Viðhorf: Fótbolti og ég

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 6. janúar 2004

Fótbolti og ég

Eftir mikið stress fyrsta mánuð haustsins sem leið voru örfá aukakíló farin að láta á sér kræla svo gallabuxurnar voru óþægilegri en vanalega. Á sama tíma var hugurinn orðinn frekar ofnotaður og þurfti á því að halda að losna undan daglegu stressi og sálin þráði hvíld frá sínum áhyggjum. Það var þá sem ég uppgötvaði að mér hafði láðst að hreyfa mig eitthvað af viti í öllum hamaganginum. Ég ákvað því að rífa fram skóna og fór að mæta í fótbolta með mínum gamla, góða hópi. En hópurinn sá hittist aðeins einu sinni í viku og það þótti mér ekki nóg. Ég spurðist því fyrir í vinnunni og komst að því að þar var starfrækt þetta fína knattspyrnufélag. Eftir að hafa gengið úr skugga um að nýliðar væru velkomnir boðaði ég komu mína í næsta tíma.

Fréttin fór eins og eldur í sinu um vinnustaðinn. Nú yrði brotið blað í sögu félagsins því að í fyrsta skipti myndi stelpa spila með.

Ég mun seint saka vinnufélaga mína um að hafa ekki tekið vel á móti mér en hins vegar fannst mér frekar stressandi að þetta skyldu þykja svo stór tíðindi.

Þónokkur fjöldi fólks hefur sýnt þessu uppátæki mínu áhuga og ég hef fengið að heyra frasa eins og að nú sé síðasta vígið fallið. Þá er ég reglulega spurð hvernig gangi og ég veit til þess að fótboltafélagar mínir hafa verið spurðir hvort ég sé að standa mig. Í kjölfar þessarar stemningar sem hefur myndast rifjuðust upp fyrir mér öll skiptin sem ég hef labbað inn á fótboltavöll og spurt: Má ég vera með?

Þegar ég var sex ára tók ég nefnilega upp á því að hafa áhuga á fótbolta. Að sjálfsögðu var enginn til staðar til að ýta undir þennan áhuga minn og þónokkuð oft var reynt að draga úr honum. Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég í fyrsta skipti gekk út á völl til strákanna og óskaði eftir að fá að spila með. Ég valdi úr vinalegan bekkjarbróður minn en hann vísaði mér áfram á leiðtoga hópsins sem tjáði mér að það gengi ekki upp. Ég gafst þó ekki upp strax og svo fór að lokum að ég fékk leyfi til að þvælast inni á vellinum. Þá voru bekkjarbræður mínir komnir með þónokkurt forskot á mig enda búnir að spila mun meira. Ég spilaði frímínútna fótbolta í tvö til þrjú ár áður en ég skoraði í fyrsta skipti. Það var jafnt á með liðunum og bjallan var byrjuð að hringja en við höfðum það fyrir reglu að leiknum væri lokið þegar bjallan væri hætt að hringja. Mikil kös myndaðist í vítateig andstæðinganna og allt í einu lenti boltinn beint fyrir framan mig og mér tókst að sparka honum í netið svo að sigurinn var okkar. Andstæðingarnir urðu öskureiðir, markmaðurinn bölsótaðist út í lélega vörn en fékk sjálfur skammir fyrir að láta stelpu skora hjá sér.

Síðar uppgötvaði ég að til væru fótboltaæfingar. Þegar ég byrjaði að æfa voru sameiginlegar æfingar fyrir allar stelpur sem höfðu áhuga á fótbolta. Ég var níu ára en sú elsta sem æfði með var fimmtán ára ef ég man rétt. Í fyrsta æfingaleiknum mínum fékk ég að spila í fimm mínútur en leikurinn varði í klukkutíma. Helgina sem mitt fyrsta Íslandsmót fór fram þvertók ég fyrir að fara í sumarbústað með foreldrum mínum. Amma kom að horfa á en … ég fór ekkert inn á. Við lentum í öðru sæti en það voru ekki til nógu margir verðlaunapeningar svo ég fékk engan.

Ég efa að ég þurfi að fara mörgum orðum um að reynsla karlkyns bekkjarfélaga minna af fyrstu fótboltasporunum var svo sannarlega ekki sú sama. Ég fer því ekki ofan af því að ég væri mun betri leikmaður í dag, og þá sérstaklega með betri tækni, hefði ég fengið sömu hvatningu frá umhverfinu og sömu þjálfun og þeir.

Mótvindar geta reynst fólki miserfiðir en í þessu tilviki gafst ég ekki upp, ólíkt ótal stelpum sem sýndu áhuga á fótbolta. Ég er enn að og held áfram að ganga út á völl og spyrja hvort ég megi vera með. Mér er svo sannarlega misvel tekið. Fyrir tveimur árum bjó ég á heimavist í Danmörku og spilaði reglulega fótbolta með strákunum þar.

Einn daginn ákváðu strákarnir að stofna fótboltalið sem skyldi keppa í neðstu deildinni en eftir að þeir fóru að æfa hafði ég ekki lengur félaga til að spila með. Ég spurði því hvort ég mætti ekki æfa með en kannski hefði ég látið það ógert hefði ég vitað allan þann vanda sem fylgdi í kjölfarið sem meðal annars varð til þess að áður góðir félagar mínir urðu hálfgerðir óvinir mínir.

Stjórn fótboltafélagsins hafði nefnilega bundið í lög að liðið væri ekki fyrir stelpur. Aðalleiðtoginn í hópnum sagði mikilvægt að liðsmenn fengju að vera strákar í friði og því ekki við hæfi að ég væri að þvælast með. Vinir mínir innan liðsins fóru fram á að þetta yrði tekið upp á æfingu og mér skilst að fjórir strákar af 23 hafi verið á móti því að ég æfði með. Að lokum var því ákveðið að ég mætti æfa með liðinu ef ég borgaði ársgjaldið en þá átti ég eftir að búa það stuttan tíma á heimavistinni að það hefði kostað mig í kringum 100 danskar krónur fyrir hverja æfingu. Að sjálfsögðu kom ekki til greina að veita mér afslátt af ársgjaldinu.

Þessi reynsla mín er ekki einsdæmi en staða kvennaknattspyrnunnar hefur sem betur fer stórbatnað á Íslandi síðan ég hóf minn takmarkaða feril. Þó er það enn svo að strákar fá mun meiri hvatningu en stelpur í þessum efnum og það er án efa í hina áttina í „kvenlegri“ íþróttagreinum. Ef við ætlum að bjóða börnunum okkar upp á raunverulegt val þurfum við að taka til í hugum okkar og hætta að ýta þeim inn í fyrir fram ákveðin hlutverk.

Prev PostViðhorf: Herinn burt!
Next PostViðhorf: Af tilfinningarökum