Sunnudaginn 25. janúar, 2009 – Innlent – greinar

Varnarmál 

Stofnun verður til

1. júní sl. tók Varnarmálastofnun til starfa og hefur á sinni könnu verkefni sem ýmist eru kölluð varnartengd eða hernaðarleg. Deilt hefur verið um mikilvægi stofnunarinnar og hvort mögulega væri hægt að sinna sömu verkefnum fyrir minna fé. En um hvað snúast deilurnar?

Miðvikudaginn 15. mars 2006 tilkynnti Nicholas Burns, þáverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Geir H. Haarde, utanríkisráðherra Íslands, að Bandaríkin hygðust leggja niður herstöðina í Keflavík. Þótt vitað væri að Bandaríkjamenn vildu draga verulega úr viðbúnaði sínum kom ákvörðunin um að draga burt allt herlið íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu. Í hönd fóru miklar samningaviðræður um hvernig skyldi haldið á málum í framtíðinni. 

Eitt umfangsmesta verkefni Bandaríkjahers hér á landi var hernaðarlegt ratsjáreftirlit með geysistóru svæði, sem nær langt út yfir 12 mílna lofthelgi Íslands. Þau skilaboð komu frá bandarískum stjórnvöldum að engu skipti hvort slökkt yrði á hernaðarlega ratsjárkerfinu eða það rekið áfram. Því hefur verið haldið fram að þar hafi ekki aðeins hernaðarmat ráðið ferðinni heldur líka fjárhagslegir hagsmunir. Kerfið var dýrt í rekstri og Bandaríkjamenn vildu losna undan þeim fjárhagsskuldbindingum. Almennt þótti ekki ráðlegt að slökkva á öllum ratsjánum en því var m.a. velt upp hvort Bandaríkjamenn ættu að taka þær niður og að í staðinn yrðu keyptar ratsjár sem væru ódýrari í rekstri og næðu kannski ekki yfir svona gríðarlega stórt svæði. 

Sú hugmynd varð ofan á að halda í ratsjár Bandaríkjamanna og þá þurfti að ákveða hver ætti að sinna eftirlitinu. 

Aðeins tveimur vikum eftir að Burns tilkynnti um brottkvaðningu hersins hélt Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ræðu hjá Varðbergi þar sem hann sagði að eftirlitið með ratsjármerkjunum ætti að vera inni hjá flugumferðarstjórn og í vaktstöðinni í Skógarhlíð. Óþarfi væri að halda úti sérstakri vaktstöð til að sinna verkefninu. 

Næstu mánuði og allt fram til dagsins í dag hefur þessi útfærsla verið nefnd aftur og aftur og hefur Morgunblaðið undir höndum minnisblöð og greinargerðir þar að lútandi. Dómsmálaráðuneytið hafði forgöngu um að koma þessum tillögum á framfæri við utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið. Þær hefðu hins vegar falið í sér að forræðið á ratsjáreftirlitinu hefði færst frá utanríkisráðuneytinu, sem hafði haft hernaðarsamskipti við Bandaríkin á sinni könnu, og yfir til dómsmálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins. Það hugnaðist utanríkisráðuneytinu lítt.

15. júní 2006 lét Halldór Ásgrímsson af embætti forsætisráðherra og Geir H. Haarde tók við. Geir hélt hins vegar áfram samningaviðræðum við Bandaríkin en ekki hinn nýi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir. Að þessari vinnu komu Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi forsætisráðuneytisins í utanríkismálum, og Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Þeirra í millum varð til beinagrindin að Varnarmálastofnun, sem síðan varð að stjórnarfrumvarpi.

Geir vildi gjarnan að Bandaríkin og hugsanlega NATO tækju þátt í kostnaði við rekstur eftirlitsins. Því höfnuðu Bandaríkjamenn en féllust á að kosta eftirlitið fram til 15. ágúst 2007. Þá tóku Íslendingar við. Það haust var lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 þar sem gert var ráð fyrir 1.350 milljarða króna fjárútlátum til varnarmála, þar af 822 milljónum til reksturs ratsjáreftirlitsins. Þó var enn óljóst hvernig verkefninu yrði sinnt.

