Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 9. desember 2003

Herinn burt!

Ekki alls fyrir löngu var ég beðin að halda ræðu á fundi Samtaka herstöðvaandstæðinga. Það fannst mér svo sannarlega heiður enda hin bestu samtök. Þessi ræða fékk mig hins vegar til að velta því fyrir mér hvers vegna ég er á móti veru hersins hér á landi. Einu sinni var mér alveg sama og síðar var ég móti en vissi samt aldrei almennilega hvers vegna. Ég var lengi að samþykkja að halda þessa ræðu enda gerði ég mér grein fyrir að það tæki þó nokkurn tíma í undirbúningi að fjalla um mál sem ég taldi mig hafa litla þekkingu á.

Vitrunin kom þó einn daginn þegar ég brá mér úr blaðamannshlutverkinu til að kenna fimm ára börnum í einum skóla landsins. Þá varð mér hugsað til þeirra ótal leiðtogahlutverka sem ég hef tekið að mér og þá oftast með börnum og unglingum. Eitt er það sem hefur verið sameiginlegt með starfi mínu sem leiðtogi, sama hvaða hópa er um að ræða, og það er að mitt hlutverk er að passa upp á að börnunum líði vel í hópnum hverju sinni. Til þess að það gangi upp þarf að skiptast á með hlutina, koma fram við aðra af virðingu og kunna að segja fyrirgefðu. Öll börn sem ég þekki skilja mikilvægi þessara þátta og eru tilbúin að leggja sitt af mörkum til þess að öllum líði vel. Þeim finnst rökrétt að ræða málin frekar en að grípa til ofbeldis og eru sannfærð um að peningar og veraldleg gæði færi okkur ekki hamingju ein og sér.

Þetta átti líka við um mig þegar ég var barn. Líkt og önnur börn átti ég mjög erfitt með að skilja að stríð skyldi geisa í heiminum. Þegar ég varð eldri gerði ég mér grein fyrir því að stríð er ekki eins og náttúruhörmungar, sem við höfum enga stjórn á. Stríð er nefnilega mannanna verk og ástæðan fyrir því er einföld: Græðgi í peninga og völd. Öll óhamingjan sem býr í þessum heimi á upptök sín í misskiptingu auðsins og því valdaójafnvægi sem ríkir í heiminum. Stríð sprettur af því að menn kunna ekki þá einföldu hluti sem leikskólabörnin mín eru fær um: Að skipta á milli sín og biðjast fyrirgefningar í auðmýkt.

Þegar ég óx úr grasi reyndi ég að benda fólki á þessar einföldu staðreyndir en fékk alltaf sama svarið: Þetta er ekki svona einfalt. Með tímanum fór ég hreinlega trúa því að þetta væri ekki svona einfalt en fann mér friðþægingu í því að hugsanlega væru hlutirnir svona vondir úti í heimi en ekki á litla Íslandi enda er það lenska hér á landi að staðsetja allt vont í útlöndum.

Ég man ekki hvenær ég gerði mér grein fyrir því að það væri her á Íslandi en það angraði mig svo sem ekkert. Ég tengdi her eflaust miklu frekar við bíómyndir en við raunveruleg stríðsátök og gat því auðveldlega haldið áfram að lifa í blekkingunni um að ég tilheyrði þjóð sem elskaði frið. Bakslagið kom í raun ekki fyrr en á þessu ári þegar forsvarsmenn ríkisstjórnar Íslands lýstu yfir stuðningi við stríðið í Írak. Stríð sem var háð af hrokafyllstu þjóð þessa heims og þjóðin mín sagði: Já, okkur finnst þetta góð hugmynd.

Ég velti því lengi fyrir mér hvers vegna þessi afstaða var tekin enda hefði verið svo auðvelt fyrir okkur að fela okkur bak við hlutleysið og ástina á friði. Niðurstaða mín er einfaldlega sú að þarna hafi búið að baki það afl sem hefur hvað sterkust tök á valdamönnum þessa heims: Peningar. Grunurinn staðfestist þegar Bandaríkjamenn vildu minnka herrekstur sinn í Keflavík og íslenskir ráðamenn lögðust á hnén og grátbændu um að svo skyldi ekki vera. Enda þarf Ísland nauðsynlega á þeim aurum að halda sem fylgja bandaríska hernum. Það er okkur ekki nóg að vera meðal ríkustu þjóða heims, við þurfum að vera ríkust.

Valdapíramídinn sem herinn byggist á tákngerir valdaójafnvægið sem ríkir í veröldinni. Þannig fer fólk hreinlega að trúa því að það sé fyllilega eðlilegt að sumir menn séu valdameiri en aðrir og megi jafnvel niðurlægja aðra og beita þá ofbeldi í skjóli valda. Her byggist nefnilega á furðulegri karlmennskuímynd sem felur í sér blóð og svita en engin helvítis tár. Innan hersins ríkja svo stjórnunarhættir sem leikskólabörnin mín myndu aldrei getað unað við. Þar geta menn falið sig á bak við nafnbót. Hvort sem það er óbreyttur hermaður, liðsforingi eða einhver virðulegri titill. Í skjóli þessarar nafnleyndar eru framdir ógeðfelldir glæpir þar sem eini tilgangurinn virðist vera að sýna vald sitt með því að niðurlægja fólk. Þannig eru nauðganir nánast eðlilegt vopn í stríði.

Vera bandaríska hersins á Íslandi stendur fyrir allt sem er vont í þessum heimi: Misskiptingu auðsins, valdagræðgi, ofbeldi og feðraveldishyggju. Persónugerving hersins er íhaldssamur, vel stæður karlmaður sem telur sig öðrum æðri. Hann er að sjálfsögðu hvítur og gagnkynhneigður, þolir ekki mismunandi lífsgildi og stjórnast umfram allt af dýrslegum hvötum. Til þess að leysa vandamálin sem blasa við honum grípur hann til ofbeldis enda er það eina leiðin til þess að sýna kellingum, hommum og helvítis útlendingum hver ræður!

Ég þori að fullyrða að öll þau börn sem ég þekki vilja ekki samþykkja veröld sem stjórnast af valda- og peningagræðgi. Börnin vilja frið, fyrirgefningu og mannsæmandi kjör fyrir allt fólk.

Það er því okkar hlutverk að hætta að ljúga að þeim að hlutirnir séu ekki svona einfaldir og styrkja þau í trú sinni á að þessari veröld sé hægt að breyta.