Íranskar konur

Sunnudaginn 24. apríl, 2005 – Innlent – greinar

Sterkar konur í feðraveldi

Miklar stjórnarfarsbreytingar urðu í Íran á 20. öldinni. Breytingarnar höfðu að sjálfsögðu umtalsverð áhrif á daglegt líf fólks og þá kannski sérstaklega kvenna enda eru konur oft notaðar sem ímynd heilu þjóðanna. Halla Gunnarsdóttir fjallar hér í máli og myndum um íranskar konur og segir frá kynnum sínum af þeim.

m1m2

m3m4

 

Þær minna á ofurhetjur sem sveipa sig svörtum skikkjum og líða áfram út í buskann. Ég ímynda mér þær takast á flug til að bjarga fólki í nauð. Þær kallast þó kannski frekar hversdagshetjur og ég veit lítið um björgunaraðgerðir þeirra. Þær eru íranskar konur.

Áður en ég fór til Írans var ég nokkrum sinnum spurð hvort ég þyrfti að vera með blæju fyrir andlitinu eins og konurnar í Íran. Eftir mánaðar ferðalag um landið hef ég aðeins séð þrjár konur bera blæju, þar af voru tvær giftar múllum sem eru klerkar og yfirvald um leið. Ég þarf hins vegar að bera slæðu eins og lög kveða á um en slæðulaus írönsk kona á yfir höfði sér tugi svipuhögga. Útlenskar konur eru þó líklega aðeins sendar úr landi fyrir sama brot.

Íranskar konur eru langt frá því að vera einsleitur hópur. Sumum líkar vel við slæðuna, öðrum ekki. Sumar biðja þrisvar sinnum á dag að hætti shíta múslima, aðrar biðja aldrei. Sumar ganga eingöngu í svörtum fötum, aðrar minna helst á regnboga, slík er litagleðin.

Klárar pæjur

Zahöru og vinkonum hennar í helgustu borg shíta múslima í Íran, Mashad, var lýst fyrir mér sem dæmigerðum írönskum stelpum. Ótilneyddar myndu þær aldrei ganga í sjador sem er einhvers konar svart lak sem konur sveipa sig og halda saman með höndunum eða tönnunum.

Zahara og vinkonur hennar neyðast þó til að fylgja landslögum og ganga í buxum eða pilsi og jakka sem nær vel niður fyrir rass („hejab“). Þær eru vel stæðar og klæða sig eftir því. Fötin eru þröng, slæðan fest listilega vel þannig að hún hylji sem minnst hár og það er greinilegt að þær eyða miklum tíma í andlitsfarða á hverjum degi. Varaliturinn þeirra er ekki merki um undirgefni við útlitsdýrkun, hann er yfirlýsing. „Steitment“ um að yfirvöld ráði ekki yfir þeim og muni aldrei ráða yfir þeim þrátt fyrir að alla ævi hafi þær búið við linnulausan áróður um að farði hæfi ekki siðprúðum, ógiftum stúlkum.

Þessar ungu konur hreyfa sig nánast aldrei og annars fjögurra tíma fjallganga tók sjö tíma enda gátu þær hvorki gengið upp né niður án þess að skrækja heil ósköp. Þær minntu á nýfædda kálfa sem geta ekki fótað sig en kálfarnir eru kannski ekki eins hræddir við að reyna og þær voru. Það hvarflaði ekki að þeim að bera bakpoka eða nokkurn hlut, ekki á meðan karlmaður var nálægt sem gat séð um það.

Um leið og þær koma inn í hús taka þær slæðuna niður. Þær heilsa körlum með handabandi en írönsk kona á ekki að snerta neinn nema ættingja sína og eiginmann. Þær dansa í partíum, daðra og drekka áfengi ef þær komast í það. Þær taka ekki til sín áróðurinn sem hefur dunið á írönskum konum síðustu 26 árin um hvernig siðprúðar stúlkur eiga að haga sér.

Þessar konur eru klárar. Þær eru vel menntaðar, tala ensku og helmingur þeirra vill komast burtu frá Íran. Einni hefur tekist það. Þeirra helsti möguleiki er að giftast Írana sem er búsettur í Evrópu. Að sjálfsögðu aðeins með samþykki fjölskyldunnar þó. Þegar þær horfa á karlmenn spá þær fyrst í hvort þeir eru ríkir og sterkir. Það er erfitt að áfellast þær vitandi að þær eiga allt undir tilvonandi eiginmönnum sínum komið. Skilnaðir eru fátíðir og langt frá því að vera félagslega samþykktir.

Og refsaði faðir þinn þér?