Eldveggur sem hvarf

Í einu minnisblaðanna sem Morgunblaðið hefur undir höndum, dagsettu 22. október 2007, er bent á að starfssvið Flugstoða og Ratsjárstofnunar skarist afar mikið og að lækka megi kostnað með því að endurskilgreina eftirlitshlutverk. „Frekari samvinna aðila sem sinna vöktunar- og viðbragðsþjónustu af hálfu hins opinbera gæti skilað enn frekari hagræðingu. Með því að nýta gagnasambönd og aðstöðu sem tengist loftvarnakerfinu mætti ná fram sparnaði hjá öðrum stofnunum. Með nýju fyrirkomulagi er talið raunhæft markmið að rekstrarkostnaður yrði 400-500 milljónir króna á ári,” segir í minnisblaðinu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra var hins vegar með aðrar hugmyndir og komu þær skýrt fram í ræðu hjá Samtökum um vestræna samvinnu, 27. nóvember 2007. „Mannvirki og búnaður [ratsjár]stöðvanna er eign NATO og um það eignarhald gilda strangar reglur sem Ísland sem aðildarríki verður að virða. Þetta setur hagræðingu með samruna við borgaralegar stofnanir hér heima verulegar skorður. Þá er og mikilvægt að greina skýrlega í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi. Þess vegna er miðað að því að setja sérstök lög um nýja varnarmálastofnun sem annist allan rekstur mannvirkja NATO á Íslandi, sjái um varnaræfingar og samskipti sem byggjast á öryggistrúnaði innan bandalagsins eða eru liður í samhæfðum viðbrögðum NATO-ríkja,” sagði Ingibjörg.

Þessi sjónarmið urðu ofan á innan ríkisstjórnarinnar og frumvarp til varnarmálalaga var lagt fram 15. janúar 2008.

Þá þegar hafði ratsjáreftirlitið verið í höndum Íslendinga í fjóra mánuði. Í greinargerð með frumvarpinu var lögð rík áhersla á herleysi Íslands og að þarna væri á ferðinni rammalöggjöf utan um verkefni sem Ísland þyrfti að sinna. Talað var um lagalegan eldvegg milli borgaralegra og varnartengdra verkefna. Þetta var til marks um togstreitu milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins og tilgangurinn var að tryggja að varnarmálastofnun færi ekki inn á verksvið dómsmálaráðuneytisins. Í tengslum við þetta var því ítrekað haldið fram að „hvarvetna í okkar heimshluta” væri borgaralegum verkefnum og störfum að landvörnum ekki blandað saman. Það er hins vegar ekki rétt. Meðal NATO-ríkja er nú lögð áhersla á náið samstarf stofnana á þessum sviðum, ekki síst þar sem hætturnar þykja margbreytilegri en þær voru á kaldastríðstímanum. Nærtækt dæmi er Danmörk þar sem litið er svo á að borgaralegar og hernaðarlegar stofnanir þurfi að geta stutt hverjar við aðra.

Eldveggur náði enda ekki ýkja hátt. Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis taldi ekki unnt að draga svo skýra línu milli þessara verkefna sem lúta að öryggis- og varnarmálum.

Björn Bjarnason áréttaði í umræðunum að frumvarpið breytti engu um störf borgaralegra öryggisstofnana, s.s. lögreglu og Landhelgisgæslu og taldi stofnun Varnarmálastofnunar ekki útiloka að ratsjáreftirlitið væri í höndum annarra borgaralegra stofnana.

Frumvarpið var samtals rætt í u.þ.b. fimm klukkustundir á Alþingi.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar laut einkum að því að ekki hefði verið haft þverpólitískt samráð auk þess sem Vinstri græn töldu að með frumvarpinu væri Ísland geirneglt í hernaðarsamvinnu við NATO. Utan þings heyrðust fleiri gagnrýniraddir, m.a. frá Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem taldi Varnarmálastofnun með öllu óþarfa. Hann greiddi þó atkvæði með frumvarpinu eins og þorri þingheims.

VG var eini flokkurinn sem sagði nei og lögin voru samþykkt 16. apríl 2008. Varnarmálastofnun tók svo til starfa 1. júní með þau meginverkefni að sinna ratsjáreftirlitinu, hafa samskipti við NATO og halda utan um heræfingar hér á landi og svonefnda loftrýmisgæslu.

