á stærsta vandanum. Ég yrði bara kennari. Kennarar mega vera af báðum kynjum en samt best ef þeir eru konur. Ég þekkti líka kennara sem voru dálítið töff og gat vel hugsað mér að vera þannig kona. Á menntaskólaárunum fékk ég enn betri hugmynd. Ég ákvað að verða ekki kona. Einföld rökhugsun færði mér þann sannleika að stelpur mega gera allt sem er skemmtilegt á meðan konur þurfa að hamast við að vera konur. Ef ég yrði alltaf stelpa mætti ég vel vera með læti, sprella, spila fótbolta og þyrfti ekki endilega að hugsa stöðugt um barneignir og brúðkaup.

Tuttugu og einu ári eftir að mamma gaf mér bílinn er þessari baráttu minni lokið og ég neyðist til að spyrja: Hver er ég í dag? Jú, ég er tuttugu og þriggja ára með svarta brodda á löppunum, misvel snyrtar augabrúnir og rakaða handarkrika. Ég hætti á pillunni í fyrra eftir að hafa verið á henni í níu ár án þess að hafa hugmynd um hvað hún gerir við líkama minn. Ég kann ekki ennþá á tíðahringinn og verð alltaf jafnhissa þegar ég byrja á túr. Ég er kennari að mennt og spila fótbolta í hádeginu. Mér þykja vörubílar ekki skemmtilegir lengur en ef ég kæmist í gröfu myndi ég ábyggilega skemmta mér konunglega. Ég tala hátt og mikið, sprella og geri grín og mér hrútleiðist að ganga í pilsi nema á hátíðisdögum. Ég hef engan áhuga á barneignum eða brúðkaupum og þykja verslunarmiðstöðvar vondir staðir. Ég kann samt að taka strætó bæði fram og til baka.

Í dag er ég kona.

Prev PostViðhorf: Hlutlaust fréttamat?
Next PostPólitík: Matadorkynslóðin