Ég hitti Nazi fyrst á markaði í Shiraz en þá borg heimsækja flestir Íranir einhvern tíma á lífsleiðinni til að skoða grafhýsi ástsælasta skálds þjóðarinnar, Hafez, og til að gera sér ferð að hinum sögufræga stað Persepolis. Ég var á markaðnum í þeim tilgangi að kaupa mér siðsamlega flík, þ.e. síðan jakka, enda var ég orðin þreytt á að vefja slæðu um mig miðja til að brjóta ekki landslög með því að vera „bara“ í buxum.

Enginn talaði ensku en Nazi kom allt í einu út úr þvögunni og bauð fram aðstoð þrátt fyrir að hún kynni aðeins tölurnar og stöku orð. Með hennar hjálp keypti ég flík og við áttum mjög takmarkaðar samræður. Hún spurði mig á hvaða hóteli ég væri en þar sem ég mundi það ekki sagði ég bara götuheitið.

Daginn eftir hringdi síminn á herberginu og ung stúlka sagðist vera niðri í afgreiðslu til að hitta mig. Undrandi sveipaði ég slæðunni um höfuðið og rölti niður. Þar stóð Nazi ásamt dóttur sinni Zaidu. Zaida sagðist lengi hafa þráð að tala við útlending og að hún væri sérlega hamingjusöm að hitta mig.

Þær vildu koma með mér upp á herbergi en ég sagði að eiginmaður minn lægi þar veikur og bauð þeim á kaffihús hótelsins í staðinn. Ég var orðin vön því að segjast vera gift ferðafélaga mínum enda gæti okkur annars verið meinað að deila herbergi.

Zaida talaði ágæta ensku og þýddi allt samviskusamlega fyrir móður sína. Þær höfðu mikinn áhuga á Evrópu og stöðu evrópskra kvenna. Þær spurðu ótal spurninga um meint brúðkaup mitt og sennilega laug ég meira í þessu tveggja tíma spjalli okkar en ég hef gert í nokkur ár. Ég sagði þeim að við hefðum orðið ástfangin og ákveðið að gifta okkur. Þeim var gersamlega fyrirmunað að skilja að faðir minn hefði ekki komið neitt að þeirri ákvörðun og ég ákvað að láta það ógert að útskýra fyrir þeim að faðir minn hefði ekki alið mig upp og að systur mínar fjórar væru hálfsystur mínar. Þær spurðu mig hvort ég hefði plokkað augabrúnirnar fyrir giftingu og hvort ég hefði gengið með farða. Þær spurðu hvort eiginmaður minn hefði áður verið kærasti minn og hvernig hann hefði borið bónorðið upp við foreldra mína. Svör mín gengu öll út á að útskýra að ég réði mér nokkurn veginn sjálf, hvort sem ég væri gift eða ekki, og Zaida endurtók sömu spurninguna: „And did your father punish you?“

Ég útskýrði fyrir þeim að á Íslandi væri ólöglegt að lemja börnin sín eða maka sinn og að líkamlegar refsingar væru heldur ekki lögbundnar eins og í Íran. En hvernig gat ég útskýrt að þrátt fyrir það væri heimilisofbeldi eins algengt og raun ber vitni hér á landi? Í Íran er bilið milli óskráðra reglna samfélagsins og lagabókstafs, milli menningarlegs siðgæðis og lagalegs siðgæðis, ekki nærri eins breitt og hér.

Zaida hefur átt nokkra kærasta með vitneskju móður sinnar en hún myndi aldrei segja föður sínum frá því. Þá yrði henni refsað. Hann bannar henni að nota farða og Zaida hlakkar til að gifta sig því þá má hún loksins plokka á sér augabrúnirnar, með leyfi eiginmannsins að sjálfsögðu.

Ég útskýrði fyrir þeim sjálfstæði mitt. Að ég væri í minni vinnu og „eiginmaðurinn“ í sinni vinnu. Ég ætti mína peninga og hann sína. Þær sögðu að þannig myndi það aldrei virka í Shiraz ef kona ynni úti. Karlinn tæki laun konunnar og sæi um að ráðstafa peningunum. Þeim fannst það eðlilegt því að hjón væru í raun ein manneskja.

Ég spurði varfærnislega út í stjórnmál landsins. Þær sögðu ástandið mjög slæmt og að yfirvöld hugsuðu ekki um fólkið í landinu. Þess vegna væri mikil fátækt. Þeim var líka illa við að þurfa að bera slæðu. Nazi litar á sér hárið og lætur sjást í mikla hárrönd. Zaida má ekki lita á sér hárið. Ekki fyrr en hún giftir sig.