Embættismenn og stjórnmálamenn hafa iðulega vísað til NATO-reglna um ýmis atriði, t.d. um hvernig framkvæma eigi ratsjáreftirlitið, hvernig byggingar eigi að vera og hvernig öryggisgæslu skuli háttað. Þórir Ibsen sagði í samtali við Morgunblaðið í nóvember sl. að aðeins broti af gögnunum sem ratsjáreftirlitið næmi væri deilt með Flugstoðum, þar sem önnur gögn væru á trúnaðarstigi. Til væru reglur um þetta hjá NATO. Orðrétt sagði Þórir: „Það er okkar lesning á þeim reglum að það henti ekki að Flugstoðir sinni þessu verkefni.”

Flugstoðir styðjast almennt við svonefnda svarratsjá en hún nemur merki sem flugvélar senda frá sér. Varnarmálastofnun á hins vegar einnig frumratsjá sem nemur alla umferð inni á svæðinu, þ.m.t. flugvélar sem slökkva á merkjasendum sínum. Samkvæmt upplýsingum frá Varnarmálastofnun fá Flugstoðir senda „unna vöru” þar sem t.d. er búið að greina hvað er ský og hvað flugvél.

Staðreyndin er hins vegar sú að Flugstoðir hafa aðgang að bæði merkjum frá frumratsjá og svarratsjá Varnarmálastofnunar og hafa haft frá upphafi. Íslensk stjórnvöld settu það sem skilyrði þegar samið var um ratsjárkerfið við Bandaríkjamenn á 9. áratugnum, að það nýttist líka við borgaralega flugumferðarstjórn. Flugstoðir vakta hins vegar ekki frumratsjárgögnin, enda er það ekki þeirra hlutverk heldur aðeins að stýra borgaralegri flugumferð.

Morgunblaðið hafði samband við NATO og fékk þær upplýsingar að bandalagið segði almennt ekki til um í hverra höndum ratsjáreftirlit aðildarríkjanna ætti að vera. Allir viti að Ísland sé herlaust og ratsjáreftirlitið hljóti því að vera í höndum borgaralegrar stofnunar. Það breyti litlu fyrir NATO hvort fjármagnið komi frá utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneyti eða fjármálaráðuneyti.

Allir sem vinna fyrir NATO þurfa að fá svonefnda NATO-vottun, sem er m.a. ætlað að sýna fram á að þeir kunni að fara með trúnaðarupplýsingar. „Það er ekki NATO sem veitir þá vottun heldur stjórnvöld í hverju aðildarríki,” benti viðmælandi Morgunblaðsins hjá NATO á en hann vildi ekki láta nafns síns getið.

Viðmælendur Morgunblaðsins hér á landi staðhæfðu líka að öll leyndarhyggja væri á undanhaldi hjá NATO og að bandalagið væri almennt sveigjanlegt þegar kæmi að mismunandi aðstæðum í aðildarríkjunum.

Rifrildi milli vasa ríkisins

Samkvæmt varnarmálalögunum á Varnarmálastofnun að annast rekstur, umsjón og hagnýtingu mannvirkja og annarra eigna NATO hér á landi. NATO styrkir gerð mannvirkja sem hafa þýðingu fyrir varnarstefnu bandalagsins en þegar Varnarmálastofnun tók til starfa hafði ekki verið skilgreint hvaða eignir ættu að tilheyra NATO.
19. júní 2008 birti utanríkisráðuneytið lista yfir eignir NATO víðs vegar um landið sem Varnarmálastofnun ætti að bera ábyrgð á. Listinn olli deilum þar sem á hann rötuðu byggingar o.fl. sem mannvirkjasjóður NATO hafði aðeins fjármagnað að litlum hluta, t.d. vegna endurbóta. Má þar nefna flugbrautir á Keflavíkurflugvelli sem NATO kostaði lagningu síðasta slitlagsins á, flugturninn, slökkvistöðina og hluta af ljósleiðarakerfi sem liggur hringinn í kringum Ísland. Utanríkisráðuneytið studdist þar við lista frá Bandaríkjaflota.

