Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 8. febrúar 2006

“Ég hata homma”

Ég hata homma. Mér finnst þeir ógeðslegir og ef ég sé þá úti á götu þá slæ ég þá,” segir Bob og slær út í loftið. Við sitjum í litlum hópi utandyra undir stjörnubjörtum himni í litla þorpinu Ende í Malí í Vestur-Afríku og drekkum te. Ungur strákur hellir upp á en teið er hitað í litlum katli á kolum. Í hópnum eru aðeins tveir menn sem tala ensku, umræddur Bob og svo leiðsögumaðurinn okkar, Amadu. Aðrir tala móðurmálið sitt, dogon, og hið opinbera tungumál Malí, frönsku. Bob og Amadu vinna báðir sem leiðsögumenn. Þeir kunna hvorki að lesa né skrifa en lærðu ensku af ferðamönnum. 

Ende er á Dogon-svæðinu en það er raunar samansafn lítilla þorpa sem að margra mati eru einn áhugaverðasti viðkomustaður V-Afríku. Bob og Amadu eru báðir uppaldir í Ende en hafa flust til hafnarborgarinnar Mopti og gerst leiðsögumenn. Þeir gengu ekki í skóla og kunna því hvorki að lesa né skrifa en hafa lært ensku af ferðamönnum auk þess að tala frönsku reiprennandi. 

Við spjöllum um ólíka menningarheima, væntingar og þrár, það sem skilur okkur að og það sem sameinar okkur. Amadu og Bob hafa betri þekkingu á vestrænni menningu en ég hef á malískri menningu og geta útskýrt ýmislegt fyrir mér. 

Þeir syngja malískt ástarlag og ég nota allan minn bassa í að syngja um krumma sem svaf í klettagjá. Amadu segir mér frá stjörnunum sem geta boðað góða uppskeru eða minnt á að regntíminn sé að nálgast. 

Dogon er landbúnaðarsamfélag og hugarheimur fólksins tekur mið af því. Áður fyrr voru flestir Dogon-búar andatrúar en kristni og íslam hafa náð útbreiðslu þar eins og annars staðar. 

Amadu og Bob segja okkur frá hefðbundnum samfélögum Dogon-þorpanna sem er ólíkt því sem gerist í borgum og bæjum Malí. Þeir segja frá göldrum og fórnum sem eru enn þann dag í dag færðar guðunum þótt slíkt hafi minnkað talsvert með breyttum trúarbrögðum. Amadu segir að stundum sé fólki fórnað þótt yfirleitt sé látið nægja að slátra geit eða kú. Dogon-grímurnar spila mikið hlutverk en sá sem ber slíka grímu er nafnlaus og nefni einhver nafn hans er sá hinn sami umsvifalaust tekinn af lífi. 

Í Dogon er feðraveldissamfélag. Karlinn er höfuð fjölskyldunnar og við kvöldverðarborðið talar hann einn og aðrir þegja. Allar stúlkur eru umskornar í æsku og fjölkvæni er reglan fremur en undantekningin. Umskurnin er fyrst og fremst stjórnunartæki og sögð koma í veg fyrir að konur sofi hjá hverjum sem er. 

Amadu og Bob eru gagnrýnir á þetta umhverfi sem þeir ólust upp í enda lifa þeir í allt öðrum veruleika í hafnarborginni Mopti. Þeim þykir sú regla að foreldrar velji fyrstu brúði sona sinna úr sér gengin og vilja fá að ráða sínum örlögum sjálfir. 

Allt í einu og nánast upp úr þurru byrjar Bob að tala um samkynhneigð. Hann lýsir yfir áhyggjum af því að Elton John sé nú giftur karlmanni og á eftir fylgir löng ræða um hvað hommar séu ógeðslegir og saga um vondan, vestrænan karl sem reyndi að fá malískan dreng til við sig með því að bjóða honum peninga. Ég hika en ákveð samt að hreyfa mótbárum. Ég segist þekkja fullt af hommum og lessum sem séu ljómandi fínt fólk. Bob horfir undrandi á mig og segir að fólk eigi þá að minnsta kosti að halda sig á Vesturlöndum en ekki láta svona hér í Afríku. “Þetta er ekki okkar menning. Guð vill að karl og kona séu saman. Af hverju ætti karl að kyssa karl? Til hvers? Ég bara skil þetta ekki,” segir Bob og Amadu tekur undir: “Samkynhneigð er ekki hluti af okkar menningu.” 

Ferðafélagi minn grípur inn í og segir rólega að það sé kannski rétt að virða eigi menningu annarra þjóða en að það eigi líka að virða rétt fólks til að lifa því lífi sem það vill svo fremi sem það skaði ekki aðra. Við reynum að leiða í ljós samhengið milli þessarar umræðu og gagnrýni þeirra sjálfra á þvinguð hjónabönd en Bob situr við sinn keip og heldur áfram að blóta hommum (lessur koma vart til tals). Ég bendi honum kurteislega á að guð vilji örugglega ekki að hann noti orkuna sína í að hata fólk og segi spekingslega: “Spámaðurinn Jesús sagði: Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.” En Bob er löngu hættur að hlusta og af hans hálfu er samræðan búin. Ég sný mér að Amadu og segi lágt: “Sama hvað þér finnst, ekki segja við Evrópubúa að þú hatir homma, það getur sært þá virkilega mikið.” Ég finn að hann tekur mark á orðum mínum og vona að mér hafi í það minnsta tekist að sá litlu fræi. 

Í vélinni á leiðinni heim rifja ég upp þessar samræður. Ég finn til samúðar með samkynhneigðu fólki í Dogon um leið og ég reyni að skilja að viðhorf Bobs og Amadu eru lituð af veruleikanum sem þeir eru aldir upp í. Ég hugsa fallega til landsins míns litla í Atlantshafinu þar sem fordómar gegn samkynhneigðum eru á undanhaldi og samfélagið víðsýnna. 

Yfir hafragrautnum les ég gamla og nýja Mogga til að ná aftur fótfestu. “Við erum sannfærð um að það eru færar aðrar og betri leiðir til þess að tryggja samkynhneigðum sambærilega stöðu og hjónum en sú að sprengja upp sjálft hjónabandshugtakið,” stendur í blaðagrein og biskupinn sagði víst í nýárspredikun sinni að hjónabandið ætti það inni að við köstuðum því ekki á sorphaugana. Mikið er gott að vera komin heim í fordómaleysið á Íslandi.