„En hvað viljið þið í staðinn fyrir ajatollah?“ spurði ég en ajatollah er æðsti trúarleiðtogi shítamúslima og þar af leiðandi hæstráðandi í Íran. Zaida svaraði strax: „Ég veit það ekki. Kannski George Bush.“ Þegar hún tók eftir undrunarsvipnum á andliti mínu spurði hún hvort ég vildi ekki fá Bush sem forseta míns lands. Ég svaraði neitandi og hún varð jafnvel meira undrandi en ég. „Af hverju ekki? Er hann ekki góður forseti? Mér finnst eins og hann hugsi um fólkið í landinu sínu, þótt honum sé kannski ekki mikið gefið um önnur lönd,“ sagði Zaida hugsandi og hélt áfram: „Ég sé ameríska fólkið í sjónvarpinu. Það er hamingjusamt, það grínast, það hlær. Mig langar að vera eins og það og hafa allt sem það hefur.“ Hvernig gat ég útskýrt að sjónvarpið gæfi kannski ekki alveg rétta mynd af Bandaríkjunum eins og þau leggja sig? Ekki frekar en sjónvarpið hefur fram til þessa gefið mér rétta mynd af Íran.

Þegar samtalið var farið að þynnast út sagðist ég þurfa að fara vegna veikinda eiginmanns míns. „Er hann reiður af því að þú ert að tala við okkur?“ spurðu þær skilningsríkar. Það kom á mig og þá sögðu þær skilningsríkar og klöppuðu mér á axlirnar: „Þetta er allt í lagi. Við skiljum.“

Daginn eftir hringdi Zaida í mig og kvaddi mig með mjög háfleygum dramatískum orðum. Þá var „eiginmaðurinn“ minn farinn og hún spurði hvort ég saknaði hans. Ég svaraði játandi og þá sagði hún með barnslegri einlægni, þeirri sömu og þegar hún skildi ekki að ég vildi ekki Bush sem forseta Íslands: „Why?“

Ósáttar við sjadorinn

Þegar ég hitti Maríu og Goliu í Kashan, einni af íhaldssamari en um leið einni fallegustu borg Írans var ég nokkurn veginn búin að móta mér skoðun á stöðu kvenna í Íran. Allir, bæði konur og karlar, sem ég hafði talað við voru sammála um að staða kvenna væri slæm þótt svörin væru misvel rökstudd. Oftast nefndi fólk slæðuna eða þá staðreynd að konur geta ekki auðveldlega stundað íþróttir en ég fékk lítið af svörum þegar ég spurði um ofbeldi gegn konum, kynbundinn launamun, barnagiftingar eða skilnaði.

María bjó í Englandi í sex ár en flutti til baka þegar hún var fimmtán ára eftir að faðir hennar hafði lokið námi. Hún og Golia eru báðar í enskunámi við háskólann í Kashan. Þær klæddust báðar sjador en sögðust hata flíkina. „Það er enginn sem segir að við verðum að vera í þessu en Kashan er lítil borg þar sem allir fylgjast með öllum. Ef ég gengi ekki í sjador myndi fólk gaspra um það að ég væri ekki sérlega góð stúlka,“ sagði María en faðir hennar er háttsettur maður svo það er vissara fyrir hana að haga sér vel.

Þær eiga báðar gsm-síma en sögðu að það væri ekkert rosalega algengt í háskólanum. Þær eiga líka góðan karlkyns vin úr háskólanum sem þær eyða miklum tíma með. Þær komu fyrir sem sjálfstæðar, ungar konur sem hafa lagt mikið á sig til að komast í háskóla og stefndu ótrauðar til Teheran til að mennta sig meira. En inntökuprófin í háskólana eru erfið. María sagði opinberu háskólana vera mjög góða. „Einkaskólarnir eru dýrir og síðan eru til svona skólar sem eru að hluta til einkaskólar en að hluta til opinberir. Það fer enginn í einkaskóla nema hann komist ekki inn í opinberu skólana.“

Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar. Nú fengi ég sterka gagnrýni á stöðu íranskra kvenna. Þær töluðu jú góða ensku og voru með ákveðnar skoðanir. Golia var málglaðari og sagði mér frá því þegar hún stal málningardóti móður sinnar og puntaði föður sinn lítillega þar sem hann lá í fastasvefni. Á sama tíma og hann vaknaði var bankað á dyrnar. Málningin fór ekki af hversu mikið sem hann skrúbbaði. „Mamma átti náttúrlega bara alvöru málningarvörur sem haldast á andlitinu í lengri tíma,“ sagði hún og hló.