Í greinargerð sem Friðþór Eydal vann fyrir flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli á þessum tíma segir að fjölmörg mannvirki á flugvellinum sem gerð voru á kostnað Bandaríkjanna eða voru eign ríkissjóðs Íslands, hafi ratað á skrá Bandaríkjaflota. Tilgangurinn hefði að líkindum verið að auðvelda fjármögnun endurbóta í framtíðinni, þ.e. þannig að hægt væri að sækja fjármagn til NATO í því sambandi. Þannig er t.d. á listanum flugskýli sem var reist árið 1943, áður en NATO var stofnað.

Í áðurnefndri greinargerð segir: „Staðfest er af fulltrúa mannvirkjasjóðsins að bandalagið getur ekki sem slíkt átt nein óhreyfanleg mannvirki í einstökum bandalagslöndum. Þau teljast í öllum tilvikum eign gistiríkisins en herstjórn NATO á afnotarétt svo lengi sem þörf er á vegna sameiginlegs varnarbúnaðar,” segir í greinargerðinni og bent er á að engin endurskoðun á þörf NATO fyrir mannvirki hér á landi hafi farið fram. „Jafnframt er ljóst að teljist einhver þeirra hafa slíka þýðingu skapast hugsanlega grundvöllur fyrir fjármögnun bandalagsins á einhverjum endurbótum í framtíðinni í hlutfalli við notkun til varnarstarfsemi sem er umfram eigin þörf eða getu. Svar við því fæst ekki nema að undangenginni þarfagreiningu herstjórnar og samningi bandalagsins við gistiríkið Ísland,” segir í greinargerðinni.

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, gaf þær skýringar á eignalistanum að afnotaréttur NATO væri óbeinn eignarréttur og í samtali við Morgunblaðið 23. júlí 2008 sagði hann að viðræður milli ríkisins og bandalagsins um þessar eignir stæðu yfir en langan tíma tæki að afskrá NATO-mannvirki.

Einnig var opnað á það að Varnarmálastofnun gæti leigt út mannvirkin og sagði Grétar að þá sæi stofnunin um að innheimta greiðslur. Ætlast væri til þess að tekjurnar yrðu nýttar til reksturs og viðhalds eignanna.

Þessar hugmyndir eru enn uppi á borðum, m.a. um að Landhelgisgæslan fái afnot af 12 þúsund fermetra flugskýli á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Varnarmálastofnun myndi ávinningur stofnunarinnar felast í því að Landhelgisgæslan greiddi kostnað við rekstur byggingarinnar, sem nemur um 60 milljónum króna á ári, og þar með losnaði Varnarmálastofnun undan þeim byrðum.

Ekki eru fordæmi fyrir því að ríkisstofnanir hér á landi ráðstafi sjálfar húsnæði sem þær þurfa ekki á að halda. Þess ber að geta að báðar þessar stofnanir heyra undir ríkið og deilan um eignirnar á flugvellinum hefur raunar verið, eins og einn viðmælandi Morgunblaðsins orðaði það, „rifrildi milli vasa ríkisins”. Annar benti á að spyrja mætti hvort það þjónaði virkilega hagsmunum ríkisins að auglýsa öll þessi mannvirki sem NATO-eignir, þ.e. eignir bandalags sem getur ekki átt eignir. Þá var því velt upp hvort tilgangurinn hefði aðeins verið sá að fá tekjur til handa Varnarmálastofnun þannig að hún þyrfti ekki að sækja eins mikið fé af fjárlögum.

1.227 milljónir

Eftir að Varnarmálastofnun tók til starfa fjaraði umræða um fjármagn til hennar út, allt þar til íslenska bankakerfið hrundi. Þá var morgunljóst að eitthvað varð undan að láta í fjárlagavinnu fyrir árið 2009. Utanríkisráðherra tilkynnti að útgjöld til varnarmála yrðu 257 milljónum króna lægri en áætlað hafði verið og niðurskurðurinn átti m.a. að koma niður á loftrýmisgæslunni. Stjórnarandstöðuþingmenn vildu draga meira úr kostnaði við stofnunina og fóru þar fremst í flokki Vinstri græn, sem vildu helst leggja hana niður.

