Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 1. júlí 2004

Hlutlaust fréttamat?

Finnst ykkur þetta ekkert merkilegt?” spurði ég gáttuð á viðbrögðum vina minna við þeim annars merkilegu tíðindum sem ég þóttist vera að flytja þeim. “Ha? Jú, kannski,” svaraði vinkona mín en hljómaði dálítið eins og hún væri að róa mig. Hin létu sér fátt um finnast. “Þetta kemur eiginlega ekkert á óvart,” tautaði vinur minn og breytti svo um umræðuefni. Ég prófaði að endurtaka tíðindin en allt kom fyrir ekki. Þeim þótti þetta bara ekkert merkilegt.

Seinna sat ég í öðrum hópi og ákvað að endurtaka tilraun mína til að vekja hrifningu fólks. Í þetta skiptið tókst það. Nokkur supu hveljur en önnur notuðu óformlegri leiðir til að láta geðshræringu sína í ljós. Ég fór því hróðug heim og sannfærð um að það væri bara einhver galli í hinum vinahópnum að hafa ekki þótt þetta merkilegt.

Seinna fór ég að velta því fyrir mér hvers vegna fólki finnast mismunandi hlutir merkilegir. Af hverju þykir mér til dæmis hin mestu tíðindi að til sé skordýr sem tekur sér fimmtán ár í að verða til en lifir svo bara í eina viku á meðan öðrum þykir mun merkilegra að gengisvísitala krónunnar hækki um 0,15 stig?

Það er nefnilega svo að alla daga leggjum við mat á allt í kringum okkur. Við tölum um matinn í mötuneytinu, fótboltatíma dagsins, helstu fréttir í þjóðlífinu og nýjasta þáttinn á Skjá einum. Sumt þykir okkur þess virði að tala um, annað ekki.

Þetta er kannski það skemmtilegasta við lýðræðið. Við megum öll hafa okkar skoðun á hlutunum og í mínum útópíska þankagangi erum við öll meðvituð um réttinn til að tjá skoðanir okkar en um leið skylduna til að færa rök fyrir máli okkar og hafa aðgát í nærveru sálar.

Í flestum samfélögum er fyrirbæri sem kallast fjölmiðlun þótt formið sé án efa mismunandi. Fjölmiðlun gengur út á að koma skilaboðum til fjöldans og hverju sinni fara skilaboðin í eina átt. Á Íslandi geta hlutaðeigandi aðilar yfirleitt komið sínum skilaboðum á framfæri næsta dag sé álits þeirra ekki leitað jafnóðum og við erum jafnframt svo heppin að orð almúgans fá sitt pláss í dagblöðum landsins.

Fjölmiðlar sjá því um að meta hvað er merkilegt hverju sinni og hversu merkilegt það er. Stórtíðindi verða fyrstu fréttir útvarps og sjónvarps og rata á forsíður blaða sem hafa þann tilgang að flytja fréttir. Stundum kemst einn fjölmiðill á snoðir um eitthvað en segir engum öðrum frá því allir vilja jú vera fyrstir með fréttirnar. Alveg eins og ég þegar ég luma á skemmtilegum eða spennandi tíðindum.

Fjölmiðill er ekki eitthvert ósýnilegt afl. Á fjölmiðlum starfar nefnilega fólk sem ákveður hverju sinni hvað er merkilegt og hvað ekki. Ef fjölmiðill er ríkisrekinn getur skapast sú hætta að ekki séu fluttar fréttir sem koma sér illa fyrir ríkið. Ef fjölmiðill er í eigu einstaklinga er hið sama upp á teningnum. Það er alltaf einhver sem hefur hagsmuna að gæta.

Fyrirsögn Morgunblaðsins sl. laugardag hefur verið mikið til umræðu. Þar þótti hin mesta frétt að auð atkvæði skyldu birt sérstaklega í fyrsta sinn. Þetta kom mér ekkert á óvart frekar en stórtíðindin komu vinum mínum á óvart um daginn. Ég var handviss um að þær “merkisraddir” sem töluðu hátt um að skila auðu í forsetakosningunum væru miklu merkilegri en raddir anarkistanna og annarra sem skila auðu í hverjum kosningum.

Það breytir því ekki að öðrum þótti þetta merkileg frétt og því fjarri lagi að hætta við að birta hana af því að ég þóttist hafa séð þetta fyrir. Það má svo aftur deila um hvort það hafi yfirbragð áróðurs að leggja forsíðuna undir fréttina með tilheyrandi stríðsletri þótt það hafi tæpast haft úrslitavald um fjölda auðra seðla í forsetakosningunum.

Vald fjölmiðla í skoðanamótun almennings má aldrei vanmeta. Í leiðara Morgunblaðsins í gær var bent á að blaðamennska Morgunblaðsins snúist, líkt og á kaldastríðsárunum, um að leiða fram réttar upplýsingar. Sjálf legg ég mig í líma við það að vinna hverja frétt af alúð og birta ólíkar skoðanir fólks ef um deilumál er að ræða. Það breytir því ekki að ég er manneskja og sem fyrr segir upplifa manneskjur hlutina á mismunandi hátt.

Það að ætla að leiða fram réttar upplýsingar er mikið vandaverk. Í raun byggist sú fullyrðing á því að það sé til einn sannleikur en ekki margir eins og ég þykist viss um eða enginn eins og maður mér vitrari hélt eitt sinn fram. Við höfum öll heyrt tvær mismunandi manneskjur segja sömu söguna. Stundum er eins og um tvær ólíkar sögur sé að ræða. Það sama má segja um fréttir. Það sem einn kýs að kalla friðargæslulið vill annar kalla her. Á mótmælum geta verið rúmlega fjögur hundruð manns eða hátt í fimm hundruð.

Það sem mér þykir stórtíðindi og vil helst birta með rauðum stöfum á forsíðu þykir samstarfsmönnum mínum og yfirmönnum ekki endilega merkileg tíðindi. Því er svo að sjálfsögðu öfugt farið og fréttir um ágæti Bandaríkjastjórnar rata frekar á forsíðu en upplýsingar úr ársskýrslu Amnesty International um pyntingar á saklausu fólki.
Það væri hvaða fjölmiðli sem er til framdráttar að hætta að þykjast vera hlutlaus. Þrátt fyrir að flestir fjölmiðlar landsins standi sig vel í að leita að “réttum upplýsingum” geta mismunandi skoðanir eða upplifun aldrei fengið nákvæmlega sama vægi, sömu orð og sömu staðsetningu.