„Konur eru tilfinningaverur“

Ég var því nokkuð örugg þegar ég spurði þær um stöðu kvenna í Íran.

Þær vildu vita hvað mér fannst en ég beitti öllum mínum sjarma til að fá þær til að tjá sig enda hitti ég ekki oft konur sem tala reiprennandi ensku. Svarið kom mér á óvart.

„Konur og karlar eru jöfn í Íran. Það eina sem aðskilur okkur er þetta,“ svaraði Golia og benti á fötin sín. Þær sögðust vera sáttar við slæðuna þótt þeim væri illa við sjadorinn og sögðu hana vernda sig. Ég vildi nánari útskýringar og þá sagði María: „Ef þú ert að vinna á vinnustað með körlum þá gerist eitthvað. Þú veist það alveg sjálf, það gerist eitthvað. Slæðan verndar okkur fyrir því.“ Ég átti erfitt með að skilja svarið og fannst eins og þær gerðu engan greinarmun á því hvort það sem „gerðist“ væri með eða án þeirra vilja. Öll snerting við karlmann fyrir giftingu er af hinu illa.

Ég spurði hikandi út í álit þeirra á blóðpeningum en ef manneskja er myrt skal fjölskylda morðingjans greiða fjölskyldu fórnarlambsins ákveðna upphæð. Upphæðin er helmingi lægri ef fórnarlambið er kona. Golia sneri út úr með því að tala um arf og þá staðreynd að dætur erfa aðeins helming á við syni nema kveðið sé á um annað í erfðaskrá. „Fyrst þegar ég heyrði þetta fannst mér mikil ósanngirni í þessu. En ef þú hugsar þetta lengra þá er það þannig hér í Íran að þegar konur giftast þarf karlinn að borga þeim mikla peninga sem þær síðan eiga og mega ráðstafa að vild. Ef konur erfðu jafnmikið og karlar væru þær komnar með miklu meiri peninga,“ sagði Golia ákveðin og María kinkaði kolli til samþykkis. Þær voru komnar í vörn. Ég velti fyrir mér hvers vegna þjóðernið virtist skipta miklu meira máli en kyn í samræðum okkar. Ég var fyrst og fremst Vesturlandabúi en þær Íranir. Ég lét því eins og hún hefði verið að birta mér mikil sannindi með þessum orðum, til þess að fá hana til að tala meira. „En hvað finnst ykkur um það að vitnisburður konu sé aðeins helmingur á við vitnisburð karls fyrir rétti?“ spurði ég og minntist þess að hafa heyrt að til þess að sanna samkynhneigð (sem er að sjálfsögðu refsivert athæfi!) þurfa tveir karlar eða fjórar konur að bera vitni. Alltaf byrjuðu svörin eins. „Já, mér fannst þetta líka skrítið fyrst þegar ég heyrði það en ef þú spáir í það þá eru konur miklu meiri tilfinningaverur en karlar. Þeir hugsa rökréttar, ekki satt?“ Ég sagðist vera ósammála en bað hana að halda áfram. „Konur gráta t.d. oftar,“ sagði hún til útskýringar. Ég minntist á tilfinningar eins og reiði, afbrýðisemi og hatur. Spurði um morð, rán og nauðganir. Golia var komin í of mikla vörn til að halda áfram. Hún breytti um umræðuefni.

***

Sunnudaginn 24. apríl, 2005 – Innlent – greinar

Íslamska byltingin gjörbreytti daglegu lífi kvenna

Sumar konur ganga í þröngum fötum og tylla slæðunni listilega vel svo hún hylji sem minnst hár.

 

ÖFGAKENNDAR stjórnarfarsbreytingar hafa alltaf mikil áhrif á daglegt líf fólks. Ef trúarbrögð eiga þátt í breytingunum verða áhrifin á líf kvenna oft mjög afgerandi.

ÖFGAKENNDAR stjórnarfarsbreytingar hafa alltaf mikil áhrif á daglegt líf fólks. Ef trúarbrögð eiga þátt í breytingunum verða áhrifin á líf kvenna oft mjög afgerandi. Þannig skelltu talibanarnir í Afganistan búrkum yfir konurnar og svo var ætlast til að þær fleygðu þeim þegar Bandaríkin réðust inn í landið.