Ekki var það þó einvörðungu stjórnarandstaðan sem vildi draga úr þessum útgjöldum. Á vettvangi stjórnarráðsins hefur verið rædd tillaga sem lýtur að því að Flugstoðir taki við vöktun ratsjármerkjanna og að eftirlitinu verði sinnt samhliða annarri öryggisfjarskiptastarfsemi og neyðar- og öryggisvöktun á vegum dómsmálaráðuneytisins. Þá er gert ráð fyrir samstarfi við rekstur gagnatenginga og upplýsingakerfa og velt upp hugmyndum um að greiningardeildir ríkislögreglustjóra og Varnarmálaskrifstofu starfi saman. Með þessu móti er gert ráð fyrir ríflega 400 milljóna króna sparnaði. Þessar tillögur eru samkvæmt heimildum Morgunblaðsins enn til skoðunar.

En fjárlögin voru samþykkt og Varnarmálastofnun fær samkvæmt þeim 1.227 milljónir króna á næsta ári.

Í hnotskurn

  • Loftrýmiseftirlit kallast ratsjáreftirlitið með svonefndu loftvarnarsvæði Íslands en það nær að meðaltali í 150 mílna radíus í kringum landið.
  • Loftvarnarsvæðið er margfalt stærra en lofthelgin, sem nær aðeins um 12 mílur frá landi. 
  • Orðið loftrýmisgæsla er notað um viðveru erlendra herja hér á Íslandi og hafa þeir þá m.a. það hlutverk að fljúga til móts við óþekktar flugvélar sem koma inn á svæðið. 
  • Hjá Varnarmálastofnun eru 54 starfsmenn en hjá Ratsjárstofnun unnu talsvert fleiri eða um 84. 
  • 23 starfsmenn sinna ratsjáreftirlitinu. 16 eru á svonefndu mannvirkjasviði og sjö á öryggis- og upplýsingasviði. Aðrir eru á aðalskrifstofu.

NATO-ríki í loftrýmisgæslu

EITT af verkefnum Varnarmálastofnunar er að halda utan um svonefnda loftrýmisgæslu. Hún snýst um að NATO-ríki sendi hingað til lands liðssveitir sem sinna eftirliti með loftvarnasvæðinu og fljúgi m.a. til móts við óþekktar flugvélar sem koma inn á svæðið. Ákveðið var að hér á landi skyldi hún fara fram fjórum sinnum á ári, 2-3 vikur í senn og er það séríslensk lausn. 

Mikil áhersla var lögð á það af hálfu utanríkisráðuneytisins að loftrýmiseftirlit og -gæsla væri nauðsynleg. Var vísað til mikilvægis sýnilegra varna en nægilegt þótti að svo væri hluta úr ári. Síðan hafa bæði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, látið í veðri vaka að þetta fyrirkomulag megi endurskoða þegar niðurstaða starfshóps um áhættumat liggur fyrir. Starfshópnum var ætlað að skila af sér 1. september sl. 

Í áðurnefndri ræðu hjá Samtökum um vestræna samvinnu sagði Ingibjörg Sólrún íslensk stjórnvöld hafa leitað til NATO um mat á loftvörnum Íslands. Hermálanefndin hefði síðan skilað sínu mati. Í greinargerð með frumvarpinu er einnig vísað í meintar tillögur hermálanefndar NATO og það sama gerði Þórir Ibsen, þáverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, á kynningarfundi með blaðamönnum. 

Síðar kom í ljós að tillögurnar komu upphaflega frá íslenskum stjórnvöldum. Þegar Frakkar komu til Íslands fyrstir NATO-ríkja til að sinna loftrýmisgæslu sendi utanríkisráðuneytið frá sér fréttatilkynningu þar sem stóð: „Við ósk Íslands [leturbreyting Morgunblaðsins] um loftrýmisgæslu var tekið fram að ekki væri óskað eftir stöðugri viðveru heldur færi gæsla fram að jafnaði fjórum sinnum á ári 2-3 vikur í senn.” 

Hefðbundnar varnir víkja

Í flutningsræðu með frumvarpinu sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra: „Á meðan Ísland hefur ekki enn sjálft byggt upp þá sérfræðilegu þekkingu sem er grundvöllur mats á varnarþörf ber að byggja á mati NATO.” 

