Grein um vændislöggjöf
Birtist á Smugunni 19. apríl 2009

Tíu ára barátta að baki

Alþingi samþykkti á sínum síðasta starfsdegi í bili, þann 17. apríl 2009, frumvarp um að kaup á vændi skuli vera refsiverð. Þetta er stór áfangi í kvenréttindabaráttu á Íslandi, sem og almennri baráttu fyrir mannréttindum. Lög þessi urðu ekki til í tómarúmi á síðustu dögum Alþingis þetta vorið heldur er um afrakstur tíu ára baráttu að ræða.

Árið 1999 settu Svíar, fyrstir ríkja, vændislög þar sem kaupandinn er dreginn til ábyrgðar. Hér á Íslandi giltu á þeim tíma mjög undarleg lög um vændi þar sem refsivert var að stunda vændi sér til framfærslu. Sektin lá því hjá vændiskonunni eða -karlinum en kaupandinn var í fullum rétti. Hvergi var að finna skilgreiningu á hversu miklar tekjur manneskja mætti hafa af því að selja aðgang að líkama sínum til að það gæti kallast „til framfærslu”. Kvennahreyfingin barðist mjög fyrir breytingu á vændislöggjöfinni og byggði röksemdir sínar á þeim ótal skýrslum sem fyrir liggja um nöturlegan veruleika vændis. Ekki verður farið nánar út í þær hér.

Fyrst rætt árið 2001

Árið 2000 var í fyrsta sinn lagt fram frumvarp á Alþingi um hina svonefndu sænsku leið. Flutningsmenn voru tvær þingkonur Vinstri grænna, Kolbrún Halldórsdóttir og Þuríður Backman. Málið fékkst ekki rætt en var lagt fram aftur ári síðar og þá bættist Steingrímur J. Sigfússon í hóp flutningsmanna. Þá tókst að fá málið á dagskrá en þó með því samkomulagi að það yrði aðeins rætt í takmarkaðan tíma. Kolbrún flutti málið og auk hennar tóku til máls Þuríður Backman og svo Samfylkingarkonurnar Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Málið var sent til allsherjarnefndar en kom aldrei þaðan út.

Sagan endurtók sig árið eftir en vorið 2003 greip Kolbrún tækifærið þegar frumvarp um kynferðisbrot gegn börnum og mansal var til afgreiðslu á Alþingi og flutti breytingartillögu um sænsku leiðina. Aðeins níu þingmenn greiddu atkvæði með breytingartillögunni, þ.e. allir þingmenn Vinstri grænna, auk Guðjóns A. Kristjánssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigríðar Jóhannesdóttur. Aðrir viðstaddir þingmenn Samfylkingar sátu hjá en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sögðu nei.

Þetta vor fóru fram þingkosningar og þegar nýtt þing kom saman haustið eftir aflaði Kolbrún víðtæks stuðnings við frumvarpið. Jónína Bjartmarz, þáverandi þingmaður Framsóknarflokks og varaformaður allsherjarnefndar, hvatti mjög til þess að allar konur á þingi sameinuðust um málið og úr varð að þingkonur allra flokka nema Sjálfstæðisflokks voru flutningsmenn.

Á þessum tíma var Halldór Blöndal forseti Alþingis. Málið rataði inn á dagskrá 30. október 2003 en var heldur aftarlega og ekki þóttu miklar líkur á því að umræða færi fram. Jóhanna Sigurðardóttir tók hins vegar, sem varaforseti þingsins, ákvörðun um að færa málið framar á dagskrá við litla hrifningu Sjálfstæðismanna.

Við þessa umræðu tjáðu þingkarlar sig í fyrsta skipti um málið, þ.e. þeir Ágúst Ólafur Ágústsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Magnús Þór Hafsteinsson. Að sama skapi var þetta í fyrsta skipti sem stjórnarliðar tóku til máls um sænsku leiðina. Ásta Möller og Drífa Hjartardóttir voru einar Sjálfstæðismanna á mælendaskrá. Ásta var ósátt við að málið skyldi hafa verið tekið fram fyrir önnur dagskrármál þar sem hún hefði ekki haft færi á að kynna sér það og Drífa gerði athugasemdir við að hnýtt væri í Sjálfstæðiskonur fyrir að hafa ekki verið með á málinu.

