Grein um menntamál
Birtist á Múrnum 17. september 2004

Vítahringur kjarabaráttu kennara

Grunnskólakennarar eru að öllum líkindum á leið í verkfall. Það er ekki í fyrsta sinn en þó fjarri því að það sé alltaf að gerast eins og mörg vilja meina. Hins vegar er það rétt að oft hefur komið til tals innan kennarastéttarinnar að grípa þurfi til verkfalls til þess að fá kjör sín leiðrétt.

Því er stundum haldið fram að kennara langi agalega mikið í verkfall. Þar sjái þeir fram á enn eitt fríið til þess að slappa af og dunda sér. Það gleymist þó að þeir verða fyrir verulegu launatapi svo það verður að teljast ólíklegt að þeir hafi efni á dýrum utanlandsferðum eins og oft er haldið fram. Launin eru ekki það góð fyrir.

Í síðustu kjarasamningum sömdu grunnskólakennarar af sér. Vinnuskyldan var aukin svo um munar en það verður að teljast undarlegt að tala um launahækkun þegar bætt er við óteljandi tímum í vinnu.

Helstu launahækkanirnar voru fyrir ákveðinn aldurshóp sem Kennarasambandið leit á sem meðaljónuna. Í stað þess að hækka laun allra kennara var ákveðið að hækka laun eldri kennara en unga fólkið sat eftir. Lífaldur skiptir meiru máli í kennara- og leikskólakennarastétt en í nokkurri annarri stétt. Þannig hefur 23 ára gamall kennari 30-40 þúsund krónum lægri grunnlaun en kennari milli fertugs og fimmtugs burtséð frá allri reynslu.

Afleiðing þessara kjarasamninga var augljós. Ungir kennarar voru ósáttir við kjarasamingana og margir samnemendur mínir úr Kennaraháskólanum sneru sér að öðrum störfum. Hins vegar bönkuðu sums staðar upp á kennarar með 20-30 ára gömul kennarapróf og var þeim fagnandi tekið enda um réttindakennara að ræða. Ekki fer miklum sögum af endurmenntun og nýjar kennsluaðferðir lutu í lægra haldi þrátt fyrir góðan vilja þessara kennara.

Eru kennarar ekki að vinna vinnuna sína?

Í hvert skipti sem kennarar berjast fyrir bættum kjörum heyrist sama hljóð úr sama horni, að þeir séu ekki að vinna vinnuna sína. Horft er til viðveru í kennslustofunni með börnunum en síður er hugað að því að kennari þurfi að undirbúa kennsluna enda er starf kennarans ekki barnagæsla eins og ætla mætti af umræðunni. Sjaldnast veltir almenningur þó fyrir sér viðveru þingmanna í þingsal en salurinn er oftar en ekki tómur að undanskildum forseta og ræðumanni. Á sama tíma og atvinnulífið krefst aukins sveigjanleika er hávær krafa um að kennarar sitji í skólastofunni allan daginn og vinni sína vinnu þar. Hverju breytir það fyrir þjóðfélagið hvort kennarar undirbúa sig í skólastofunni milli tvö og fjögur eða heima hjá sér á sama tíma eða öðrum tíma? Það er kannski kominn tími á að við viðurkennum að kennarar þurfa tíma til undirbúnings…!

Nú og þar sem stöðugt dynur á þreyttum kennurum að þeir vinni ekki vinnuna sína, séu meira eða minna að dunda sér í sólbaði og hanga í Kringlunni þá neyðast þeir til þess að reyna að svara fyrir misskilninginn. Úr verður að kjarabarátta grunnskólakennara snýst um mínútur á meðan hið raunverulega vandamál er skortur á virðingu fyrir starfi kennara. Sá skortur er kannski um margt vegna þess að litið er á stéttina sem eina heild og hundrað góðir kennarar þurfa að gjalda fyrir einn slæman.

Hvernig við getum hafið starf grunnskólakennarans til virðingar á ný er erfið spurning en hún hlýtur að beinast að kennurunum sjálfum en einnig að foreldrum og öðrum í samfélaginu. Og hvernig kennarar geta farið fram á leiðréttingu launa sinna á annan hátt en með verkfalli er líka erfið spurning. Séu þeir sem amast við verkfallsrétti kennara með svar við henni er þess óskað hið fyrsta.

Þægilegir stólar eru ekki nóg

Kannski er kominn tími á að skólakerfið fái tækifæri til þess að vaxa og dafna í takt við breytta tíma. Kannski er vandi kennara ekki fólginn í of mörgum mínútum innan veggja skólans heldur einmitt í skipulagi skólakerfisins. Það er kominn tími á að hætta að múra allt skólastarf inni í stofu með þrjátíu borðum, þótt stólarnir séu þægilegir. Þrátt fyrir að forsvarsmenn menntamála dásami sveigjanleikann og láti sem skólakerfið sé uppfullt af honum þá steypum við alla nemendur í sama mót. Þetta mót kallast samræmd próf í ákveðnum fögum. Þá látum við öll börn á sama aldri vera í sama bekk með sama kennara, alltaf. Ekki er það mikill sveigjanleiki. Það gáfulegasta sem okkur dettur svo í hug er að skipta eftir getu til þess eins að búa til elítu og passa upp á að ellefu ára börn sem eiga erfitt með að reikna geri sér nú pottþétt grein fyrir því að þau séu ekki alveg jafn góð og hinir.

Niðurstaða: Hættum að byggja skóla utan um úrelt skólastarf. Fleygjum samræmdum prófum og leyfum hinum rómaða sveigjanleika líka að eiga heima innan veggja skólans.