Í samtali við Morgunblaðið 29. október 2008 þegar rætt var um að fækka skiptum sem loftrýmisgæsla færi fram vegna efnahagshrunsins og milliríkjadeilu við Breta, sagði hún hins vegar um gæsluna: „Það var fyrir okkur gert, en ekki greiðasemi við NATO-þjóðirnar. Við verðum að meta það út frá okkar hagsmunum hvort við teljum þörf á þessu eða ekki. Ég tel sjálfgefið að miðað við stöðu mála núna og þá áherslu sem við hljótum að leggja á efnhagslegar varnir, og þá fjármuni sem við setjum í þær, séu þessar hefðbundnu varnir eitthvað sem við hljótum að skoða. Aðrar varnir eru í forgangi núna.” 

Að lokum var ákveðið að draga úr loftrýmisgæslu við strendur Íslands. Meginástæðan var að Bretar voru næstir í röðinni að sinna verkefninu hér á landi í desember 2008 en íslenskir ráðamenn höfðu sent frá sér ólíkar yfirlýsingar um hvort æskilegt væri að þeir sinntu þessu eftirliti eftir að hafa beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum vegna Icesave-deilunnar. 

Fugl í hendi eða skógi?

Sparnaðartillögurnar sem hafa verið til umræðu hafa að hluta verið unnar af Neyðarlínunni. Utanríkisráðuneytið hefur sagt tillögurnar vanbúnar og að grunnforsendur vanti í kostnaðaráætlunina. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði þær vera fugl í skógi en ekki í hendi og að fyrir þeim væri ekki sannfæring í utanríkisráðuneytinu. 

Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, segist hins vegar standa við þær tölur sem fram koma í minnisblaðinu og leggur þunga áherslu á að þær séu byggðar á traustum upplýsingum. 

Þær raddir hafa heyrst, m.a. frá utanríkisráðuneytinu, að Þórhallur vilji aðeins auka umsvif fyrirtækisins sem hann rekur. Sögunni fylgir að fjárhagsstaða Neyðarlínunnar sé bág. Sú skýring hefur verið dregin í efa. 

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir það misskilning ef menn hafi haldið að áform hans væru að Neyðarlínan tæki við hlutverki Varnarmálastofnunar. Innan Neyðarlínunnar sé hins vegar þekking á þessum málum vegna samhæfingarhlutverks hennar og segist Björn hafa notið ráðgjafar Þórhalls við mat á æskilegri þróun þessara mála, eins og svo margra annarra. „Ég tel Landhelgisgæslu Íslands best til þess fallna að gegna lykilhlutverki af Íslands hálfu á þessu sviði og öllu er lýtur að öryggisgæslu á N-Atlantshafi. Gæslan hefur alla burði til að taka þátt í því tengslaneti sem fellur að íslenskum hagsmunum og þeirri staðreynd að hér eru engir starfsmenn ríkisins sem sinna hermennsku,” segir Björn og leggur áherslu á að miðað við kröfur um hagræðingu í ríkisrekstri eigi Keflavíkurflugvöllur að falla óskiptur undir samgönguyfirvöld. Landhelgisgæslan geti svo fengið aðstöðu þar og tekið yfir verkefni Varnarmálastofnunar. 

Þarf að skapa starfsfrið

Þórður Ægir Óskarsson, núverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir ljóst að setjast þurfi niður og fara vandlega yfir allar þær tillögur sem liggja uppi á borðum. Binda þurfi enda á deilur milli ráðuneyta til að skapa starfsfrið í málaflokknum. 

Ætla má að þessi mál verði rædd út þegar samgönguráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og utanríkisráðuneytið leiða saman hesta sína undir forystu dómsmálaráðuneytisins í leit að hagræðingu í málaflokkum sem varða siglingar, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirlit, sjúkra- og neyðarflug, sjómælingar og rannsóknir í hafi.

Misskilin hagræðissjónarmið

Þetta er bara ágiskun,” segir Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar, um þær sparnaðartillögur sem hafa verið settar fram og lúta að verkefnum stofnunarinnar. „Það var ekki leitað eftir upplýsingum frá okkur eða utanríkisráðuneytinu og heldur ekki fyrrum Ratsjárstofnun. Mér finnst gagnrýnin sem hefur verið á þessa stofnun, eða misskilin hagræðissjónarmið, hafa lotið að því að menn eru að tryggja sér upphefð á faglegan kostnað,” bætir hún við. 

