Sunnudaginn 23. nóvember, 2003 – Innlendar fréttir

Umdeilt lagafrumvarp um að kaup á vændi verði ólögleg

Miklar umræður hafa spunnist um hvort kaup á vændi skuli vera ólögleg í þingheimum, sem og hjá almenningi.
Skiptar skoðanir eru um hvernig lagasetningu varðandi vændi skuli háttað en þrjú sjónarmið virðast eiga mestu fylgi að fagna. Í fyrsta lagi að kaup á vændi verði ólögleg, í öðru lagi að vændi verði með öllu löglegt og í þriðja lagi að kaup og sala séu ólögleg. Halla Gunnarsdóttir kynnti sér málið og forvitnaðist um ólíka afstöðu fólks.

Umræðan um vændi hefur sjaldan verið eins mikil á Íslandi og undanfarið en nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp þess efnis að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Vændi er ólöglegt á Íslandi í dag sé það stundað til framfærslu og getur refsingin verið allt að tveggja ára fangelsi. Þá er ólöglegt að hafa atvinnu eða viðurværi af lauslæti annarra. Þessi lög hafa staðið óbreytt frá árinu 1940 en í Hæstarétti hafa einungis fallið fjórir dómar sem lúta að vændi.

Lagafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi felur í sér að sektarbyrðinni verði aflétt af þeim sem stunda vændi og að þeir sem greiði fyrir kynlífsþjónustu verði sekir fyrir lögum og geti átt yfir höfði sér fangelsi að allt að tveimur árum. Í frumvarpinu er orðinu lauslæti skipt út fyrir orðið vændi og orðalaginu “hefur atvinnu eða viðurværi af lauslæti annarra” breytt í “hefur tekjur af milligöngu um vændi annarra”. Einnig er lagt til að það sé refsivert að stuðla að því að fólk sé flutt úr landi eða til landsins í því skyni að það taki þátt í hvers kyns klám- eða kynlífsiðnaði.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að árlega sé verslað með hundruð þúsunda kvenna og barna um allan heim og áætlað er að tekjur glæpahringa af starfseminni jafngildi um 7 milljörðum Bandaríkjadala á ári. “Kaup á kynlífi og kynlífsþjónustu er gróf valdbeiting, kynferðislegt ofbeldi, þar sem valdastaða þess sem kaupir, selur eða hefur milligöngu um þjónustuna er staða hins sterka,” segir í greinargerðinni. Þar kemur einnig fram að í Svíþjóð sé frumvarpið að skila sér í minnkandi mansali en um 500 kaupendur vændis hafa verið dæmdir til að greiða sekt eftir að lögin tóku gildi þar í landi árið 1999.

Lagafrumvarpið er lagt fram af þingmönnum úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki en það er misjafnt hversu víðtækur stuðningur er við það innan flokkanna. Þó er ljóst að frumvarpið á hljómgrunn innan allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins en margir þingmenn vilja engu að síður fara aðrar leiðir eða breyta frumvarpinu.

Frumvarpið óskýrt

Þónokkur gagnrýni hefur komið fram á frumvarpið og hugmyndafræðina á bak við það. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir til dæmis ámælisvert að markmið frumvarpsins sé að senda skilaboð eins og fram kom í máli fyrsta flutningsmanns og að auki sé texti frumvarpsins óskýr. “Ég ætla ekki að gera neinar tillögur um breytingar á þessu frumvarpi, því að ég tel að það hafi fyrst og fremst umræðugildi til að varpa ljósi á vandamál, sem er miklu brýnna úrlausnarefni annars staðar en hér á landi, þótt vissulega sé mikilvægt hér að huga vel og skipulega að öllum þáttum þessara mála.” Björn segir jafnframt að til að berjast gegn mansali skipti mestu að halda uppi góðu eftirliti á landamærum og að Ísland sé meðal annars aðili að alþjóðasamningum og samstarfi til að ná betri árangri á þessu sviði. “Mestu skiptir að við högum öllum aðgerðum í samræmi við aðstæður hér á landi, um leið og haft er auga á alþjóðlegri þróun í einstökum ríkjum, eins og til dæmis Svíþjóð,” segir Björn.

Jónína Bjartmarz, einn flutningsmanna frumvarpsins, segir að til standi að gera ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Helsta breytingin sem hún ætlar að leggja til snýr að því að skipta orðinu kynlífsþjónusta út fyrir vændi og skilgreina hugtakið vændi í greinargerð sem fylgi með frumvarpinu. Að auki verði refsiramminn fyrir kaupendur vændis athugaður betur og gert ráð fyrir að hægt sé að ljúka þessum málum með sektum. “Aðalmarkmiðið okkar er ekki að refsa þeim sem kaupir vændi heldur að ná til þeirra sem gera sér þetta að féþúfu. Lög eru sett til að vera viðbragð við tilteknu ástandi eða tilteknum þjóðfélagsbreytingum sem við viljum hafa áhrif á,” segir Jónína. 

Mikil umræða í þjóðfélaginu

En það eru ekki aðeins þingmenn og ráðherrar sem mynda sér skoðun á málinu heldur hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu og á veraldarvefnum. Í heildina virðast þrjú sjónarmið ráða ferðinni. Í fyrsta lagi eru þær hugmyndir að vændi skuli með öllu löglegt, öðru lagi að kaupandi skuli vera sekur en ekki seljandi og í þriðja lagi að kaupandi og seljandi séu sekir.

Ungar konur í Sjálfstæðisflokknum buðu í síðustu viku Petru Östergren, sænskum mannfræðingi, til landsins til að kynna athuganir sínar á sænskum vændiskonun en Samband ungra sjálfstæðismanna kostaði förina. Östergren hélt fyrirlestur fyrir fullu húsi í Norræna húsinu en sl. vor lauk hún við mastersritgerð sína þar sem meðal annars var komið inn á stöðu vændiskvenna í Svíþjóð. Að hennar sögn hefur veruleiki vændiskvenna harðnað og vanlíðan þeirra aukist eftir að lögin tóku gildi. Hún sagði jafnframt að þeir, sem stunduðu vændi, væru sjaldnast spurðir álits þegar pólitískar ákvarðanir um vændi væru teknar en það hlyti að teljast nauðsynlegt að leyfa rödd þeirra að heyrast.

Tveimur dögum eftir að Östergren heimsótti Ísland buðu 14 aðilar, mestmegnis kvennasamtök, Thomasi Ekman til landsins. Kristínarsjóður, sem er sjóður á vegum Stígamóta helgaður baráttunni gegn vændi, borgaði undir Ekman til landsins en hann er yfirmaður teymis lögreglunnar í Gautaborg sem vinnur gegn mansali og vændi. Að hans sögn er lögreglan í samstarfi við vændiskonur og hann sagði m.a. að mansal og vændi héldist alltaf hendur þar sem kúnninn gæti aldrei vitað um hvort væri að ræða. Sjálfur hittir hann reglulega fólk í vændi í starfi sínu en telur sig aldrei hafa hitt manneskju sem stundar vændi af fúsum og frjálsum vilja.

Ritgerðin fjallar ekki um sænsku leiðina

Þessar tvær heimsóknir sýna eflaust vel hversu víðtækur áhugi er fyrir málefninu og í kjölfar þeirra hafa ýmsir látið í sér heyra.

Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur gagnrýnir þá umfjöllun sem ritgerð Petru Östergren hefur fengið og segir mikilvægt að hafa í huga að Östergren fjalli í raun ekki um vændi eða reynsluna af sænsku vændislögunum. “Ritgerðin fjallar um þjóðerniskennd Svía sem Petra er mjög gangrýnin á. Hún notar tvö atriði til að skoða þessa hugmyndafræði. Það fyrra er ófrjósemisaðgerðir sem gerðar voru í Svíþjóð á árunum í kringum 1965 en Petra vill meina að þessi stefna stjórnvalda hafi verið til þess að efla sænska þjóðarvitund. Hitt atriðið sem hún skoðar er vændi og vændisumræða í Svíþjóð sem að hennar mati spilar inn í sænska þjóðarvitund.” Auður segir Östergren vera með litla rannsókn á vændiskonum í ritgerðinni sem hún noti sem mótvægi við aðra umræðu um vændi í Svíþjóð. “Við verðum að athuga það að konurnar sem hún talar við eru allar fæddar í Svíþjóð nema ein. Hún er ekki með fyrirfram ákveðnar spurningar heldur lét þeim eftir að lýsa skoðunum sínum. Konurnar hafa allar haldið sig fjarri félagsmálaþjónustu og margar þeirra stunda vændi af og til svo það virðist sem þær hafi eitthvert val um þetta.” Auður bendir á að rannsóknir sýni fram á að mestur hluti fólks í vændi sé þar vegna neyðar, t.d. vegna bágra félagslegra aðstæðna og eða eiturlyfjaneyslu. “Það var þessi meirihluti sem varð til þess að Svíar tóku þá ákvörðun að fara þessa leið. Mér sýnist Petra vera þarna með einhvers konar jaðarhóp vændiskvenna. Það þarf því að fara varlega í það að draga ályktanir af þessari rannsókn,” segir Auður.

***

Sunnudaginn 23. nóvember, 2003 – Innlendar fréttir

Vændi á að vera löglegt

Bann við vændi er til þess fallið að skapa meiri vanda en það leysir að mati Gunnlaugs Jónssonar í Frjálshyggjufélaginu. “Við höldum að það sé auðveldara að koma í veg fyrir mansal ef vændi er löglegt. Við leggjum m.a. til að vændisfólk geti fengið vottorð svo kaupendur geti gengið úr skugga um að viðkomandi sé í þessu af fúsum og frjálsum vilja eða hvort þetta er nauðung.” 

Gunnlaugur vill ekki meina að kaupendum vændis sé alveg sama hvort einstaklingur í vændi sé að selja sig af frjálsum vilja eður ei. “Þegar ég fer í bakarí fer ég ekki bara til að kaupa brauð. Ef ég fengi einhverjar grunsemdir um að afgreiðslufólk væri beitt harðræði eða að það væri ekki frjálst í að stunda þá atvinnugrein þá held ég tvímælalaust að mér væri ekki sama.”

Gunnlaugur bendir á að vændi sé afleiðing en ekki orsök félagslegrar nauðar. “Við munum ekki laga hina félagslegu neyð með því að banna vændið. Stundum hefur það verið notað sem rök að vændisfólk sé í félagslegri neyð og þess vegna sé þetta ekki frjálst val. Að vændisfólkið neyðist til þess að taka þennan kost vegna þess að hinn kosturinn, að lenda í miklum fjárhagskröggum, sé enn verri. Það er engin lausn að neyða fólkið til að taka þennan verri kost með því að banna því að taka þann kost sem því finnst skárri,” segir Gunnlaugur og bætir við að það sé heillavænlegra að einblína á vandamálið sjálft en að einblína á orsök þess.

Ekki okkar að meta

“Við erum ekki hrifnir af vændi en við útilokum það ekki að til sé fólk sem vill stunda vændi en við gerum okkur fulla grein fyrir því að vændi er vondur kostur fyrir marga og margir neyðast út í vændi. Við lítum hins vegar ekki á það sem okkar hlutverk að meta það fyrir annað fólk hvort þetta sé ákjósanlegur lífsstíll.”

Að mati Gunnlaugs þarf líka að taka tillit til þess að sumir einstaklingar geti ekki orðið sér úti um kynlíf með öðrum hætti t.d. vegna fötlunar eða annars slíks. “Þeirra besta leið er kannski að borga fyrir það og við teljum okkur ekki vera þannig yfir þetta fólk hafin að við segjum þeim að það megi ekki stunda þetta.”

Gunnlaugur vill ekki að bundið sé í lög að þriðji aðili megi ekki hafa tekjur af milligöngu um vændi. “Við erum algjörlega á móti öllu mansali og öllum þrældómi. Ég held reyndar að það geti verið gott ef vændiskonum sé heimilt að ráða til sín einhvers konar verndara, til að berjast gegn ofbeldi. Ég held að það sé hætt við því að ef þriðja aðila er ekki heimilt að hagnast á vændi að vændiskonur neyðist til að leita til misjafnra einstaklinga um þá þjónustu sem ekki bera hag þeirra fyrir brjósti.”

Sunnudaginn 23. nóvember, 2003 – Innlendar fréttir

Kaup á vændi eiga að vera ólögleg

LÖG um vændi eins og þau eru í dag, þannig að eingöngu sá sem selur vændi er sekur, eru gjörsamlega úr takti við samfélagið sem við lifum í að mati Jónínu Bjartmarz, þingmanns Framsóknarflokks og eins flutningsmanna frumvarpsins.

LÖG um vændi eins og þau eru í dag, þannig að eingöngu sá sem selur vændi er sekur, eru gjörsamlega úr takti við samfélagið sem við lifum í að mati Jónínu Bjartmarz, þingmanns Framsóknarflokks og eins flutningsmanna frumvarpsins. Jónína bendir á að yrði lagaákvæðið fellt úr gildi stæðum við frammi fyrir því að lögleiða vændi. “Það er í mínum huga það alversta sem við getum gert vegna þess að þá erum við að opna upp á gátt fyrir mansali.” Jónína vill meina að langflestir þeirra sem stunda vændi á Íslandi séu fórnarlömb í einhverjum skilningi; fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, fíkniefnaneytendur og jafnvel andlega vanheilt fólk. “Fólk getur lent í ýmsu sem skaðar möguleika þess til að eiga val. Ef við ætlum að heimila kaup á vændi stöndum við ekki vörð um þessa einstaklinga.” 

Hvað varðar þá hugmynd að báðir aðilar séu sekir segir Jónína að þá sé sá möguleiki að sá aðili sem selji sig beri vitni, til að mynda ef hann er beittur ofbeldi, ekki fyrir hendi. “Það er svo örstutt á milli vændis og mansals. Það er ekki hægt að gera stóran greinarmun á þeim sem seldir eru mansali og þeim sem seldir eru og milliliðir hagnast á þó að það sé ekki yfir landamæri. Landamæri eru ekki hugtaksatriði í mansali. Í báðum tilvikum er einhver aðili sem er að gera sér félagslegar eða andlegar aðstæður fólks að tekjulind,” segir Jónína og bætir við að komist manneskja sem hefur verið seld til lögreglu sé mikið auðveldara að eiga við málið ef hægt er að bjóða henni stöðu vitnis heldur en að henni sé boðin staða sakbornings. 