Fyrir íslömsku byltinguna í Íran, árið 1979, var réttindabarátta kvenna í nokkuð góðum farvegi. Konur fengu kosningarétt árið 1963 eftir þrjátíu ára baráttu. Nokkrum árum síðar voru svonefnd fjölskylduverndarlög (Family Protection Law) samþykkt en þau fólu meðal annars í sér að skilnaðir voru auðveldari og fjölkvæni takmarkað, m.a. þannig að fyrsta eiginkona þurfti að gefa samþykki sitt fyrir annarri eiginkonu. Giftingaraldur var hækkaður í átján ár og þótt fóstureyðingar hefðu aldrei verið leyfðar voru sektir vegna þeirra felldar niður.

Á þessum tíma litu írönsk stjórnvöld mjög til Vesturlanda, líkt og Tyrkland. Múhameð Reza keisari, sem tók við af föður sínum Reza Khan, gerði allt hvað hann gat til að þóknast bandarískum yfirvöldum. Lög voru sett sem bönnuðu konum að ganga í „sjador“ (n.k. svart lak sem þær sveipa yfir höfuðið og nær niður á tær) og konur voru hvattar til að nota ekki slæðu og til að klæða sig á vestrænan hátt. Samfélagið var mjög markaðsvætt en um leið var því stýrt með harðri hendi. Fjölskyldugildin voru á undanhaldi og stefna stjórnvalda langt frá vilja almennings. Lengst gekk keisarinn þegar hann kom í gegn lögum um að Bandaríkjamenn í Íran skyldu undanþegnir írönskum lögum.

Giftingaraldur lækkaður í níu ár

Það var því ekki að ástæðulausu að Ayatollah Khomeini, æðsti klerkur múslima í landinu, fékk ótrúlegt fylgi þegar hann sneri til baka úr útlegð árið 1978. Konur og karlar á öllum aldri tóku þátt í byltingunni, allt frá hörðum lenínistum og yfir í íslamska harðlínumenn. En konurnar sem tóku þátt hefur eflaust ekki órað fyrir því sem á eftir kom.

Fyrsta árið eftir byltinguna voru ýmsar grasrótarhreyfingar starfandi en sumarið 1980 voru þær bannaðar með tilheyrandi aftökum. Fjölskylduverndarlögin voru samstundis afnumin og konur skyldaðar til að ganga annaðhvort í sjador eða í „hejab“ en það þýðir að auk þess að hylja allan líkamann og hárið skyldu konur klæðast jakka sem nær vel niður fyrir rass eða alveg niður að tám.

Gifingaraldurinn var fljótlega lækkaður niður í níu ár enda þótti sumum klerkum æskilegt að karlar flyttu eiginkonur sínar á heimili sitt um níu ára aldur svo þær yxu úr grasi í sínu rétta umhverfi. Stúlkur þurfa jafnframt að byrja að hylja hár sitt og klæðast „siðsamlega“ um leið og þær ná giftingaraldrinum.

Konur máttu ekki lengur þvælast einar og þurftu alltaf að vera í fylgd ættingja eða eiginmanns. Siðgæðislögreglan fylgdist vel með siðsamlegu lífi þegna sinna og refsingar fyrir brot voru líkamlegar, oft í formi svipuhögga. Farði var með öllu bannaður og komið var í veg fyrir öll „óæskileg“ samskipti kynjanna.

Allt er betra en skilnaður

Vinsæl kvennablöð í Íran ýta sérstaklega undir hefðbundnar ímyndir kynjanna og fjölskyldugildin eru mun mikilvægari en réttindi kvenna. Konum er jafnvel ráðlagt að skilja alls ekki við ofbeldisfulla eiginmenn sína en leita frekar leiða til þess að „reita þá ekki til reiði“. Allt er betra en skilnaður.
En íranskar konur láta ekki segjast. Um leið og siðgæðislögreglan slakaði á eftirliti sínu fóru margar hverjar að ganga um með farða og í þröngum fötum. Þær eru nú meira en tveir þriðju hlutar háskólanema og leggja mikið á sig til að standast ströng inntökupróf. Þrátt fyrir það eru þær aðeins 11% launþega í landinu en það verður spennandi að sjá í framtíðinni hvort menntun gagnist írönskum konum meira en kynsystrum þeirra á Íslandi sem enn þurfa að sætta sig við lægri laun og ábyrgðarminni stöður en karlkyns kollegar þeirra.

Heimildir

Lewis, Jone Johnson. „Iran – Gender roles. Encyclopedia of Women’s History.“ Vefslóð: http://womenshistory.about.com/library/ency/blwh_iran.htm

Lonely Planet: Iran. 2004.

Price, Massoume. „A Brief History of Women’s Movements in Iran.“ Vefslóð: http://www.iranonline.com/History/women-history/2.html

Prev PostÍran: Áramót í landi gestrisninnar
Next PostKynbundið ofbeldi: Grein úr 19. júní