Viðhorf: Af tilfinningarökum

Viðhorfspistill

Birtist í Morgunblaðinu, 10. janúar 2004

Af tilfinningarökum

Það er í raun mikil óvirðing gagnvart tilfinningum okkar að afskrifa þær algjörlega.

Tilfinningarök hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í hinum ýmsu málefnum. Ber þar hæst umræðuna um Kárahnjúkavirkjun þar sem náttúruunnendur voru sagðir stjórnast um of af tilfinningum og því ekki mark á þeim takandi. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík orðræða ræður ríkjum í mikilvægum málefnum hér á landi. Þegar konur gerðu þá kröfu að komast á þing var því t.d. haldið fram að þær gætu aldrei orðið þingmenn einfaldlega vegna þess að þær væru of miklar tilfinningaverur til að geta tekið rökréttar ákvarðanir. 

En hvers vegna eru tilfinningar svona lítils metnar í okkar hugum? 

Eitt sinn vann ég sem fótboltaþjálfari og kennari í nokkrar vikur í fjarlægu landi þar sem hugsanagangur og siðir eru ólíkir því sem við erum vön. Stundvísi og skipulag var ekki þýðingarmiklir þættir þar í landi og ekki óalgengt að kennslutímar eða fótboltaæfingar féllu niður með skömmum fyrirvara. 

Þegar boðið var út að borða var sjaldnast vitað klukkan hvað ætti að leggja af stað en þegar ég spurðist fyrir fékk ég engu að síður ótal svör. Fólk virtist frekar vilja giska en svara engu. 

Þetta olli skipulagsóða Íslendingnum að sjálfsögðu talsverðu hugarangri. En þrátt fyrir ýmis samskiptavandamál, hvort sem það var vegna mismunandi þankagangs eða tungumálaörðugleika, var eitt sem ég átti sameiginlegt með öllu fólkinu þarna. Það voru nefnilega tilfinningar. 

Tilfinningar eins og t.d. ótti, gleði, skömm, von, kærleikur og hamingja. Ég skildi þrá gestgjafa minna eftir öryggi, virðingu, ást og umhyggju. Ég fann þegar fólk var pirrað eða leið illa og ég sá þegar brosið náði til augnanna. Þegar ég skildi tilfinningarnar sem bjuggu að baki átti ég mun auðveldara með að skilja viðbrögð þessara vina minna. Tilfinningar eru nefnilega sammannlegar. Við höfum öll tilfinningar þó að við hlustum mismikið á þær. Því hlýtur að teljast óeðlilegt að útiloka þær úr allri umræðu um mikilvægar ákvarðanir. 

Á sumum sviðum höfum við viðurkennt gildi tilfinninga fram yfir hagsmuni. Til dæmis þykir eðlilegt að til skilnaðar komi hjá hjónum fremur en að þau lifi í óhamingjusömu hjónabandi ævilangt. Þrátt fyrir að það henti vinum og vandamönnum mun betur að hjón séu gift þá áfellist þau enginn fyrir að skilja ef þau treysta sér ekki til að lifa í hjónabandi. Já, og jafnvel þótt fjárhag hjónanna væri mun betur borgið ef þau héldu fast í ráðahaginn. 

En tilfinningar eru engu að síður útilokaðar sem rök í stórum málum sem varða þjóðarheill. Þá þykir fínna að vitna í hagfræðilegar tölur og vísindalegar rannsóknir. Þegar virkjunarmál eru rædd skiptir áætlaður hagvöxtur öllu máli. Fólk sem ekki vill fórna náttúrunni fyrir nokkrar krónur og takmarka möguleika komandi kynslóða til annars konar uppbyggingar er sagt stjórnast af tilfinningum en það þykir víst ekki sérlega göfugt. 

Ég hef oft verið spurð að því hvers vegna ég sé femínisti og er svar mitt ævinlega það að ég hafi rekið mig á svo marga veggi sem ekki væru til staðar nema vegna kyns míns. Stundum er ég spurð hvort einhverjar rannsóknir séu fáanlegar þar sem fram kemur að konur reki sig á veggi þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að þetta sé ekki bara bull í mér. Sumir ganga svo langt að segja mér að þetta sé fullmikið bull í mér en þeir hinir sömu eru þá vanalega hvítir, gagnkynhneigðir, vel stæðir karlmenn, m.ö.o. menn sem einna minnstar líkur eru á að reki sig á áðurnefnda veggi.

En sama hvað hver segir eru þessir veggir til staðar og ég veit það því að ég hef rekið mig á þá og það hefur stundum verið helst til óþægilegt.
Að sjálfsögðu er miklu auðveldara að afskrifa allt sem ekki hentar okkar ljósbleika veruleika með því að segja fólk vera að bulla. En þótt ég halli mér aftur í mjúka hægindastólnum breytir það því ekki að veruleikinn bankar upp á fyrr eða síðar. Það er í raun mikil óvirðing gagnvart tilfinningum okkar að afskrifa þær algjörlega.

Rökhugsun er góðra gjalda verð en það getur varla talist gott að byggja ákvarðanir eingöngu á henni.

Tökum hjón sem dæmi. Ef hagvöxtur og rökhyggja stjórnuðu öllu væri lífið kannski frekar grámyglulegt. Hjónin vöknuðu á hverjum morgni á sama tíma enda er það vísindalega sannað að það er best að sofa í átta tíma og besta hvíldin næst milli 24 og 8 á morgnana. Matmálstímar væru skipulagðir viku fram í tímann og innkaup um leið til þess að ná sem mestri hagkvæmni. Fæðan væri alltaf í fullu samræmi við markmið Manneldisráðs og unnið væri myrkranna á milli til þess að auka hagvöxt. Sérstakir heimsóknartímar væru fyrir vini, með tímamörkum að sjálfsögðu, enda er það ekki gott fyrir hagvöxt að eyða of miklum tíma í vitleysu. Kynlíf væri stundað reglulega þar sem rannsóknir sýna að það skili sér í auknum vinnuafköstum. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Það gefur auga leið að þetta hagkvæma líf byði ekki upp á mikla tilbreytingu eða skemmtilegar skyndiákvarðanir.

Tilfinningar lita lífið nefnilega á svo skemmtilegan hátt. Tilfinningar eru þverpólitískar og eiga heima í öllum stéttum og öllum menningarheimum. Það er því fjarstæða að halda því fram að það sé göfugt að leggja tilfinningarnar til hliðar þegar ákvarðanir eru teknar enda er það oftar en ekki hjartað sem finnur hvað er rétt og hvað er rangt.

Prev PostViðhorf: Fótbolti og ég
Next PostTæland: Þar sem allt er falt