Grein að loknum Alþingiskosningum
Birtist á Smugunni 29. apríl 2009

Staksteinar og Vinstri græn

Ef Staksteinahöfundur Morgunblaðsins væri ein manneskja væri mikil ástæða til að hafa áhyggjur af viðkomandi. Ekki aðeins vegna þess hversu klofin og tvístígandi hún hlyti að vera í hinum ýmsustu málum heldur líka vegna mikillar þráhyggju út í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Þráhyggju sem kom m.a. fram í því að vikuna fyrir kosningar fjölluðu Staksteinar um Vinstri græn í fimm af sjö skiptum. Á sjálfan kjördag helguðu Staksteinar málflutning sinn jafnframt Vinstri grænum og í fyrstu Staksteinum eftir að úrslit kosninganna urðu ljós, þ.e. í dag mánudaginn 27. apríl, um hvað er þá fjallað? Jú, VG.

Óttaáróður og innantóm loforð

Staksteinahöfundur dagsins hefur miklar áhyggjur af því að Vinstri græn glutri niður tækifærinu til stjóranarmyndunar og telur VG almennt alltaf klúðra lokaspretti kosningabaráttu. Þetta er áhugaverð söguskýring í ljósi þess að í síðustu tveimur þingkosningum hafa Vinstri græn unnið stórsigur. Staksteinar hefðu hins vegar gjarnan viljað stærri sigur. Leitt að kjósendur hafi brugðist þeim vonum.

En klúðruðu Vinstri græn kosningabaráttunni?

Kannski má líta svo á. Vinstri græn ráku nefnilega kosningabaráttu á eigin verðleikum en ekki með óttaáróðri eða útúrsnúningum á málflutningi annarra. Vinstri græn spörkuðu ekki í samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn og létu líka vera að sparka í liggjandi Sjálfstæðisflokkinn. Að sama skapi gáfu Vinstri græn ekki innantóm og óraunhæf kosningaloforð um niðurfellingu skulda, ný álver eða engar skattahækkanir. Þannig ráku Vinstri græn heiðarlega kosningabaráttu og létu verkin tala. Vinstri græn hafa sýnt að hægt er að vera stjórnmálaafl án þess að vera peningamaskína. Og það var líka hægt í „því umhverfi sem þá var” eins og þingmenn og talsmenn flokka hafa orðað það, inntir eftir því hvers vegna tekið var við himinháum styrkjum vegna prófkjörs- eða kosningabaráttu.

Sumum finnst kannski að Vinstri græn hefðu átt að beita klækjum og spila inn á ótta fólks. Mér finnst það ekki.

Sígandi lukka er best

Annars eru áhyggjur Staksteinahöfundar af því að VG verði ekki í ríkisstjórn einkar áhugaverðar miðað við tóninn sem var í Staksteinum fyrir kosningar. Af þeim mátti ekki ráða að höfundi þætti sérstaklega eftirsóknarvert að fá VG í ríkisstjórn. En þessi klofni tónn er orðinn alvanalegur í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins og þess vegna er gott til þess að vita að það er ekki bara einn maður sem heldur á ritstjórnarpennanum.

Staksteinahöfundar ættu að geta sofið rólegir, minnugir þess að sígandi lukka er best. Og Vinstri græn eru bara rétt að byrja.