Mikil þjóðfélagsumræða

Það er greinilegt af þingumræðunum að hin nýtútkomna mynd, Lilja 4ever, hafði mikil áhrif á viðhorf fólks til vændis og mansals. Vændisfrumvarpið hlaut að sama skapi mikla umræðu í þjóðfélaginu og má fræðast um hana í umfjöllun undirritaðrar sem birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember 2003.

Margareta Winberg, þáverandi jafnréttisráðherra Svíþjóðar, kom til landsins í boði kvennahreyfingarinnar og lýsti málinu eins og það horfði við sænskum stjórnvöldum. Ungt fólk úr Sjálfstæðisflokknum brá þá á það ráð að bjóða mannfræðingnum Petru Östergren til landsins en hún hélt því fram að vændiskonur í Svíþjóð hefðu það verra eftir að ný vændislöggjöf tók gildi. Um röksemdir Östergren má lesa hér.

Auður Styrkársdóttir gagnrýndi þá umfjöllun sem koma Petru Östergren fékk og benti á að fullyrðingar sínar byggði Östergren á meistararitgerð, sem fjallaði raunar ekki um vændi heldur um sænska þjóðerniskennd.

Skömmu síðar stóðu fjórtán kvennasamtök að komu sænska lögreglumannsins, Thomasar Ekman, til landsins og hafði hann allt aðra sögu að segja en Östergren eins og lesa mátti um í umfjöllun Morgunblaðsins.

Umræðan var því lífleg en á Alþingi beið þung barátta. Málinu var vísað til allsherjarnefndar og þá þurfti að finna leið til að láta það ekki sofna þar.

Jónína Bjartmarz var sem fyrr segir varaformaður allsherjarnefndar og auk hennar áttu þrír stuðningsmenn frumvarpsins sæti í nefndinni. Vandinn var hins vegar sá að til að ná frumvarpinu út úr nefndinni þurfti meirihluti nefndarmanna að fallast á það, eða fimm af níu nefndarmönnum. Sjálfstæðismennirnir Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir voru ekki líkleg til að leggja málinu lið en Sigurjón Örn Þórðarson, þingmaður Frjálslyndra, fékkst til að styðja málið, með fyrirvara þó en aldrei kom fram hver hann var.

Á þessum tíma var óvíst hvort þingmeirihluti væri fyrir málinu en kvennahreyfingin og þær þingkonur sem að frumvarpinu stóðu settu allt kapp á að málið yrði tekið á dagskrá þannig að hægt væri að greiða um það atkvæði. Þær vonir urðu að engu. Frumvarpið var aldrei tekið til annarrar umræðu.

Björn Bjarnason alltaf á móti

Vonbrigðin hafa verið töluverð því að ekki var lagt fram sérstakt frumvarp aftur fyrr en vorið 2007. Kolbrún Halldórsdóttir var þá eini flutningsmaður málsins og það var aldrei tekið á dagskrá. Þetta sama vor var kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hins vegar breytt og bann við kaupum á vændi rataði inn í viðamikla breytingartillögu frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, Björgvini G. Sigurðssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Þá lá fyrir að meirihluti þingmanna myndi greiða atkvæði með því að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð. Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, var hins vegar alltaf harður andstæðingur sænsku leiðarinnar og í loftinu lá að kannski yrði allt kynferðisbrotafrumvarpið fryst ef breytingartillagan yrði ekki borin til baka. Þetta setti baráttufólk fyrir bættri réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis í talsverðan vanda því að í frumvarpinu fólust miklar réttarbætur og hafði það verið ítarlega rætt á þingi. Hefði frumvarpið ekki orðið að lögum á þessum tíma hefði þurft að leggja það fram að nýju um haustið og þá fyrir nýtt þing, enda voru kosningar á næsta leiti.

Úr varð að flutningsmenn treystu sér ekki til að bera fram breytingartillöguna um sænsku leiðina og hún var því ekki tekin til atkvæða. Hins vegar voru greidd atkvæði um aðrar breytingartillögur og m.a. samþykkt að kynferðisbrot gegn börnum skyldu vera ófyrnanleg.