Hamingjusama hóran ráði ekki ferðinni

“Þessi hamingjusama hóra sem margir segjast þekkja er ekki sá aðili í vændisumræðunni sem ég hef mestar áhyggjur af. Ef við ætlum alltaf að taka mið að því að það séu þessar konur sem ráða ferðinni erum við að bregðast þeim sem þurfa á verndinni að halda,” segir Jónína. “Spurningin er hvernig við ætlum að sporna við vændi, að mannslíkaminn sé markaðsvara og hvernig við ætlum að sporna við mansali í alþjóðlegu samhengi. Þá hljótum við að setja niður þessar mismunandi leiðir og meta út frá því hvaða leið eigi að fara.”

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, flutti nokkrum sinnum frumvarp þess efnis að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð á síðasta kjörtímabili en nú hefur hún fengið stuðning úr fleiri flokkum og lagt frumvarpið fram í breyttri mynd. Hún bendir á að samkvæmt fjölda rannsókna og bóka sem ritaðar hafi verið um vændi sé óhætt að skilgreina það sem ofbeldi. “Það er undantekning ef einstaklingur velur sér að stunda vændi. Ég tel að öryggisnet samfélagsins eigi að vera það þéttriðið og virðing fyrir mannlegri reisn það mikil að enginn eigi að þurfa að hafa vændi sem sinn eina framfærslumöguleika. Ef það er sameiginlegt verkefni okkar sem rekum þetta samfélag að uppræta ofbeldi í samfélaginu og vinna gegn því þá er það skylda okkar að vinna á sama hátt gegn vændi,” segir Kolbrún og bætir við að það sé samfélagsleg ábyrgð að bjóða fólki sem annars myndi leiðast út í vændi upp á aðra möguleika.

***

Sunnudaginn 23. nóvember, 2003 – Innlendar fréttir

Höfum okkar þekkingu frá fólki sem hefur verið í vændi

Rúna Jónsdóttir hjá Stígamótum um vændi

FÓLK sem leitað hefur til Stígamóta vegna vændis hefur kennt starfskonum þar heilmikið um veruleika vændis.

FÓLK sem leitað hefur til Stígamóta vegna vændis hefur kennt starfskonum þar heilmikið um veruleika vændis. Rúna Jónsdóttir, starfskona hjá Stígamótum, segir að því fleiri manneskjur sem leiti sér hjálpar hjá Stígamótum vegna kláms og vændis því augljósara verði að bregðast þurfi við vændi eins og öðru kynferðisofbeldi. Stígamót eru eini aðilinn hér á landi sem gefur sig út fyrir að sinna fólki sem hefur verið í vændi en á fyrstu 11 mánuðum þessa árs hafa Stígamót haft afskipti af 18 aðilum sem hafa verið í vændi. Stígamót hafa verið virk í að efla umræðu um vændi og hafa m.a. boðið til sín sérfræðingum frá Evrópu og Bandaríkjunum og sent eigin fulltrúa á ráðstefnur og í heimsóknir í vændisathvörf í öðrum löndum. 

Að mati Rúnu endurspeglar leiðrétting á vændislögunum aukna þekkingu og skilning á kynferðisofbeldi. “Síðastliðin 20 ár hefur umræðan um kynferðisofbeldi snúist um ofbeldið sjálft og þær konur sem verða fyrir því. En ef við ætlum að ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi þurfum við að hafa af því heildarmyndina og beina athyglinni að þeim sem bera ábyrgð á því, það er að segja ofbeldismönnunum. Því meira sem við heyrum og lærum um vændi því augljósari eru tengslin á milli vændis og annars kynferðisofbeldis.” 

Rúna segir að smátt og smátt sé að byggjast upp þekking hjá Stígamótum á vændi og umhverfi þess. “Það sem þetta fólk hefur kennt mér er að vændi er í sjálfu sér ofbeldi en þar að auki fylgi því mikið annað ofbeldi eins og tíðari nauðganir og líkamlegt ofbeldi. Að auki eru afleiðingarnar af vændi mjög sambærilegar við annað kynferðisofbeldi. Á vondum dögum finnst mér eins og hlutverk okkar sé að halda þessu fólki á lífi.” 

Rúnu finnst því undarlegt að Petra Östergren skuli setja fram gagnrýni þess efnis að ekki sé tekið mið af þörfum vændiskvenna við lagasetningu. “Sú hugmyndafræði sem sænska leiðin byggist á sýnir svo mikinn skilning á aðstæðum vændiskvenna eins og þær birtast okkur hér hjá Stígamótum.”