Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 21. júní 2006

Afmá blett eða þjóð?

Eitt af því síðasta sem mér hefði getað dottið í hug væri að ég ætti eftir að setjast niður og skrifa Viðhorf um þýðingu úr persnesku. Þótt ég kunni að heilsa, þakka fyrir mig og segja matinn bragðgóðan á þessu merkilega tungumáli þá skil ég það hvorki talað né ritað, hvort sem um er að ræða daglegt spjall eða hátíðarræður leiðtoga landsins. Ég kann hins vegar ágætlega að lesa ensku og hef fylgst nokkuð vel með rökræðum úti í hinum stóra heimi um þýðingu á ummælum Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, um Ísrael.

Ástæðan fyrir því að ég sting niður fingrum um þetta efni núna er að höfundur hins ágæta dálks Klippt & skorið í Blaðinu gerði sl. laugardag athugasemdir við fréttaskýringu mína um málið. Í fréttaskýringunni færði ég rök fyrir því að forseti Írans hefði aldrei krafist þess að Ísrael yrði eytt eins og oft hefur verið haldið fram.
Nú skal tekið fram að ég er langt frá því að vera hrifin af Ahmadinejad og því síður af klerkunum sem sitja honum ofar í stjórnsýslu landsins. Ahmadinejad hefur reynst varasamur réttindum kvenna og oft blótaði ég klerkunum þegar ég gekk um götur eyðimerkurborgarinnar Yasd að kafna úr hita, en kappklædd með slæðu á hausnum. Ég er hins vegar hrifin af írönsku þjóðinni og ber hag hennar fyrir brjósti.

“Klippari” Blaðsins gerir í dálki sínum athugasemd við að ég byggi fréttaskýringuna á orðum eins, umdeilds bandarísks prófessors. Klippara hefur líklega yfirsést síðasti hluti greinarinnar þar sem ég vitnaði í Írana, búsettan á Íslandi, en hann hafði reynt eftir fremsta megni að útskýra fyrir mér merkingu ummæla Ahmadinejads sem hafa verið þýdd sem að þurrka beri Ísrael út af landakortinu – jafnvel yfirborði jarðar. Ummælin hafði Ahmadinejad eftir Ayatollah Khomeini heitnum og hafa þau síðan þá verið endurtekin oft af leiðtogum og fjölmiðlum annarra ríkja. Íraninn sem ég leitaði til sagði erfitt að þýða orð Khomeinis en að líkingin væri að afmá blett af pilsi, þ.e. að afmá þann blett sem Khomeini þótti Ísraelsríki vera á “hjarta íslams” í Miðausturlöndum. Ahmadinejad talaði, líkt og Khomeini forðum, um “hernámsstjórnina í Jerúsalem” og vildi hana burt hið fyrsta.

Engu að síður er það rétt hjá klippara að persneskumælandi, Miðausturlandafræðingurinn Juan Cole er umdeildur. Fáir fylgjast þó jafn vel með fréttum frá Íran og einmitt hann. Klipparinn segir breska blaðamanninn Christopher Hitchens hafa “beinlínis rökstutt ásakanir sínar um að Cole hagræði sannleikanum í rökstuðningi fyrir túlkun sinni á orðum forsetans”. Hitchens og Cole eiga sér nokkra sögu illdeilna og ummæli Íransforseta eru nýjasta þrætueplið þeirra. Þarna er klipparinn líkast til að vísa í grein sem Hitchens skrifaði á vefritið Slate (www.slate.com). Cole segir Hitchens hafa brotist inn á póstlista fræðimanna sem Cole tekur þátt í en á honum gilda strangar reglur um að ekki megi framsenda eða vitna í neitt sem þar kemur fram. Sakar Cole Hitchens um að hafa vitnað í ákveðna tölvupósta en hafa sleppt niðurstöðu umræðnanna þar sem Cole leiðrétti fyrri misfærslu sjálfs sín.

Klipparinn segir jafnframt að “þekktir íranskir þýðendur” eins og Sohrab Mahdavi, hafi talað um að “þurrka Ísrael út af kortinu” í þessu samhengi og vitnar þar, með smá viðbót frá eigin brjósti reyndar, í ágæta grein í New York Times (NYT). Við vinnslu fréttaskýringarinnar reyndi ég að finna upplýsingar um Mahdavi en án árangurs. Mér tókst heldur ekki að finna þær opinberu þýðingar sem blaðamaður NYT vísar í en hann segir m.a. að þær sé að finna á heimasíðu forseta Írans. Kannski hefur mér yfirsést eitthvað í yfirferð minni og það væri gaman ef klippari, eða aðrir áhugasamir, vildu benda mér á frekari heimildir. Svo lærir jú sem lifir.

Klippari gerir því skóna að Cole sitji einn að þessum þýðingarpælingum sínum. Hann veit auðvitað jafnvel og ég að blaðamaður NYT vitnar líka í Guardian-pennann Jonathan Steele sem er á svipuðu máli og Juan Cole. Ég sá hins vegar ekki ástæðu til þess að vitna líka í hann og þá einkum og sér í lagi vegna þess að í svona skrifum er plássið takmarkað. Það þekkir klipparinn ábyggilega enn betur en ég enda dálkurinn hans ekki sá lengsti.

En mátti túlka þessi ummæli forseta Írans sem ósk um að ísraelska þjóðin yrði þurrkuð út?

Svar mitt er nei. Í ræðunni fjallar hann fyrst um þá breytingu sem varð á stjórn Írans í íslömsku byltingunni 1979 og í framhaldinu að svipaðar breytingar geti orðið í Ísrael. Ummæli hans beinast ekki gegn ísraelsku þjóðinni eða gyðingum heldur gegn ísraelskum stjórnvöldum.

Þess ber auðvitað að geta að ég las ræðuna á ensku (þýðing Nazila Fathi fyrir NYT) en ekki persnesku og þar stendur hnífurinn kannski í kúnni. Meðalblaðamaður á Íslandi talar ekki persnesku og getur því síður lesið hana. Þess vegna neyðumst við til að stóla á þýðingar frá öðrum og eigum erfitt með að ganga úr skugga um að þær séu réttar. Samlíking Ahmadinejads á stjórnarskiptum Írans við möguleg stjórnarskipti í Ísrael sýnir enn betur fram á að hann er bara að halda á lofti þeirri gömlu hugmynd að Ísraelsríki verði lagt niður en ekki að krefjast þess að heil þjóð verði þurrkuð út. Þess vegna er fjári hart að líkja honum við Hitler og aðför hans að gyðingum eins og bandarísk stjórnvöld hafa m.a. gert.