Með breytingum á kynferðisbrotakaflanum var ákvæðið um bann við að stunda vændi sér til framfærslu hins vegar numið úr gildi og hefur því verið haldið fram að þannig hafi vændi raunar verið lögleitt. Áfram var þó ólöglegt að gerast milliliður í vændissölu og að sama skapi voru innleiddar refsingar við því að auglýsa vændi opinberlega.

Mótrök hvergi reifuð

Kolbrún gafst ekki upp og haustið 2007 lagði hún frumvarpið enn einu sinni fram á Alþingi ásamt samflokksfólki sínu og þingmönnum bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Málið var tekið á dagskrá í janúar 2008 en að Kolbrúnu undanskilinni tók aðeins Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, til máls. Að því er virðist var þetta eina skiptið sem Björn tjáði sig um sænsku leiðina í ræðu á Alþingi. Að sama skapi vekur athygli að hvergi er til þingskjal sem reifar rök gegn sænsku leiðinni. Einu mótrökin á vettvangi þingsins voru því í áðurnefndri ræðu Björns og svo frá Ástu Möller, bæði úr umræðunni árið 2003 og þegar málið var samþykkt á þingi föstudaginn 17. apríl 2009.

Aðgerðaáætlun gegn mansali

Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við stjórnartaumunum voru mál er varða mansal flutt frá dómsmálaráðuneytinu og yfir í félagsmálaráðuneytið. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, skipaði hóp til að vinna aðgerðaáætlun gegn mansali. Innan þess starfshóps spratt umræða um hvort kveða ætti á um sænsku leiðina í aðgerðaáætluninni en ekki náðist um það sátt, einkum vegna þess að fulltrúar bæði dómsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í nefndinni lögðust gegn því. Þegar ríkisstjórnin sprakk og ný stjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var mynduð kom hins vegar annað hljóð í strokkinn og 17. mars sl. kynnti félagsmálaráðherra nýja aðgerðaáætlun þar sem skýrt kom fram að kaup á vændi ættu að vera refsiverð.

Þá þegar hafði Atli Gíslason, þingmaður VG, lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi og var það í fyrsta sinn sem Kolbrún Halldórsdóttir var ekki flutningsmaður, enda hún komin á annan vettvang í embætti umhverfisráðherra.

Þeir sögðu nei

Eins og venjulega var á síðustu starfsdögum Alþingis mikið þrefað bak við tjöldin um hvaða mál ættu að komast í gegn og hvaða mál skyldu fá að daga uppi. Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegar haldið úti miklu málþófi til að stöðva breytingar á stjórnarskránni og hefði varla viljað leggja í annan eins slag gegn vændisfrumvarpinu.

Samkomulag náðist um að taka vændisfrumvarpið til atkvæða og var það afgreitt með hraði út úr allsherjarnefnd. Frumvarpið var samþykkt með 27 atkvæðum þingmanna VG, Samfylkingar, Framsóknar og Frjálslyndra. Sjálfstæðismenn sátu hjá, að undanskildum þremur en það voru Björn Bjarnason, Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson. Þeir sögðu nei. Enginn þeirra gaf skýringu á mótatkvæði sínu og aðeins einn þeirra, þ.e. Björn Bjarnason, hafði nokkru sinni tjáð sig um málið í þingsal.

Eftir tíu ára þrotlausa baráttu íslensku kvennahreyfingarinnar eru kaup á vændi loks orðin refsiverð. Næsta skref hlýtur að snúa að því að gera lögregluna færa um að fylgja þessum lögum eftir.

 

ES.
Eftir að greinin birtist bárust ábendingar um að í greinargerð með
kynferðisbrotafrumvarpinu frá árinu 2006 eru kostir og gallar sænsku
leiðarinnar reifaðir en niðurstaða frumvarpshöfundar, Ragnheiðar
Bragadóttur, var að ekki ætti að fara sænsku leiðina í bili. Eins og
áður segir var þá að líkindum meirihluti fyrir sænsku leiðinni í
þinginu en komið var í veg fyrir að þingmenn fengju að greiða atkvæði
um það.