Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 11. apríl 2006

Bomba eða spjalla?

Við fyrsta innlit í Norræna húsið á sl. fimmtudagseftirmiðdegi hefði grunlaus gestur kannski talið sig vera staddan í guðfræðitíma þar sem farið væri yfir boðorðin. Fyrir miðju salarins sat virðulegur maður, greinilega nokkuð við aldur, og brýndi fyrir áhugasömum hópi að ljúga aldrei. Sérann var þó ekki séra heldur doktor og heitir Hans Blix og fyrir framan hann sátu nemendur í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. 

Hans Blix var forstöðumaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar frá 1981-1997 og fór síðar fyrir sérstakri afvopnunarnefnd sem var sett á laggirnar árið 2000. Hann er maðurinn sem leitaði ljósum logum að gereyðingarvopnum í Írak í aðdraganda innrásarinnar. Hann fann þau ekki. 

Auk þess að taka þátt í málstofu með alþjóðasamskiptanemum talaði Blix á tveimur fundum hér á landi og veitti viðtöl í öllum helstu fjölmiðlum. Þennan dag í Norræna húsinu miðlaði hann af reynslu sinni af samningaferlum og benti m.a. á að hversu freistandi sem það geti verið að ljúga örlítið geti það alltaf komið manni í koll. Þótt þetta Viðhorf gæti fjallað alfarið um samningatækni sem Blix hefur tileinkað sér langar mig frekar að færa mig inn á það eldfima svið að fjalla aðeins um málefni Írans og þá með vísan í það sem Blix sagði á fundum og í viðtölum hér á landi. 

Meginástæðan sem Bandaríkin gáfu fyrir innrásinni í Írak var að þar leyndust gereyðingarvopn. Nú hefur verið viðurkennt að þær upplýsingar hafi verið rangar. Blix benti á að bandarísk yfirvöld hefðu þó nefnt fleiri ástæður. Ein var að koma þyrfti á lýðræði í landinu enda Saddam Hussein hinn mesti fantur. Tíminn verður að leiða í ljós hvort það markmið náist en fyrir leikmanni hljómar óneitanlega furðulega að ætla að koma á lýðræði með stríði. Bandaríkjamenn vildu líka senda hryðjuverkamönnum skýr skilaboð. Fátt bendir til þess að innrásin hafi dregið úr hryðjuverkum heldur einmitt hins að hún hafi ýtt frekar undir þau. Því var einnig haldið fram að Írak væri ógn við alþjóðasamfélagið en að mati Blix var því ekki svo farið árið 2003. En þá sögðu Bandaríkjamenn að Írak gæti seinna orðið ógn við alþjóðasamfélagið. Og í hvað átti þá að nota tímann? Bomba? 

Hugurinn hvarflar ósjálfrátt til fyrirlestra um stöðu mála í Íran og Írak sem Bandaríkjamaðurinn Michael Rubin hélt hér á landi nýverið. Rubin virtist reyndar eiga erfitt með að gera upp við sig hvort hann væri pólitíkus eða fræðimaður og um leið og hann ítrekaði að hann talaði ekki í nafni bandarískra stjórnvalda virtist hann tilbúinn að gera allt til að verja þau. Rubin sagði Bandaríkin hafa áhyggjur af Íran vegna þriggja þátta: 1. Ógnar við frið í Mið-Austurlöndum. 2. Gereyðingarvopna. 3. Hryðjuverka. Furðu líkt röksemdunum sem voru notaðar fyrir árás á Írak? 

Þetta er raunar í fullu samræmi við yfirlýsingar bandarískra leiðtoga. Condoleezza Rice utanríkisráðherra hefur kallað Íran “seðlabanka hryðjuverkanna” og svo munu sennilega seint gleymast ummæli George W. Bush, forsetans þar vestra, um öxulveldi hins illa. Hvaða tilgangi þjóna svona ummæli? “Ég gæti ímyndað mér að Bush hafi grætt nokkur atkvæði í Wisconsin en þetta hefur líklega ekki skapað góðan farveg fyrir viðræður við N-Kóreu eða Íran,” sagði Hans Blix. Ósjálfrátt vakna spurningar um hver sé forgangsröð bandarískra stjórnvalda. Friður? Atkvæði heima fyrir? Olía?

Blix ítrekaði mikilvægi þess að hafa sögulega þekkingu á viðfangsefninu. Hvaða máli skiptir hún í Íran? Alla 20. öldina höfðu Bandaríkjamenn og Bretar mjög mikil afskipti af innanríkismálum í Íran (og reyndar Rússar líka í upphafi aldarinnar). Þessar tvær stórþjóðir stuðluðu að því að lýðræðislega kjörinn forsætisráðherra Írana, Mohammed Mossadegh, var hrakinn frá völdum og við tók hinn vænisjúki Mohammad Reza Shah Pahlavi. Keisarinn sá var ekki vinsæll hjá þjóð sinni enda tók hann upp þráðinn þar sem faðir hans sleppti honum og vildi nútímavæða Íran ofan frá, í góðu samstarfi við Vesturveldin. Þegar þjóðin fékk endanlega nóg var gerð bylting og henni rændi hinn heimsþekkti Ayatollah Khomeini sem gerði Íran að íslömsku lýðveldi árið 1979.

Íranar hafa ekkert sérstaklega góða reynslu af byltingum, hvort sem þær koma utan eða innan frá, og ætli Bandaríkin að veita “aðstoð” sína við að kollvarpa klerkaveldinu þá er ekki líklegt að það falli í kramið hjá almenningi.

En eru Íranar ógn við alþjóðasamfélagið eins og Bandaríkjamenn halda fram?

Blix segir að þeir gætu þróað kjarnorkuvopn á næstu fimm árum. Það ætti hins vegar að gefa alþjóðasamfélaginu ágætis tíma til að reyna að ná samningum við Írana og draga úr herskáum yfirlýsingum forsetans. Og hvernig á að standa að slíkum samningaviðræðum?

Blix bendir á að Bandaríkjamenn hafi ekki talað við Írana síðan í lok áttunda áratugarins þegar íranskir námsmenn ruddust inn í sendiráð Bandaríkjanna í Teheran og héldu 52 mönnum föngnum í 444 daga. Væri ekki ágætis hugmynd að byrja að tala saman?

Yfirlýsingar leiðtoga Bandaríkjanna sem vitnað er til hér að framan eru ekkert voðalega góður grundvöllur til þess að hefja viðræður, eða hvað?

Ég veit það ekki, ég er nýbyrjuð að læra samningatækni og veit bara að það er ekki sniðugt að ljúga…