Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 10. ágúst 2005

Frelsið er yndislegt

Leidís end djentelmen, velkomm tú London.” Hjartað tók smákipp. Loksins, loksins, frelsið! 

Þrátt fyrir að hafa farið nokkrum sinnum út fyrir hinn vestræna heim var þetta í fyrsta sinn sem ég hlakkaði raunverulega til að komast í mína eigin menningu. 

Og með öllum þeim fyrirvara að áfengi sé hræðilega óhollt (eða eru áfengislögin ekki jafnströng og tóbaksvarnarlögin?) þá hlakkaði ég virkilega til að fá mér bjór.

Í geðshræringu reif ég af mér slæðuna og brosti afsakandi til konunnar sem sat við hliðina á mér enda skildi hún örugglega lítið í þessum ofsa. Ég hlakkaði svo til að finna vindinn leika um hárið. “Í Íran er allt bannað,” hugsaði ég. Áður en ég fór til Írans vissi ég vel að áfengi væri ólöglegt og hvergi fáanlegt. En mér fannst samt stórmerkilegt að dvelja í mánuð í landi þar sem áfengi sést aldrei. Á fínustu veitingahúsum er enginn vínseðill og hvergi fann ég Austurvöll með bjórþambandi fólki á öllum aldri. Einu sinni sá ég vínflösku og þá var farið með hana eins og gull. Mér skildist samt á fólki sem ég hitti að í höfuðborginni, Teheran, væri ekki erfitt að verða sér úti um áfengi þótt það væri erfiðara en að kaupa fíkniefni. Svipuhögg eru þó refsing við hvoru tveggja.

Slæðan. Ég ýmist hataði hana eða elskaði. Þegar morgnarnir voru úfnir var svo ágætt að sveifla slæðu um höfuðið og þurfa ekki að hafa nokkrar áhyggjur af hárgreiðslunni. Það gat aftur á móti verið hræðilega þreytandi að geta ekki einu sinni farið fram í morgunmat án þess að hylja hárið og allan líkamann. Á heitum nóttum í eyðimörkinni dreymdi mig stuttbuxur og stuttermabol.

“Afsakaðu, þetta er ekki sniðugt. Lögreglan gæti komið,” sagði vinalegur maður við okkur þegar við sátum á pítsustað og spiluðum Ólsen Ólsen. Við þökkuðum honum ábendinguna og pökkuðum spilunum niður.

Á leið út flugvélaganginn fannst mér ég hálfnakin svona slæðulaus. Ég vöðlaði slæðunni saman og tróð henni ofan í tösku.

Nú var ég komin í FRELSIÐ. Ég bretti upp ermarnar. Ég var dökkbrún á handarbakinu en skjannahvít á handleggjunum.

Mér fannst ég vera komin heim. Nú þyrfti ég ekki að útskýra fyrir neinum hvað ég var að þvælast. Íranar eru ekki beinlínis vanir því að spjalla við vestrænar konur sem eru einar á ferð.

Ég greip mér kerru undir bakpokann enda orðin þreytt í öxlunum af misgóðum rúmum og sætum í rútum, lestum og flugvélum. Á kerrunni voru myndir sem gáfu til kynna að það væri bannað að standa á henni og bannað að láta börn sitja á henni. Ég náði í bakpokann. Það var bannað að hlaupa á farangursfæribandinu.

“Auðvitað þurfa að vera reglur,” hugsaði ég og sá fyrir mér hvað það væri mikið kaos ef þessi skilti væru ekki til staðar. Örugglega fullt af fólki að nota færibandið sem hlaupabretti og foreldrar myndu eflaust skella börnunum upp á kerrurnar sem þau myndu svo pottþétt detta af.

Ég kom mér út úr flugstöðinni og keypti miða í rútuna sem átti að flytja mig yfir á Stansted-flugvöll. Í rúllustiganum á leiðinni var bannað að standa vinstra megin en á göngunum var bannað að ganga hægra megin.

Á Standsted beið vinkona mín með bjór í poka enda fjárhagur bakpokaferðalanga og Lundúnabúa ekki svo blómstrandi að við hefðum hug á því að sitja á bar. Nú vandaðist málið. Vinkonan var svöng en ég æst í drykkina sem voru í pokanum. Við máttum auðvitað ekki sitja einhvers staðar þar sem hægt var að kaupa mat og drekka ölið. Það er bannað. Daginn áður sat ég á tehúsi í Íran með fjölskyldu. Við pöntuðum te og vatnspípu og móðirin dró upp súkkulaði og snakk án þess að þjónarnir hefðu nokkuð við það að athuga.

Vinkona mín fór og keypti sér mat og við ákváðum að finna stað til að setjast á. Fyrst við vorum ekki á veitingastað gátum við ekki setið við borð. Við gátum setið á bekkjum sem eru hafðir hæfilega óþægilegir til að fólk sofi ekki á þeim. Það er bannað að sofa á flugvöllum yfir nótt.

Við fundum okkur stað og settumst á gólfið. Ég dró upp íranskar döðlur og við byrjuðum að spila. Alltaf þegar starfsfólk nálgaðist létum við lítið bera á bjórnum. Það er örugglega bannað að drekka sinn eigin bjór á gólfinu í flugstöðinni, hugsuðum við báðar án þess að velta því fyrir okkur af hverju það ætti að vera bannað en í lagi að borða súkkulaði. Mér leið eins og glæpamanni.

Daginn eftir að ég kom heim ætlaði ég út í búð. Hárið var allt út í loftið og án þess að hugsa vafði ég írönsku slæðunni um höfuðið. Ég var að labba út þegar ég mundi allt í einu að svona slæður á ekki að hafa á hausnum á Íslandi. Ég tók hana af og setti frekar upp húfu.

Ég sit á kaffihúsi við Austurvöll. Ég má drekka bjór en vatnspípur eru bannaðar. Á gangstéttinni sitja framhaldsskólanemar með bjór. Þau eru of ung til að drekka en gera það samt. Á bekk situr fólk sem við “lánsömu” köllum oft ólánsfólk. Þau drekka bjór. Lögreglan kemur tvisvar og talar við þau. Börunum sem þau sækja er lokað einum af öðrum. Ef þau hanga á Austurvelli hringir fólk á lögregluna og kvartar.

Mér er alveg sama, ég er frjáls. Svo lengi sem ég borga fimm hundruð krónur fyrir bjórinn.

Frelsið er yndislegt.