Ellisif Tinna bendir á að tekin hafi verið ákvörðun um að Ísland sé í NATO og því fylgi ákveðnar leikreglur. Fylgja þurfi stöðlum og uppfylla öryggiskröfur, þ.m.t. varðandi meðferð ratsjármerkjanna sem Varnarmálastofnun hefur eftirlit með. „Þess vegna er ekki hægt að reka þetta eftirlit innan borgaralegra stofnana nema með því að gera borgaralegu starfsemina að varnartengdri starfsemi eða að hætta að keyra þetta sem varnartengda starfsemi og gera þetta allt borgaralegt. En þá hættum við líka að fá merkin og það er gagnslaust að reka tæki sem ekkert kemur á. Íslendingar eru ekki með her en samstarfsaðilar okkar utanlands eru herir. Varnarmálastofnun er borgaraleg stofnun með varnartengt hlutverk,” segir Ellisif Tinna og svarar því aðspurð að ekki séu dæmi um það innan NATO að borgaralegar stofnanir sinni ratsjáreftirliti. Hins vegar séu dæmi um að stofnanir með varnartengd hlutverk sinni borgaralegu eftirliti. Þannig væri t.a.m. mögulegt fyrir Varnarmálastofnun að fylgjast með borgaralegu flugi samhliða sínum verkefnum. Þó er að sögn Ellisifjar Tinnu ekki víst að mikill sparnaður hlytist af því þar sem ekki væri hægt að reka eftirlitið alveg samhliða. Aðrir menn myndu að líkindum sinna borgaralega hlutanum 

50 milljarða kerfi

Ellisif Tinna segir að upphaflega hugmyndin hafi verið að færa starfsemi úr Skógarhlíð suður á Miðnesheiði. Þeirri hugmynd hafi verið snúið á hvolf og lagt til að starfsemi Varnarmálastofnunar færi til Reykjavíkur. Það gangi hreinlega ekki upp. Strangar reglur gildi um ratsjáreftirlitið, þ.m.t. varðandi byggingar, aðgengi að þeim og öryggisgæslu á svæðinu. „Flest ríki eru með aðskilnað milli innra og ytra öryggis. Það er yfirleitt gert til að ekki verði til of valdamiklar stofnanir þannig að einn til tveir karlar tróni á toppnum og ráði öllu eins og einræðisherrar,” segir Ellisif Tinna. „Kerfið sem við erum að reka er metið á um 50 milljarða króna. Þetta er ekki okkar kerfi heldur erum við að passa það fyrir NATO,” bætir hún við og bendir á að Bandaríkjamenn hafi heldur ekki verið eigendur þessa kerfis, þrátt fyrir að stjórnvöld vestra hafi látið sem svo væri. 

Rússar á sveimi

Á svipuðum tíma og Íslendingar tóku við ratsjáreftirlitinu úr höndum Bandaríkjamanna tilkynnti Vladímír Pútín, þáverandi forseti Rússlands, að rússneski herinn myndi að nýju hefja reglubundið hernaðarlegt æfingaflug, en það hafði að mestu legið niðri frá tímum kalda stríðsins. Ein af flugleiðunum liggur í gegnum íslenska loftvarnarsvæðið, annaðhvort framhjá Íslandi eða í kringum það. Þetta flug er ekki ólöglegt þar sem ekki er farið inn í sjálfa lofthelgina en hún nær um 12 mílur frá landi. Herflugvélar fljúga vanalega í annarri hæð en aðrar vélar og borgaralegu flugi ætti því ekki að stafa hætta af. Engu að síður leggja flugmálayfirvöld áherslu á að geta fylgst með allri umferð um svæðið. 

Rússnesku sprengjuflugvélarnar slökkva á sendum sem svonefndar svarratsjár nema en þær eru nýttar til að hafa eftirlit með borgaralegu flugi. Varnarmálastofnun ræður hins vegar yfir frumratsjá og ferðir vélanna sjást á henni. Rússar eru þeir einu sem fljúga inn á loftvarnarsvæðið og hafa gert það sautján sinnum frá því að íslenska ríkið tók ratsjáreftirlitið yfir.