Grein um heilbrigðismál
Birtist í Sunnlenska 8. apríl 2009

Lítum orðlaus um öxl

Að loknum fundi Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra, með starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um breytingar á áformuðum niðurskurði þann 24. mars sl. sagðist einn starfsmanna stofnunarinnar vera orðlaus. Ljóst var orðið að ekki þyrfti að skerða fæðingar- og skurðþjónustu á svæðinu en sérstakri nefnd hafði verið falið að fara yfir hvernig stofnunin gæti haldið sig innan fjárlagaramma án þess að þurfa að draga úr þessari þjónustu. Þennan sama dag skilaði Samband sunnlenskra kvenna 4.297 undirskriftum þar sem skorað var á heilbrigðisráðherra að falla frá áformum um lokun skurðstofunnar.

Orðleysi starfsmannsins var til komið vegna þess að í árafjöld hafði viðkomandi barist fyrir hag sinnar stofnunnar en ósköp sjaldan upplifað að baráttan breytti nokkru um.

Í þetta skiptið skilaði baráttan hins vegar árangri.

Sunnlendingar eiga sannarlega hrós skilið fyrir þá mikla elju sem þeir sýndu til að standa vörð heilbrigðisstofnunina og að sama skapi færði starfsfólkið miklar fórnir til að unnt væri að komast hjá skerðingu þjónustu á staðnum. Það væri óskandi að geta sagt að baráttunni væri lokið en svo er því miður að öllum líkindum ekki. Framundan er mikil varnarbarátta fyrir velferðarkerfið í heild sinni en dæmin frá öðrum löndum sýna að þegar skórinn kreppir að er fljótt farið að saxa á grunnstoðir velferðarþjónustunnar. Slíkar aðgerðir geta valdið óbætanlegum skaða og orðið til þess að afleiðingar kreppunnar verða langvinnari og dýrari.

Velferðarmál eru atvinnumál

Atvinnuleysi getur haft slæm áhrif á heilsufar og það skyti skökku við ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjölda uppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni. Velferðarmál eru þannig um leið atvinnumál og atvinnumál eru velferðarmál.

Til að árangur náist í varnarbaráttunni fyrir heilbrigðisþjónustuna þarf samstöðu, jafnt innan kerfis sem utan. Aðhaldsaðgerðir eru vissulega óhjákvæmilegar á tímum sem þessum og sums staðar geta þær verið sársaukafullar. Ákvarðanir verða hins vegar að taka mið af reynslu þeirra sem á starfa á hverju svæði fyrir sig.

Samstaða í baráttunni

Ábyrg samstaða á borð við þá sem starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og íbúar á svæðinu sýndu í verki á síðustu mánuðum er fyrirmyndin þegar kemur að þeirri baráttu sem framundan er. Stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna. Þá getum við litið orðlaus um öxl seinna meir.

Höfundur er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra